Morg­un­fund­ur um hagspá Lands­bank­ans 2019-2022

Hagspá Landsbankans fyrir árin 2019-2022 var kynnt á morgunfundi miðvikudaginn 30. október 2019. Yfirskrift fundarins var: Hagkerfið kemur inn til mjúkrar lendingar.
Frá morgunfundi um hagspá Landsbankans í Hörpu
31. október 2019 - Landsbankinn

Á fundinum var auk þess sérstaklega fjallað um stöðuna á húsnæðismarkaði og Jamie Rush, aðalhagfræðingur Evrópudeildar Bloomberg Economics í London ræddi um efnahagsleg áhrif popúlisma.

Fundinum lauk á pallborðsumræðu um stöðu og horfur í íslensku efnahagslífi.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða Landsbankans, stýrði fundinum og Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona, stýrði pallborðsumræðu.

Þarf fleiri og fjölbreyttari fjárfesta inn á markaðinn

Í stuttu opnunarerindi sínu ræddi Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, um stöðuna í efnahagslífinu. Í uppgjöri Landsbankans fyrir fyrstu níu mánuði ársins kom fram að að vanskil hjá fyrirtækjum hefðu aukist en Lilja benti á að það ætti þó alls ekki við um stöðuna hjá fyrirtækjum almennt, mörg væru að spjara sig mjög vel og ná góðum rekstrarárangri.

Hún vék einnig að umræðu um að bankar lánuðu ekki nægilega mikið til atvinnulífsins og benti á að á fyrstu níu mánuðum ársins hefðu útlán Landsbankans aukist um 70 milljarða króna, þar af hefðu útlán til fyrirtækja aukist um tæplega 30 milljarða króna. Lilja ræddi einnig um hlutabréfa- og skuldabréfamarkaðinn og mikilvægi þess að fá fleiri og fjölbreyttari fjárfesta inn á þessa markaði.

Þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans 2019-2022

Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, kynnti nýja hagspá sem nær til ársins 2022.

Daníel benti á að efnahagslífið á Íslandi hefði verið með kröftugasta móti síðustu ár. Frá 2011 hefði hér verið samfelldur hagvöxtur en toppurinn á hagsveiflunni hefði líklega verið árið 2016 þegar hagvöxtur var næstum 7%. Undanfarin tvö ár hefur hagvöxtur verið um það bil 4,5% og samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar fyrir fyrri árshelming þessa árs hefði hægt verulega á hagvexti.

Í hagspánni er gert ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman á þessu ári og að hagvöxtur verði neikvæður um 0,4%. Horfur séu á hóflegum efnahagsbata á næstu árum og spáir deildin því að hagvöxtur á Íslandi verði jákvæður um 2% árið 2020 og heldur meiri á árunum 2021 og 2022. Verðbólga verði nálægt verðbólgumarkmiði Seðlabankans og vextir lágir.

Daníel sagði löng hagvaxtarskeið ekkert einsdæmi í hagsögu Íslands. „Fram til þessa hefur hagvaxtarskeiðunum fylgt töluverður óstöðugleiki einkum í formi mikillar verðbólgu og halla á viðskiptum við útlönd ásamt skuldasöfnun bæði í opinbera geiranum og hjá heimilum og fyrirtækjum. Það hefur svo aftur kallað á tímabil aðlögunar sem oftar en ekki voru töluvert harkaleg og í sumum tilfellum mjög langdregin, eins og til dæmis tímabilið 1988-1995 þar sem hagvöxtur var lítill sem enginn í átta ár en verðbólga hins vegar há. Núverandi hagvaxtarskeið, sem líklega er að líða undir lok, er því einstakt í hagsögu okkar litla hagkerfis því þrátt fyrir að meðalhagvöxtur hafi verið töluvert yfir langtímahagvaxtargetu þjóðarbúsins hefur verðbólga verðið lág og stöðug. Og ekki nóg með það því skuldastaða heimila, fyrirtækja og ríkissjóðs er með besta móti auk þess sem Seðlabankinn hefur byggt upp mjög ríflegan óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð. Og það sem meira er þá eiga íslendingar nú meira af erlendum eignum en skuldum og hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins því jákvæð sem er nánast einstakt í hagsögu okkar,“ sagði Daníel.

Í hagspánni til 2022 er ekki gert ráð fyrir miklum hreyfingum á gengi krónunnar til næstu ára þó að einhverjar sveiflur muni alltaf eiga sér stað. Gert er ráð fyrir að evran kosti áfram 135 til 140 krónur út spátímabilið. Evran kosti 138 krónur í lok þessa árs og 139 krónur í lok árs 2020. Gert er ráð fyrir að verðbólgan verði komin niður fyrir markmið Seðlabankans (2,5%) í lok ársins og að hún verði í grófum dráttum í samræmi við verðbólgumarkmið Seðlabankans allt spátímabilið.

Hagfræðideild telur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka stýrivexti um 0,25 prósentustig fyrir áramót og að meginvextir bankans verði 3%. Eftir það er gert ráð fyrir nokkuð löngu tímabili með óbreyttu vaxtastigi. Gangi spáin um aukinn hagvöxt og lækkun atvinnuleysis árið 2021 eftir telur deildin líklegt að stýrivextir hækki í 3,25% í byrjun árs 2022.

Að lokum minnti Daníel á að efnahagsspár væru ávallt háðar mikilli óvissu sem snýr að þróun fjölda innlendra og erlendra þátta. Óvissan í spánni nú væri mikil, ekki síst varðandi horfur á hagvexti.

Hversu stöðugur er stöðugleikinn?

Una Jónsdóttir, hagfræðingur í Hagfræðideild, ræddi um stöðugleikann sem einkennt hefur húsnæðismarkaðinn síðustu mánuði. Una sagði að um töluverða breytingu væri að ræða. Því væri rétt að velta þeirri spurningu upp hvort stöðugleikinn væri kominn til að vera.

Una fjallaði um miklar hækkanir á íbúðaverði á síðustu árum. „Við sjáum að verð tók að hækka nokkuð hressilega á árunum 2016-2017, þá skjótast vísitölurnar bara beint upp og 12 mánaða hækkanir mældust hátt í 25% á ári þegar mest lét um mitt árið 2017. Það kannski segir sig sjálft að svona miklar verðhækkanir gátu ekki haldið áfram endalaust, það kemur að einhverjum þolmörkum. Á þessum tíma var spenna á húsnæðismarkaði, eftirspurn hafði vaxið mjög hratt en framboðið var af skornum skammti,“ sagði Una.

Talsvert af nýju húnæði hefði síðan kominn inn á markaðinn. Þrátt fyrir að nýjar íbúðir væru dýrari en þær sem eldri eru geti aukið framboð létt á spennunni og dempað þar með verðhækkanir. Aukið framboð væri mjög sennilega hluti skýringanna á því að jafnvægi hefði komist á markaðinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem 12 mánaða hækkun fasteignaverðs hefði verið á bilinu 3-5% það sem af er ári. Þá gætu boðaðar aðgerðir stjórnvalda í húsnæðimálum skapað biðstöðu á markaði. Staðan nú væri sú kaupmáttur hefði aukist hraðar en raunverð fasteigna sem væri mikil breyting frá síðustu árum þegar fasteignaverð hækkaði mun hraðar en laun og almennt verðlag.

Una fjallaði einnig um húsnæðimarkaðinn í sveitarfélögum í nágrenni við höfuðborgarsvæðið, s.s. í Árborg og Reykjanesbæ og benti á fylgni á milli lægra eldsneytisverðs og hærra fasteignaverðs á þessum svæðum. Lægra eldsneytisverð og notkun á hagkvæmari orkugjöfum, s.s. rafmagni, gæti lækkað kostnaðinn við  að búa á þessum svæðum og þar með aukið eftirspurnina eftir húsnæði.

Hagfræðideildin reiknar með að raunverð íbúða hækki um u.þ.b. 1% á ári næstu ár. Sé tekið mið af áætlaðri verðbólgu er gert ráð fyrir að nafnverðshækkun íbúðaverðs verði u.þ.b. 4% að jafnaði til ársloka 2022. Hækkun íbúðaverðs verði þannig lítil í sögulegu samhengi. Hófleg hækkun á íbúðaverði verði drifin áfram af hagstæðari lánakjörum, aukinni kaupgetu sem m.a. skýrist af breytingum á skattkerfinu og aðgerðum stjórnvalda.

Er verið að bjóða réttu vöruna?

Ari Skúlason, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, fjallaði töluvert um skort á áreiðanlegum upplýsingum um húsnæði í byggingu en þennan upplýsingaskort hefur Ari raunar oft áður gert að umtalsefni. Hann sagði að það væri ótrúleg staða að haldbærustu upplýsingarnar kæmu frá Samtökum iðnaðarins en könnun samtakanna færi þannig fram að fólk á þeirra vegum fari út á örkina, telji íbúðir og hús í byggingu og meti byggingarstig þeirra. Þær upplýsingar sem þó lægju fyrir um fjölda íbúða í byggingu bentu nú til þess að færri byggingaverkefni færu nú af stað en ekki væri mikill samdráttur framundan.

Ari benti einnig á að umræða síðustu ára hefði gengið út að mjög mikil eftirspurn væri eftir íbúðahúsnæði og að skortur væri á íbúðum. Að baki slíkum fullyrðingum væru oft ekki ýkja traustar rannsóknir og eftirspurn hefði væntanlega verið töluvert ofmetin. Þá hefðu ýmir brestir komið í ljós, s.s. ofmat á eftirspurn eftir dýrum íbúðum, miðsvæðis í Reykjavík. Eftirspurn eftir minni, einföldum og ódýrum íbúðum hefði á hinn bóginn verið vanmetin.

Undanfarið hefur töluvert verið byggt miðsvæðis í Reykjavík. Ari benti í sínu erindi á að svokallað miðborgarálag nýrra íbúða hefði minnkað verulega. Árið 2017 hefði meðalverð í miðborginni verið 20% hærra en í nálægum hverfum og um 30% hærra en á höfuðborgarsvæðinu öllu. Árið 2019 hefði meðalverð í miðborginni verið 6% hærra en í nálægum hverfum og 16% hærra en á höfuðborgarsvæðinu öllu.

Efnahagslegar afleiðingar popúlisma

Jamie Rush, aðalhagfræðingur Evrópudeildar Bloomberg Economics í London, fjallaði um efnahagslegar afleiðingar pópulisma. Hann sagði að popúlismi hefði haft veruleg neikvæð áhrif á heimshagkerfið. Ástæðurnar fyrir vaxandi pópulisma væru margar, m.a. vaxandi misskipting í heiminum, bæði meðal einstaklinga og fyrirtækja. „Ein aðalástæðan er að hinir ríkari hafa orðið ríkari,“ sagði hann og bætti við að misskipting meðal einstaklinga hefði aukist víðast hvar í heiminum. Hið sama mætti segja um fyrirtæki, þ.e. ríkari fyrirtæki hefðu orðið enn ríkari. Á sama tíma hefði samningsstaða launþega víða versnað og benti hann m.a. á að sífellt færri bandarískir launamenn væru aðilar að verkalýðsfélögum. Önnur meginástæða fyrir vaxandi pópulisma væru breytingar sem ættu sér á samsetningu vinnuafls í heiminum og áhrif sem þær hefðu á störf, ekki síst með aukinni háskólamenntun í ríkjum utan hins vestræna heims, s.s. í Kína. Engin sérstök merki væru um að þessi þróun, þ.e. vaxandi misskipting einstaklinga og fyrirtækja og breyting á stöðu launþega og samsetningu vinnuafls, væri að breytast. Þetta og ýmislegt fleira, s.s. breytingar á fjölmiðlamarkaði og áhrif samfélagsmiðla, ylli því að jarðvegurinn fyrir popúlisma yrði áfram frjór.

Afleiðingarnar af þessari stöðu mætti m.a. sjá í stjórnmálaþróun í Bretlandi og Bandaríkjunum. Ákvörðun um útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu hefði þegar haft neikvæð áhrif á hagvöxt í Bretlandi sem m.a. sæist á því að atvinnuvegafjárfesting í Bretlandi hefði staðnað á meðan fjárfesting í öðrum ríkjum í G-7 ríkjahópnum hefði haldið áfram að aukast. Jamie ræddi einnig um hvernig viðskiptastríð Bandaríkjanna og Kína og aukin óvissa hefði leitt til samdráttar í heimsviðskiptum. Óvissan hefði raunar haft meiri áhrif á heimsviðskipti heldur en auknir tollar. Að hans mati mætti búast við meiri stöðugleika og minni óvissu á næsta ári og þar með meiri vexti í heimshagkerfinu.

Pallborðsumræða um stöðu og horfur í efnahagslífinu

Fanney Birna Jónsdóttir, fjölmiðlakona, stýrði pallborðsumræðu.

Meðal þess sem fram kom í umræðunni var að bæði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Samtaka iðnaðarins og Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi telja að hagspá Landsbankans sé full bjartsýn. Eggert Þór sagði að staðan væri aðeins verri en spáin segði til um. „Verkalýðshreyfingin dró aðeins tennurnar úr mannskapnum hér á Íslandi sumarið 2018 þegar hún byrjaði að tala um að þetta yrði versti vetur allra tíma í kjarabaráttu. Það tekur tíma að fá fólk til að trúa því að þeir félagar höfuðu rangt fyrir sér,“ sagði hann. Guðrún sagði að kostnaður fyrirtækja hefði hækkað mikið á síðustu árum. Þetta ætti við um aðföng, rafmagn, fasteignagjöld og fleira. „Þannig að staðan hjá mörgum fyrirtækjum er mjög þröng og mjög erfið,“ sagði hún.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, sagði að óvissan væri meiri en oft áður, bæði í heimshagkerfinu og í alþjóðapólitíkinni. Hann sagðist vera bjartsýnn en hefði þó áhyggjur af þeim möguleika að efnahagslífið færi inn í samdráttarskeið samhliða mjög lágum vöxtum. Hann benti einnig á að alþjóðlegt regluverk og formkröfur væri sífellt að verða flóknara sem hafi m.a. þau áhrif að minni fyrirtæki ættu erfiðara með að byggja sig upp. Hið sama gilti mögulega um lítil þjóðfélög.

Í pallborðsumræðunni var rætt um samfélagslega ábyrgð og sagði Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, að samfélagsábyrgð þyrfti að vera mjög samtvinnuð öllum fyrirtækjarekstri. „Þetta snýst ekki um mjúku málin heldur beinharðan árangur til framtíðar,“ sagði hún.

Þú gætir einnig haft áhuga á
1. okt. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 1. október 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Byggingakrani og fjölbýlishús
30. sept. 2024
Vikubyrjun 30. september 2024
Verðbólga í september var nokkuð undir væntingum og lækkaði úr 6,0% niður í 5,4%. Þrátt fyrir það teljum við að peningastefnunefnd vilji sýna varkárni þegar hún hittist í byrjun vikunnar og haldi vöxtum óbreyttum á miðvikudaginn.
Bakarí
27. sept. 2024
Verðbólga undir væntingum annan mánuðinn í röð - lækkar í 5,4%
Vísitala neysluverðs lækkaði um 0,24% á milli mánaða í september, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 6,0% í 5,4%, eða um 0,6 prósentustig. Verðbólga hefur ekki mælst lægri síðan í desember 2021.
27. sept. 2024
Spáum varkárni í peningastefnu og óbreyttum vöxtum
Ýmis merki eru um nokkuð kröftuga eftirspurn í hagkerfinu þótt verðbólga sé á niðurleið og landsframleiðsla hafi dregist saman það sem af er ári. Kortavelta eykst statt og stöðugt á milli ára, íbúðaverð er á hraðri uppleið, velta á íbúðamarkaði er meiri en í fyrra og atvinnuleysi hefur ekki aukist að ráði. Við teljum að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum áfram óbreyttum í 9,25% í næstu viku, sjöunda skiptið í röð.
Þjóðvegur
23. sept. 2024
Vikubyrjun 23. september 2024
Í vikunni birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fjármálastöðugleikaskýrslu. Þá gefur Hagstofan út verðbólgumælingu fyrir septembermánuð á föstudag. Í síðustu viku gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs sem hækkaði talsvert á milli mánaða og vísitölu leiguverðs sem lækkaði á milli mánaða. Kortaveltugögn sem Seðlabankinn birti í síðustu viku benda til þess að þó nokkur kraftur sé í innlendri eftirspurn eftir vörum og þjónustu.
Alþingishús
16. sept. 2024
Vikubyrjun 16. september 2024
Í vikunni birtist meðal annars vísitala íbúðaverðs, vísitala leiguverðs og tölur um veltu greiðslukorta í ágúst. Í síðustu viku birtust tölur um fjölda ferðamanna sem hingað komu í ágúst, en þeir voru svipað margir og í ágúst í fyrra. Atvinnuleysi jókst lítillega á milli mánaða í ágúst. Fjárlög fyrir 2025 voru kynnt.
12. sept. 2024
Spáum að verðbólga lækki í 5,7% í september
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,08% á milli mánaða í september og að verðbólga lækki úr 6,0% niður í 5,7%. Við eigum von á áframhaldandi lækkun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,9% í lok árs.
9. sept. 2024
Vikubyrjun 9. september 2024
Í þessari viku ber hæst útgáfa á tölum um fjölda ferðamanna í ágúst og skráð atvinnuleysi á morgun. Í síðustu viku birtist fundargerð peningastefnunefndar þar sem fram kom að allir nefndarmenn voru sammála um að halda vöxtum óbreyttum á síðasta fundi, ólíkt því sem var síðustu þrjá fundi þar áður þar sem einn nefndarmaður vildi lækka vexti um 0,25 prósentustig.
6. sept. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Lyftari í vöruhúsi
5. sept. 2024
Halli á viðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi
Halli mældist á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs, ólíkt öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar lítils háttar afgangur mældist. Það var afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum, en halli á vöruskiptum og rekstrarframlögum. Hrein staða þjóðarbúsins versnaði lítillega á fjórðungnum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur