Hlutabréfamarkaðir upp í október
Vísitala Aðallista kauphallarinnar hækkaði um 5,2% í október eftir að hafa lækkað um 8,3% í september. Flest félögin í kauphöllinni hækkuðu í október eða 18 af samtals 22 félögum. Langmesta hækkunin var með bréf Origo sem hækkuðu um 30,5% í mánuðinum. Næstmesta hækkunin var í Marel, 13,4% og sú þriðja mesta í Eimskip, 11,8%. Minnstu hækkanirnar urðu í Festi (0,4%), Nova klúbbnum (0,5%) og Sýn (0,8%). Fjögur félög lækkuðu í verði, en mest lækkuðu bréf Iceland Sefood (-5,8%), Ölgerðarinnar Egill Skallagrímsson (-3,2%) og Síldarvinnslunnar (-1,7%).
Helmingur þeirra félaga, sem hafa verið skráð lengur en 12 mánuði á hlutabréfamarkaði, eru með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum. Mesta hækkunin hefur verið í Skel fjárfestingarfélagi (24,5%) en þar á eftir kemur Origo (16,8%) og Sýn (16,5%). Mesta lækkunin hefur verið hjá Iceland Seafood (-56%) en þar á eftir kemur Marel (-41,2%) og Kvika banki (-31,3%).
Markaðurinn í Hong Kong hefur misst þriðjung á 4 mánuðum
Líkt og hér á landi hækkuðu nánast allir hlutabréfamarkaðir helstu viðskiptalanda Íslands í október. Að meðaltali var hækkunin 6,4% en bandaríski markaðurinn hækkaði um 8%. Einu markaðirnir sem lækkuðu í verði voru sá kínverski og nágrannamarkaðurinn í Hong Kong. Kínverski markaðurinn lækkaði um 4,3% en markaðurinn í Hong Kong lækkaði um 14,7%. Þetta var fjórði mánuðurinn í röð sem sá síðarnefndi lækkar. Samanlagt hefur markaðurinn í Hong Kong tapað þriðjungi af verðgildi sínu á þessum fjórum mánuðum sem er mjög mikil lækkun á ekki lengra tímabili.
Norski markaðurinn sá eini með jákvæða ávöxtun á síðustu 12 mánuðum
Síðustu 12 mánuði hefur ávöxtun hlutabréfamarkaða verið neikvæð í flestum tilfellum. Sé litið til helstu viðskiptalanda Íslands er norski markaðurinn sé eini sem er enn með jákvæða ávöxtun en 12 mánaða ávöxtun hans er 5,4%. Lækkunin er minnst í Japan (-3,6%), þar á eftir kemur Bretland (-6,1%) og Kanada (-7,7%) þar á eftir. Mesta lækkunin er í Þýskalandi (-29,8%), Svíþjóð (-22,6%) og Finnlandi (-17,3%).