Vikan framundan
- Í dag birta Icelandair og Play flutningstölur.
- Á þriðjudag birtir Seðlabankinn útreikning á raungenginu og veltu á gjaldeyrismarkaði.
- Á miðvikudag birta Lánamál ríkisins Markaðsupplýsingar.
- Á fimmtudag birtir Kvika banki árshlutauppgjör og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi. Samkvæmt útgáfuáætlun áætlar Ferðamálastofa að birta talningu á fjölda brottfara um Leifsstöð þann dag. Einnig fáum við verðbólgutölur frá Bandaríkjunum þennan dag.
- Á föstudag birtir Hagstofan þjóðhagsspá.
Mynd vikunnar
Heildarfjöldi gistinótta á öllum tegundum skráðra gististaða hér á landi voru 7,1 milljón á fyrstu 9 mánuðum ársins, sem er mesti fjöldi sem mælst hefur frá upphafi. Þetta eru 155 þúsund fleiri gistinætur en á fyrstu níu mánuðum ársins 2018 sem til þessa var metárið. Svo virðist sem Íslendingar séu orðnir duglegri að ferðast um landið en fyrir faraldur, en gistinóttum Íslendinga á fyrstu níu mánuðum ársins fjölgaði um 60% miðað við sama tímabil árið áður en faraldurinn skall á (2019). Gistinóttum útlendinga fækkaði um 4% miðað við sama tímabil á meðan erlendrum ferðamönnum fækkaði um 20%. Þetta bendir til þess að erlendir ferðamenn séu að dvelja lengur en fyrir faraldur. Taka skal fram að hluti gistinótta í gegnum Airbnb eru óskráðar og því ekki inni í þessum tölum, sem kann að skekkja myndina..
Það helsta frá vikunni sem leið
- Bæði Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki hækkuðu vexti um 0,75 prósentustig í síðustu viku, en Evrópski seðlabankinn tilkynnti um 0,75 prósentustiga hækkun vikuna áður. Hækkanirnar voru allar í samræmi við væntingar. Eftir þessar hækkanir eru stýrivextir 4% í Bandaríkjunum, 3% í Bretlandi og 2% á evrusvæðinu. Það komu einnig verðbólgutölur fyrir evrusvæðið í síðustu viku, en verðbólgan mældist 10,7% í október samanborið við 9,9% í september.
- Af hagtölum hér á landi var það helst að frétta að Hagstofan birti niðurstöður úr vinnumarkaðsrannsókn sinni fyrir 3F og gistinætur í september. Seðlabankinn birti talnaefni um lífeyrissjóði.
- Fjögur skuldabréfaútboð voru í síðustu viku, en Orkuveita Reykjavíkur, Lánamál ríkisins, Arion banki og Reykjavíkurborg héldu útboð. Auk þess gaf HS Veitur út nýjan grænan skuldabréfaflokk.
- Eimskip, Marel (fjárfestakynning), Play, Sýn og Reginn birtu árshlutauppgjör.
- Við birtum Hagsjár um losun gróðurhúsalofttegunda, íbúðauppbyggingu, sértryggð skuldabréf og hlutabréfamarkaðinn. Auk þess tókum við upp hlaðvarpsþátt um íbúðamarkaðinn og lánaumhverfið.