Vikubyrjun 12. janúar 2026

Vikan framundan
- Á morgun verða birtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum.
- Á fimmtudag birtum við verðbólguspá. Hagar birta uppgjör.
- Á föstudag birtir Seðlabankinn kortaveltutölur fyrir desember.
Mynd vikunnar
Um áramótin var tekið upp kílómetragjald fyrir allar tegundir fólksbíla og mótorhjóla og þau kílómetragjöld sem fyrir voru í gildi á rafmagns- og tengiltvinnbíla voru hækkuð. Á sama tíma voru olíu- og bensíngjöld felld niður og strax um áramótin lækkaði verð á bensíni og dísel um tæplega 30%. Áhrif breytinganna á rekstrarkostnað bíla eru misjöfn eftir bílategundum. Fyrir 14 þúsund km akstur á ári eykst rekstrarkostnaður rafmagnsbíls um 9,5%. Fyrir meðalstóran bensínbíl, sem keyrir jafnmikið á ári, stendur kostnaðurinn nokkurn veginn í stað. Fyrir sparneytnari bensínbíla eykst rekstrarkostnaður en hann dregst saman fyrir eyðslumeiri bensínbíla. Nánar tiltekið, fyrir bíl sem eyðir 5l/100km eykst kostnaður um tæp 17% en fyrir bíl sem eyðir 15l/100km lækkar hann um tæp 19%. Kostnaðurinn stendur í stað fyrir bíl sem eyðir 7,5l/100km.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Alls fóru 2,25 milljón erlendir farþegar um Keflavíkurflugvöll í fyrra, sem er svipað og síðustu tvö ár. Utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði verulega á árinu - þær voru um 709 þúsund árið 2025, 18% fleiri en árið áður.
- Skráð atvinnuleysi var 4,4% í desember og jókst um 0,6 prósentustig á milli ára. Annan mánuðinn í röð er atvinnuleysi 0,6 prósentustigum meira en í sama mánuði árið áður. Tilkynnt var um tvær hópuppsagnir í desember þar sem 54 starfsmönnum var sagt upp störfum.
- Alls mældist 41 ma.kr. halli af vöruviðskiptum við útlönd í desember, um 5 ma.kr. minni halli en í desember 2024. Mesta breytingin á milli ára var verulega aukinn innflutningur á bílum.
- Atvinnuleysi mældist 4,4% í Bandaríkjunum í desember í samanburði við 4,5% í nóvember. 50 þúsund ný störf urðu til í desember, nokkuð minna en búist var við, auk þess sem fjöldi nýrra starfa í nóvember var endurskoðaður niður á við, úr 64 þúsund í 56 þúsund.
- Icelandair birti flutningstölur fyrir desember. Alls fjölgaði farþegum hjá félaginu um 10% á milli ára í desember og 8% fyrir árið í heild. Fyrir árið í heild fjölgaði farþegum á leið til Íslands um 14%, farþegum á leið frá Íslandi fjölgaði um 16% og millilandafarþegum fjölgaði um 3%. Fjöldi farþega innan Íslands hélst óbreyttur á milli ára.
- Seðlabankinn birti fundargerð fjármálastöðugleikanefndar 28. nóvember og 1.-2. desember.
- Amaroq birti gullframleiðslu 2025. Íslandsbanki og Kaldalón tilkynntu um endurkaupaáætlun. Oculis tilkynnti að Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna hefði veitt Privosegtor stöðu byltingarkennds meðferðarlyfs. Skagi nýtti kauprétt á hlut í Íslenskum verðbréfum.
- Arion banki lauk útboði sértryggðra skuldabréfa ásamt skiptiútboði. Lánamál ríkisins luku útboði ríkisbréfa. Arionbanki birti útgáfuáætlun fyrir innlendar markað. Reykjavíkurborg birti útgáfuáætlun fyrir H1.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









