Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst þó nokkuð umfram væntingar. Aukinn verðþrýstingur virðist á nokkuð breiðum grunni en skýrist ekki síst af verðhækkun á innfluttum vörum. Við höfum uppfært verðbólguhorfur töluvert og teljum nú horfur á 4,0% verðbólgu í júlí, 4,2% í ágúst, 4,4% í september og 4,5% í október. Fyrr í júní birtum við spá um 3,7% verðbólgu í júlí, 3,9% í ágúst, 4,1% í september og 4,2% í október.
Í takt við aukinn verðbólguþrýsting hafa umsvif í hagkerfinu reynst meiri en búist var við. Hagvöxtur mældist 2,6% á fyrsta ársfjórðungi, kortavelta hefur aukist á milli ára að raunvirði með hverjum mánuðinum og raunvelta í hagkerfinu var þó nokkuð meiri á fyrstu fjórum mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra. Áfram má telja horfur á neyslukrafti í hagkerfinu: Íslendingar hafa aldrei farið í jafnmargar utanlandsferðir og á síðustu mánuðum en á sama tíma hafa innlán heimila haldið áfram að aukast. Þá hefur gengi krónunnar styrkst talsvert upp á síðkastið, án þess þó að draga úr innfluttri verðbólgu. Atvinnuleysi hefur aukist fremur hóflega og verið 0,3-0,4 prósentustigum meira í hverjum mánuði þessa árs heldur en í fyrra.
Þegar aukin umsvif í hagkerfinu byggja ekki á aukinni framleiðni er hætta á þenslu og verðbólgu. Hætt er við því að ekki takist að koma verðbólgu í markmið án þess að hægja frekar á umsvifum í hagkerfinu. Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur næst saman þann 20. ágúst og ef fram fer sem horfir má telja ólíklegt að vextir verði lækkaðir.
Íbúðaverð hækkaði smám saman á fyrstu fjórum mánuðum ársins en lækkaði svo í maí, um 0,45%. Lækkunin var drifin áfram af verðlækkun á sérbýli á höfuðborgarsvæðinu, sem lækkaði um 2,1%. Verð á landsbyggðinni hækkaði, bæði á fjölbýli og sérbýli.
Seðlabankinn birti Hagvísa í lok júní, sem bera þess merki að áfram hafi slaknað á spennu á vinnumarkaði. Sífellt stærri hluti stjórnenda fyrirtækja telur framboð af starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði vera nægjanlegt og fyrirtækjum sem hafa áform um að fjölga starfsfólki á næstu mánuðum hefur fækkað frá því í mars.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









