Vikan framundan
- Í næstu viku fara fram verðmælingar vegna marsmælingar vísitölu neysluverðs.
- Í dag birtir Seðlabankinn útreikning á raungengi í febrúar
- Á þriðjudag birta Lánamál ríkisins mánaðarlegt markaðsupplýsingarit sitt.
- Á miðvikudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í febrúar og Ferðamálastofa talningu á ferðamönnum um Leifsstöð.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan fjármál hins opinbera fyrir 2020.
Mynd vikunnar
Á fimmtudag í síðustu viku fór fram ráðherrafundur OPEC og helstu olíuframleiðenda heims (fyrir utan Bandaríkin og Kanada). Ríkin ákváðu að auka ekki olíuframleiðslu næstu mánuði, en þessi ríki höfðu dregið úr framleiðslu til þess að bregðast við lækkun olíuverðs vegna minni eftirspurnar í kjölfar Covid-19-faraldursins. Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði töluvert í kjölfarið. Heimsmarkaðsverð á olíu hækkaði síðan áfram á föstudag og kostaði fatið af Brent meira en 69 USD/fatið í lok dags á föstudag. Þetta er hæsta gildið síðan í janúar í fyrra, þegar Covid-19-faraldurinn var rétta að byrja.
Það helsta frá síðustu viku:
- Í fyrra var 31 ma.kr. afgangur af viðskiptum við útlönd.
- Afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum nam 10,9 mö.kr. á fjórða ársfjórðungi.
- Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar er áfram mikill slaki á vinnumarkaði.
- Svo virðist sem mun meira hafi verið byggt af nýju húsnæði í fyrra en bráðabirgðatölur og spár gerðu ráð fyrir.
- Lífeyrissparnaður nam 6.050 mö.kr. í lok árs í fyrra.
- Vinnumálastofnun bárust tvær tilkynningar um hópuppsagnir í febrúar.
- Hagstofan birti bráðabirgðatölur um vöruviðskipti í febrúar, aflaverðmæti 2020 og veltu skv. virðisaukaskattsskýrslum.
- Krónan styrktist í febrúar.
- Landsbankinn seldi sértryggð bréf að nafnvirði 5,9 ma.kr. í útboði í febrúar. Hvorki Arion banki né Íslandsbanki héldu útboð.
- Eik lauk sölu á nýjum skuldabréfaflokki (þriðjudag), Reykjavíkurborg lauk skuldabréfaútboði (miðvikudag), Reginn lauk skuldabréfaútboði (fimmtudag) og Eik lauk skuldabréfaútboði (föstudag).