Atvinnuleysi eykst en kortavelta líka

Dregið hefur hægt og rólega úr spennu á vinnumarkaði frá miðju ári 2023, en þá náði atvinnuleysi lágpunkti eftir að hafa aukist töluvert vegna covid-faraldursins. Síðan hefur eftirspurn eftir vinnuafli smám saman minnkað. Í ljósi nýlegra áfalla í útflutningsgreinum hafa horfur í hagkerfinu breyst þó nokkuð og því má búast við að það slakni hraðar á spennunni í hagkerfinu en áður var útlit fyrir. Atvinnuleysi tók óvenjustórt stökk á milli mánaða í nóvember síðastliðnum og fór úr 3,9% í 4,3%. Í desember mældist atvinnuleysi síðan 4,4%, en svo mikið atvinnuleysi hefur ekki mælst síðan í apríl 2022 þegar hagkerfið var að ná sér eftir faraldurinn. Ætla má að atvinnuleysi taki ekki að minnka fyrr en vextir hafa lækkað frekar.
Hagstofa Íslands framkvæmir vinnumarkaðsrannsókn, símakönnun á stöðu fólks á vinnumarkaði, þar sem úrtakið er 4.000 manns. Samkvæmt vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar var atvinnuleysi 6,5% í nóvember síðastliðnum og mældist 2,2 prósentustigum meira en í sama mánuði árið áður. Gögn Vinnumálastofnunar yfir skráð atvinnuleysi byggja á atvinnuleysisskrá, þ.e. skrá yfir þá sem fá greiðslur úr atvinnuleysissjóði. Við höfum jafnan talið skráð atvinnuleysi gefa áreiðanlegri vísbendingar um raunverulegt atvinnuleysi heldur en mæling Hagstofunnar, enda eru almennt miklar sveiflur í Hagstofumælingunni.
Í takt við aukið atvinnuleysi má greina merki um dvínandi eftirspurn eftir starfsfólki. Í desember birti Seðlabankinn ársfjórðungslegar niðurstöður úr Gallupkönnun á meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna. Fyrirtækin telja sífellt minni vöntun á starfsfólki á íslenskum vinnumarkaði: Nú segjast 11,7% svarenda telja vanta starfsfólk og hlutfallið hefur ekki verið lægra síðan í lok árs 2020.
Í Gallupkönnuninni er einnig athugað hvort fyrirtækin hyggi á starfsmannabreytingar á næstu sex mánuðum. Þar er áhugavert að sjá muninn á september og desember, en í september töldu að meðaltali tæplega 18% fyrirtækjanna að þau ætluðu að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum en í desember voru það einungis 11% að meðaltali. Þá töldu að meðaltali um 19% fyrirtækjanna að þau myndu fækka starfsfólki í september en í desember var meðaltalið komið upp í 35%. Mest afgerandi breytingar má sjá í flokkunum samgöngur, flutningar og ferðaþjónusta; byggingarstarfsemi og veitur; verslun; fjármála- og tryggingastarfsemi og sjávarútvegur.
Kaupmáttur eykst þó nokkuð þótt hægi á atvinnulífinu
Þótt dregið hafi úr spennu á vinnumarkaði og hægt á launaskriði hafa laun haldið áfram að hækka og hafa viðhaldið kaupmáttaraukningu. Laun hafa hækkað hraðar í ár en í fyrra, en í nóvember var ársbreyting launavísitölunnar 7,5%, þó nokkuð umfram verðlagshækkanir og kaupmáttur launa var því um 3,6% meiri í nóvember síðastliðnum en árið áður.
Mikill kraftur í kortaneyslu í nóvember
Kaupmáttaraukning hefur ýtt undir neyslu landsmanna. Greiðslukortavelta jókst um 9,0% á milli ára í nóvember, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Innanlands jókst kortaveltan um 5,2% að raunvirði á milli ára og erlendis jókst hún talsvert meira, eða um 23% á föstu gengi.
Heildarkortavelta hefur aukist á milli ára í hverjum einasta mánuði það sem af er ári. Á fyrstu ellefu mánuðum ársins var heildarkortavelta um 6% meiri en á sama tímabili árið 2024. Þróun kortaveltu gefur góða vísbendingu um þróun einkaneyslu, en kortaveltan sveiflast þó talsvert meira.
Innlán halda áfram að aukast og samhliða virðist yfirdráttur haldast nokkuð stöðugur.
Íslendingar eyða ekki bara meiri peningum heldur fara líka mun meira til útlanda en nokkru sinni fyrr. Íslendingar fóru um 18% fleiri utanlandsferðir á nýliðnu ári en á árinu 2024. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að kortavelta Íslendinga erlendis kemur bæði frá kortum sem eru notuð á ferðalögum til útlanda en einnig í erlendri netverslun, sem hefur aukist hratt síðustu ár.
Þrátt fyrir skýr merki um aukinn hægagang í atvinnulífinu og minnkandi spennu á vinnumarkaði hefur kraftmikil neysla ennþá áhrif á verðþrýsting. Ef fram fer sem horfir hlýtur þó slaki á vinnumarkaði að skila sér í minnkandi eftirspurn heimilanna eftir vörum og þjónustu og þar með minni verðbólguþrýstingi.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









