Stjórnarháttayfirlýsing
Góðir stjórnarhættir Íslenska lífeyrissjóðsins leggja grunninn að traustum samskiptum sjóðfélaga, stjórnarmanna og stjórnenda sjóðsins og stuðla að hlutlægni, heilindum, gagnsæi og ábyrgð í stjórnun við rekstur sjóðsins. Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins leggur áherslu á að viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti sé fylgt og að stjórnarhættir sjóðsins á hverjum tíma séu í samræmi við þær leiðbeiningar.
Íslenski lífeyrissjóðurinn
Íslenski lífeyrissjóðurinn er almennur lífeyrissjóður sem starfar skv. lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Íslenski lífeyrissjóðurinn er með rekstrarsamning við Landsbankann hf. sem sér um daglegan rekstur sjóðsins.
Stjórnarhættir
Stjórnarháttayfirlýsing þessi er í samræmi við 51. gr. reglna um ársreikninga lífeyrissjóða nr. 335/2015. Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins fylgir viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Yfirlýsing um stjórnarhætti er birt á vef Íslenska lífeyrissjóðsins. Íslenski lífeyrissjóðurinn fylgir leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja sem gefnar voru út 1. júlí 2021 (6. útg.) af Viðskiptaráði Íslands, Nasdaq OMX Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins.
Frávik frá leiðbeiningum um stjórnarhætti
Íslenski lífeyrissjóðurinn uppfyllir ákvæði leiðbeininganna. Sjóðurinn víkur að hluta til frá leiðbeiningunum um stjórnarhætti fyrirtækja og á það við ákvæði sem eiga ekki við um lífeyrissjóði. Má þar helst nefna atriði sem varða hluthafafundi og hluthafa, starfskjarastefnu, starfskjaranefnd og tilnefningarnefnd. Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur tekið saman yfirlit um atriði í leiðbeiningunum sem fylgt er að hluta eða eiga ekki við. Yfirlitið er aðgengilegt á heimasíðu sjóðsins.
Aðrar reglur og viðmið sem einnig er farið eftir og eiga sérstaklega við um starfsemi lífeyrissjóða
Um starfsemi Íslenska lífeyrissjóðsins gilda lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, reglugerðir, reglur og tilmæli FME og Seðlabankans og ýmis önnur lagaákvæði um lífeyrissjóði. Samkvæmt 29. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, ber stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög, reglugerðir settar samkvæmt þeim og samþykktir sjóðsins. Stjórn lífeyrissjóðs skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Stjórnin setur sér starfsreglur. Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á að stjórnarhættir og innra skipulag sjóðsins stuðli að skilvirkri og varfærinni stjórn hans. Stjórn sjóðsins skal árlega endurmeta stjórnarhætti sína með tilliti til viðurkenndra leiðbeininga um stjórnarhætti og bregðast við með viðeigandi hætti ef þörf er á.
Áhættustjórnun og innra eftirlit
Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins ber ábyrgð á því að fyrir hendi sé virk áhættustjórnun og innra eftirlitskerfi. Lögð er áhersla á aðgreina helstu áhættuþætti sem steðja að rekstri sjóðsins og að innleiddar séu fyrirbyggjandi eftirlitsaðgerðir til að draga úr áhættu. Tilgangur innra eftirlits er að stuðla að því að sjóðurinn nái markmiðum sínum varðandi rekstur, ávöxtun, áhættuvilja og áreiðanlegar fjárhagsupplýsingar og hlíti lögum og reglum. Það er stefna sjóðsins að taka aðeins áhættu sem hann skilur, getur metið og mætt.
Árangursrík áhættustjórnun er lykilþáttur í rekstri sjóðsins. Í áhættustjórnun felst greining, mat og stýring á áhættuþáttum í rekstri sjóðsins og að sjóðurinn hafi skilvirkt skipulag til að mæta áhættu og/eða miðla upplýsingum um áhættu til grundvallar upplýstri ákvarðanatöku. Lögð er áhersla á að við rekstur sjóðsins sé viðhöfð fagleg áhættustjórnun.
Áhættustjórnun og innra eftirlit er samofið daglegri starfsemi sjóðsins. Stjórnendur sjóðsins bera ábyrgð á eftirliti og stjórnun á áhættum sem steðja að sjóðnum og eignum hans. Öflug eftirfylgni með ákvörðunum og vöktun áhættu er hluti innra eftirlits.
Íslenski lífeyrissjóðurinn fer eftir áhættustefnu og áhættustýringarstefnu. Í áhættustýringarstefnunni eru settar fram verklagsreglur um það hvernig mæla skuli helstu áhættuþætti sem snerta rekstur sjóðsins; lífeyristryggingaráhættu, markaðsáhættu, eigna- og skuldbindingajöfnuð, rekstraráhættu, stjórnarhætti, mótaðilaáhættu, lausafjáráhættu, samþjöppunaráhættu, aðra áhættuþætti, álagspróf séreignardeildar og vikmarkaeftirlit. Áhættustýringarstefnan gerir ráð fyrir að fylgst sé með breytingum á áhættu sjóðsins með reglubundnum hætti.
Áhættustýring sjóðsins er í höndum sérstaks áhættustjóra.
Persónuvernd
Í júní 2018 voru samþykkt ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Þau lög eru byggð á nýrri tilskipun ESB um persónuvernd, GDPR. Í samræmi við efni laganna hefur Íslenski lífeyrissjóðurinn skipað sjóðnum persónuverndarfulltrúa.
Samfélagsleg ábyrgð og siðferðisviðmið
Íslenski lífeyrissjóðurinn hefur það markmið að varðveita og ávaxta iðgjöld sjóðfélaga sinna með ábyrgum hætti. Við ákvörðun fjárfestinga er lagt til grundvallar að sjóðurinn er langtímafjárfestir og allir fjárfestingarkostir metnir sem slíkir. Ábyrgur rekstur, góðir stjórnarhættir, sjálfbærni, samfélagsleg ábyrgð og eftirfylgni við lög og reglur er að mati Íslenska lífeyrissjóðsins grundvöllur árangurs og framfara. Við mat fjárfestingarkosta er litið til framangreindra þátta og þeir lagðir til grundvallar fjárfestingarákvarðana auk hefðbundinna arðsemissjónarmiða. Íslenski lífeyrissjóðurinn er stofnaðili að Iceland SIF sem er íslenskur umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar, sem stofnaður var 13. nóvember 2017. Tilgangur félagsins er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Íslenski lífeyrissjóðurinn er jafnframt aðili að Festu – miðstöð um samfélagábyrgð og sjálfbærni. Stefna Íslenska lífeyrissjóðsins um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar, auk starfs- og siðareglna, marka siðferðileg viðmið sjóðsins í fjárfestingum. Stefnan og reglurnar eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins.
Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins
Stjórn skal sjá um að skipulag sjóðsins og starfsemi séu jafnan í góðu horfi og í samræmi við lög og reglur sem gilda um sjóðinn. Hlutverk stjórnar er skilgreint í samþykktum og starfsreglum stjórnar. Auk þess hefur stjórn sjóðsins lögbundnu hlutverki að gegna. Starfs- og siðareglur Íslenska lífeyrissjóðsins eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins. Þá hefur stjórnin sett verklagsreglur um viðskipti stjórnarmanna og starfsmanna Íslenska lífeyrissjóðsins með fjármálagerninga. Reglurnar hafa verið staðfestar af Fjármálaeftirlitinu. Stjórn sjóðsins hélt 14 formlega stjórnarfundi á árinu 2022.
Í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins eru fimm stjórnarmenn og tveir varamenn. Allir stjórnarmenn eru kosnir á ársfundi og skipaðir til þriggja ára í senn. Á árinu 2018 voru gerðar þær breytingar á samþykktum sjóðsins að frá og með aðalafundi á árinu 2019 verða allir stjórnarmenn kosnir af sjóðfélögum á aðalfundi sjóðsins til þriggja ára í senn í stað tveggja áður. Á aðalfundi á árinu 2019 var þó gerð sú undantekning að tveir aðalmenn voru kosnir til þriggja ára og einn til tveggja ára. Á aðalfundi 2019 var einn varamaður kosinn til þriggja ára. Á aðalfundi 2021 var einn aðalmaður kosinn til þriggja ára.
Í stjórn sjóðsins eru:
Atli Atlason, formaður
Atli Atlason f. 1966, er deildarstjóri kjaradeildar hjá Landspítala. Hann lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands 1986 og Cand. oecon prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands 1992. Starfaði sem forstöðumaður fjármála- og rekstrarsviðs Fiskistofu 1992-1999, forstöðumaður starfmannahalds Búnaðarbankans 1999-2003, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbanka Íslands hf. 2003-2008, framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Landsbankans 2008-2010 og deildarstjóri kjaradeildar hjá Reykjavíkurborg 2012-2018. Hefur setið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá október 2009, sem varaformaður stjórnar frá maí 2011 og formaður stjórnar frá febrúar 2013. Atli var kosinn til þriggja ára á aðalfundi 2022 og er hann því skipaður til ársins 2025.
Snorri Ómarsson, varaformaður
Snorri Ómarsson, f. 1971, er starfandi flugstjóri hjá Icelandair og hefur gegnt störfum þjálfunarflugstjóra með hléum frá árinu 2017. Lauk stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1991, BS prófi í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1999 og meistaraprófi í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011. Starfsmaður Icelandair frá 1998-2007 og aftur frá 2009. Starfsmaður í greiningardeild Landsbanka Íslands hf. frá 2007-2009. Í sparisjóðsnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna, FÍA, vorið 2013. Í Trúnaðarráði FÍA árið 2011-2012. Í Starfsráði FÍA/Icelandair frá 2012-2018. Í samninganefnd FÍA frá árinu 2013-2014 og unnið að sérfræðistörfum fyrir nefndina frá árinu 2016. Varamaður í stjórn Eftirlaunasjóðs atvinnuflugmanna frá 1999-2005. Í Alþjóðanefnd FÍA frá árinu 2017-2018. Formaður Fjármála- og greiningardeildar FÍA frá vori 2020. Snorri hefur setið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá júní 2011, og verið varaformaður stjórnar frá árinu 2013. Formaður Fjárfestingarráðs sjóðsins frá vori 2020. Snorri var kosinn til þriggja ára á aðalfundi 2020 og er hann því skipaður til ársins 2023.
Erla Ósk Ásgeirsdóttir
Erla Ósk Ásgeirsdóttir, f. 1977, starfar sem framkvæmdastjóri sjálfbærni og menningar hjá Símanum. forstöðumaður mannauðsmála hjá The Reykjavík EDITION ásamt því að sitja í framkvæmastjórn félagsins. Áður starfaði hún sem forstöðumaður hjá The Reykjavik EDITION og þar áður sem forstöðumaður mannauðs- og menningar hjá Icelandair hótelum. Erla hefur setið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá árinu 2012. Þá hefur hún verið varamaður í stjórn Landssamtaka lífeyrissjóða frá árinu 2015 en hún er jafnframt varamaður í stjórn Íslandsstofu. Erla Ósk er formaður ferðamálaráðs og situr í Útflutnings- og markaðsráði. Erla er með MPA gráðu frá Háskóla Íslands auk B.A. prófs í stjórnmálafræði frá sama skóla. Erla útskrifaðist með alþjóðlegt IATA/UFTA próf frá Ferðamálaskóla Íslands árið 1999. Erla Ósk hefur lokið námi um árangur og ábyrgð stjórnarmanna hjá Háskólanum í Reykjavík. Erla var kosin til þriggja ára á aðalfundi 2020 og er hún því skipuð til ársins 2023.
Una Eyþórsdóttir
Una Eyþórsdóttir f. 1955, var mannauðsstjóri hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands frá 2011 til 2022. Hún er viðskiptafræðingur MBA frá Háskóla Íslands 2002 og MS í mannauðsstjórnun frá sama skóla 2011. Starfaði hjá Icelandair frá 1975 til 2008 lengst af sem starfsmannastjóri í framkvæmdastjórn, forstöðumaður starfsþróunar og deildarstjóri notendasviðs tölvudeildar. Una stofnaði og rak Ferðaskóla Flugleiða sem var viðurkenndur alþjóðlegur ferðaskóli sem starfaði í 10 ár. Hún hefur starfað við ráðgjöf í mannauðsmálum og við kennslu og setið í kjaranefndum fyrirtækja. Una hefur sótt námskeið um ábyrgð og árangur stjórnarmanna hjá HR. Hún hefur setið í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá 2011. Una var kosin til þriggja ára á aðalfundi ársins 2021 og er hún því skipuð til ársins 2024.
Þórir Óskarsson
Þórir Óskarsson f. 1976, er tryggingastærðfræðingur hjá Sjóvá. Lauk B.Sc. prófi í stærðfræði frá HÍ árið 2000 og stundaði nám í tryggingastærðfræði við Kaupmannahafnarháskóla 2003 til 2006 og lauk Cand. Act. prófi þaðan haustið 2006. Hann hlaut viðurkenningu FME sem tryggingastærðfræðingur 5. janúar 2009 og var sá fyrsti í 10 ár til að hljóta þá viðurkenningu. Starfaði hjá Vátryggingafélagi Íslands 2009-2020, m.a. sem forstöðumaður áhættustýringar og tryggingastærðfræðingur félagins. Starfaði sem tryggingastærðfræðingur hjá dönsku tryggingafélagi 2006-2009. Í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá október 2009 auk þess að sitja í endurskoðunarnefnd sjóðsins, formaður nefndarinnar frá 2011. Þórir var kosinn til þriggja ára á aðalfundi 2022 og er hann því skipaður til ársins 2025.
Varamenn í stjórn eru:
Guðríður Sigurðardóttir
Guðríður Sigurðardóttir, f 1970, er meðeigandi og ráðgjafi hjá Attentus mannauður og ráðgjöf ehf. Guðríður lauk MA gráðu í forystu og breytingastjórnun frá EADA Business School og BA gráðu frá Háskóla Íslands í spænsku og fjölmiðlafræði, námi í starfsmannastjórnun frá Endurmenntun HÍ og stjórnendamarkþjálfun (e. Executive Coaching) frá Opna Háskólanum í Reykjavík og Coach University. Guðríður var kosin til þriggja ára á aðalfundi 2022 og er hún því skipuð til ársins 2025.
Valur Ægisson
Valur Ægisson, f. 1984, er forstöðumaður viðskiptastýringar Landsvirkjunar. Lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands 2004, B.Sc. í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2007 og M.Sc. í rekstarverkfræði frá Masdar Institute 2011. Próf í verðbréfaviðskiptum 2008. Námskeið um árangur og ábyrgð stjórnarmanna hjá Háskólanum í Reykjavík 2017. Starfaði áður í eignastýringu Landsbankans hf. og Íslandsbanka hf. Varamaður í stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins frá 2014, í endurskoðunarnefnd sjóðsins 2018-2020 og fjárfestingaráði frá 2020. Valur var kosinn til þriggja ára á aðalfundi 2020 og er hann því skipaður til ársins 2023.
Sjálfsmat stjórnar
Stjórn sjóðsins metur reglubundið þekkingu og reynslu stjórnarmanna. Tilgangur matsins var að kortleggja þekkingu, kunnáttu og reynslu hvers stjórnarmanns með hliðsjón af helstu hliðum rekstrar lífeyrissjóðsins og meta þannig styrkleika og veikleika stjórnarinnar í heild. Það er mat stjórnar sjóðsins að hún búi yfir góðri þekkingu á málefnum lífeyrissjóðsins og lífeyrismálum almennt. Stjórnarmenn eru virkir á stjórnarfundum og upplýsingagjöf og skipulag stjórnarfunda er í góðu horfi.
Mæting aðalmanna á stjórnarfundi ársins 2022
Á árinu 2022 voru haldnir 13 stjórnarfundir og einn starfsdagur. Mæting á stjórnarfundi: Atli Atlason, formaður, 13 fundir, Snorri Ómarsson, varaformaður, 12 fundir, Erla Ósk Ásgeirsdóttir, 11 fundir, Una Eyþórsdóttir, 13 fundir og Þórir Óskarsson, 13 fundir.
Óhæði stjórnarmanna
Stjórnarmenn eru óháðir Íslenska lífeyrissjóðnum og rekstraraðila sjóðsins, Landsbankanum hf.
Endurskoðunarnefnd
Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins skipar 3 nefndarmenn í endurskoðunarnefnd. Hlutverk endurskoðunarnefndar er m.a. að sinna eftirliti með endurskoðun ársreiknings sjóðsins og eftirliti með vinnuferlum við gerð reikningsskila. Nefndarmenn í endurskoðunarnefnd Íslenska lífeyrissjóðsins á árinu 2022 voru Þórir Óskarsson, formaður, Una Eyþórsdóttir og Örn Þorbergsson. Stjórn lífeyrissjóðsins hefur sett nefndinni starfsreglur þar sem kemur m.a. fram markmið, heimildir, skipulag, fundarstörf, hlutverk og ábyrgð. Endurskoðunarnefnd hélt 4 fundi á árinu 2022 og mættu allir nefndarmenn á alla fundi nefndarinnar. Starfsreglur endurskoðunarnefndar eru aðgengilegar á heimasíðu sjóðsins.
Fjárfestingaráð
Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins skipar 3 menn í fjárfestingaráð. Samkvæmt starfsreglum fjárfestingaráðs er meginhlutverk þess að fylgjast með fjárfestingum sjóðsins og gæta hagsmuna sjóðins gagnvart þeim aðila sem falið er að annast eignastýringu fyrir sjóðinn. Á árinu 2022 sátu Erla Ósk Ásgeirsdóttir, Snorri Ómarsson aðalmenn og Valur Ægisson varamaður í fjárfestingaráð. Snorri var formaður ráðsins. Fjárfestingaráð hélt 3 fundi á árinu 2022 og mættu allir ráðsmenn á alla fundi.
Framkvæmdastjóri
Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem sjóðstjórn hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikils háttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá sjóðstjórn. Framkvæmdastjóra er óheimilt að taka þátt í atvinnurekstri nema að fengnu leyfi stjórnar. Framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins er Ólafur Páll Gunnarsson.
Ólafur Páll Gunnarsson, f. 1968, er Cand. Jur. frá Háskóla Íslands 1996 og LLM frá University of London, Queen Mary 2006. Ólafur Páll hefur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Hann var lögfræðingur í fjármálaráðuneytinu frá 2000 til 2006, lögfræðingur í Landsbanka Íslands hf., síðar Landsbankanum hf. frá 2008 til 2013. Framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins og Lífeyrissjóðs Tannlæknafélags Íslands frá 2013.
Ábyrgðaraðili áhættustýringar
Ábyrgðaraðili áhættustýringar er Pétur Péturson. Pétur útskrifaðist sem viðskiptafræðingur (B.Sc.) frá Háskólanum í Reykjavík 2007. Þá hefur Pétur lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Pétur hóf störf í Landsbanka Íslands hf. árið 2005, síðar Landsbankanum, fyrst í útibúi á árunum 2005 til 2007, í Verðbréfa- og lífeyrisráðgjöf á árunum 2007 til 2011, sem fjárfestingarstjóri lífeyrissjóða í rekstri Landsbankans frá 2011 til 2020 og sem starfsmaður Viðskiptalausna hjá Eignastýringu og miðlun frá árinu 2020.
Persónuverndarfulltrúi
Pétur Pétursson er persónuverndarfulltrúi sjóðsins.
Endurskoðandi
Endurskoðandi sjóðsins árið 2022 var Rýni endurskoðun ehf.
Innri endurskoðandi
Innri endurskoðandi sjóðsins er innri endurskoðun Landsbankans hf.
Tryggingastærðfræðingur
Tryggingastærðfræðingur sjóðsins er Bjarni Guðmundsson tryggingastærðfræðingur.
Stjórnarháttayfirlýsing þessi var samþykkt á stjórnarfundi Íslenska lífeyrissjóðsins 26. apríl 2023.