1. Um stefnuna
Með stefnu um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar lýsir Íslenski lífeyrissjóðurinn skýrum vilja til að leggja aukna áherslu á sjálfbærni, umhverfis- og loftslagsmál, jákvæð samfélagsáhrif og góða stjórnarhætti við rekstur sjóðsins og fjárfestingarákvarðanir. Íslenski lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á ábyrgar fjárfestingar, þ.m.t. að fjármunir sjóðfélaga nýtist til að hafa jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag og takmarka eins og kostur er neikvæð áhrif af fjárfestingum. Stefnan tekur mið af reglum og öðrum stefnum Íslenska lífeyrissjóðsins, svo sem fjárfestingarstefnu, áhættustefnu og áhættustýringarstefnu, starfs- og siðareglum og yfirlýsingu um góða stjórnarhætti.
Tilgangur stefnunnar er að búa til skilvirka og trúverðuga nálgun á álitaefnum er snúa að sjálfbærni og ábyrgum fjárfestingum. Umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir eru lykilþættir í mati lífeyrissjóðsins á fjárfestingum. Það er mat lífeyrissjóðsins að fyrirtæki sem taka sérstakt tillit til þessara þátta í starfsemi sinni njóti ávinnings til lengri tíma litið.
Í samræmi við ákvæði 36. gr. laga nr. 129/1997 mótar stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn og einstakar deildir hans. Við mótun fjárfestingarstefnu, sem byggir á siðferðilegum viðmiðum, eru hagsmunir sjóðfélaga hafðir að leiðarljósi þar sem lagt er til grundvallar að hámarka ávöxtun eigna sjóðsins til lengri tíma að teknu tilliti til áhættu.
Sjálfbærni
Með hugtakinu sjálfbærni er almennt vísað til þess að auðlindir jarðar eru takmarkaðar og endanlegar og því geti notkun auðlinda ekki farið út fyrir tiltekin mörk án þess að skerða hagsmuni komandi kynslóða. Sjálfbær þróun er þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Íslenski lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að sjónarmið um sjálfbærni endurspeglist í rekstri sjóðsins og ákvörðunum stjórnenda og liggi jafnframt til grundvallar í fjárfestingarákvörðunum og við ávöxtun fjármuna sjóðsins.
UFS-þættir
Með UFS-þáttum er átt við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (e. environmental, social, governance, ESG). Viðmið í umhverfismálum snúa að því hvernig fyrirtæki gætir að umhverfislegum áhrifum starfsemi sinnar. Félagsleg viðmið snúa að því hvernig fyrirtæki koma fram við starfsfólk sitt, birgja, viðskiptavini og samfélagið sem það starfar í. Viðmið um stjórnarhætti snúa t.d. að stjórnun fyrirtækja, launum framkvæmdastjóra, innra eftirliti og réttindum hluthafa.
Ábyrgar fjárfestingar
Ábyrgar fjárfestingar fela í sér að fjárfestir skuldbindur sig til að stuðla að stöðugum umbótum á sviði sjálfbærni, umhverfismála, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Með ábyrgum fjárfestingum er ávallt leitast við að lágmarka neikvæð áhrif og ýta undir jákvæð áhrif fjárfestingar á umhverfi, starfsfólk og aðra hagsmunaaðila. Við ábyrgar fjárfestingar innleiðir fjárfestir áhættumat þar sem umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir fyrirtækja eru metnir þegar hugað er að fjárfestingu í þeim.
2. Áherslur Íslenska lífeyrissjóðsins
Stefna Íslenska lífeyrissjóðsins tekur mið af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.(1) Sjóðurinn hefur ákveðið að leggja sérstaka áherslu á jafnrétti kynjanna, loftslagsmál, ábyrga neyslu og framleiðslu og nýsköpun. Því verða heimsmarkmið nr. 5 (jafnrétti kynjanna), nr. 9 (nýsköpun og uppbygging), nr. 12 (ábyrg neysla og framleiðsla) og nr. 13 (aðgerðir í loftslagsmálum) í forgrunni við mat og greiningu fjárfestingarkosta.(2)
- Íslenski lífeyrissjóðurinn styður jafnrétti kynjanna.
- Íslenski lífeyrissjóðurinn styður nýsköpun í öllum atvinnugreinum.
- Íslenski lífeyrissjóðurinn styður innleiðingu hringrásarhugsunar í allri neyslu og framleiðslu til að tryggja að nýting auðlinda fari ekki yfir þolmörk náttúrunnar.
- Íslenski lífeyrissjóðurinn styður aðgerðir í loftslagsmálum. Skref í þeirri viðleitni er að meta kolefnisspor eignasafnsins og taka þátt í fjárfestingum sem stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda.
3. Aðferðafræði
Starfshættir Íslenska lífeyrissjóðsins varðandi sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar byggja á eftirfarandi aðferðafræði:
Greiningar og fjárfestingarákvarðanir
Í fjárfestingum Íslenska lífeyrissjóðsins eru sjálfbærni, umhverfismál, félagslegir þættir og stjórnarhættir samþætt í greiningar á fyrirtækjum með það að markmiði að öðlast heildstæða mynd af starfsemi fyrirtækis þannig að hægt sé að greina betur þau tækifæri og þá áhættu sem felst í fjárfestingunni. Mat á sjálfbærniáhættu skal fylgja sömu meginreglum og mat á fjárhagslegri áhættu. Mat á áhættu og tækifærum getur verið mismunandi eftir atvinnugreinum og eignaflokkum. Sjóðurinn getur nýtt sér greiningar þriðja aðila við áhættumat þegar kemur að greiningum á fjárfestingarkostum.
Virkar samræður
Íslenski lífeyrissjóðurinn vinnur með öðrum fjárfestum og hagsmunaaðilum að því að auka vitund um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar á Íslandi. Íslenski lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að vinna með fyrirtækjum að skilgreindum forgangsmálum sem eru viðeigandi fyrir starfsemi viðkomandi fyrirtækis. Tilgangurinn er að vera þátttakandi í að byggja upp vel rekin fyrirtæki sem starfa í góðri sátt við umhverfi sitt og samfélag og leitast við að hafa jákvæð áhrif, um leið og þau skila fjárfestum ávöxtun. Í tilfellum þar sem atvinnugreinar geta haft neikvæð umhverfis- eða samfélagsáhrif verður horft til þess með hvaða leiðum unnið er að því að draga úr þessum áhrifum innan viðkomandi fyrirtækis.
Neikvæð skimun
Það er ekki ætlun Íslenska lífeyrissjóðsins að beita neikvæðri skimun sem felur í sér að útiloka fjárfestingar í tilteknum fyrirtækjum. Sjóðurinn áskilur sér þó rétt til að útiloka fyrirtæki úr fjárfestingarmengi sínu. Neikvæðri skimun verður beitt í þeim tilvikum þegar aðrar leiðir hafa ekki reynst færar til að ná markmiðum sjóðsins.
4. Upplýsingagjöf
Íslenski lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á virka upplýsingagjöf um starfsemi sína, m.a. sjálfbærni- og fjárhagsupplýsingar. Sjóðurinn heldur yfirlit yfir þróun UFS-þátta og ábyrgra fjárfestinga hjá sjóðnum og birtir opinberlega með reglubundnum hætti. Slík upplýsingagjöf styður við rekstur sjóðsins og greiningu og mat á mismunandi fjárfestingarkostum.
5. Samstarf og viðmið
Íslenski lífeyrissjóðurinn er stofnaðili að IcelandSIF,(3) en tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Íslenski lífeyrissjóðurinn leggur áherslu á að samstarfsaðilar sjóðsins, þeir sem koma að greiningu fyrirtækja fyrir hönd sjóðsins og sjóðstjórar taki tillit til viðmiða um ábyrgar fjárfestingar í starfsemi sinni. Íslenski lífeyrissjóðurinn leitast eftir samstarfi við aðra fjárfesta, sjóðstjóra, greiningaraðila og hagsmunaaðila við að innleiða ábyrgar fjárfestingar á Íslandi.
Stefna Íslenska lífeyrissjóðsins um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar er sett með hliðsjón af reglum um ábyrgar fjárfestingar, Principles for Responsible Investment (UN PRI). UN PRI eru alþjóðleg samtök fjárfesta sem vinna saman að því að innleiða tiltekin grundvallarviðmið um ábyrgar fjárfestingar og njóta til þess stuðnings Sameinuðu þjóðanna.(4)
6. Birting og endurskoðun
Stefna þessi er birt á heimasíðu Íslenska lífeyrissjóðsins. Stjórn Íslenska lífeyrissjóðsins samþykkir stefnuna. Framkvæmdastjóri sjóðsins ber ábyrgð á innleiðingu og framkvæmd stefnu þessarar gagnvart stjórn. Stjórn sjóðsins endurskoðar stefnuna eftir því sem tilefni er til.
1) Heimsmarkmiðin voru samþykkt af fulltrúum allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna í september árið 2015 og gilda til ársins 2030. Markmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmið. Heimsmarkmiðin eru leiðarljós þeirra sem vilja stuðla að sjálfbærni í heiminum á næstu árum.2) Sjá nánar https://www.heimsmarkmidin.is/forsida/heimsmarkmidin/3) Sjá nánar http://www.icelandsif.is/4) Sjá nánar https://www.unpri.org/