Verðbólga lét aftur á sér kræla í desember þegar hún rauk úr 3,7% í 4,5%. Aukin verðbólga skýrðist aðallega af hækkun flugfargjalda, töluverðri gjaldskrárhækkun á hitaveitu og því að áhrif tilboðsdaga í nóvember gengu til baka. Þannig mátti aðallega rekja aukna verðbólgu til afmarkaðra, sveiflukenndra liða og ekki er að sjá merki um að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist að ráði.
Verðbólgutala desembermánaðar dregur verulega úr líkum á því að peningastefnunefnd lækki vexti á næsta fundi, í febrúar, enda má telja ólíklegt að verðbólga hjaðni verulega í janúar. Við teljum þó áfram horfur á að hún hjaðni smám saman á nýju ári með minnkandi spennu í hagkerfinu og greiði leiðina fyrir vaxtalækkun.
Minnkandi spenna í hagkerfinu endurspeglast ekki síst á vinnumarkaði en greina má sífellt skýrari merki um kólnandi vinnumarkað. Eftirspurn eftir starfsfólki hefur haldið áfram að minnka, samkvæmt nýjustu könnun meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins, lausum störfum hefur fækkað, starfandi fólki fjölgar ekki lengur og atvinnuleysi eykst.
Áfram virðist rólegt yfir húsnæðismarkaði, nýjar íbúðir seljast hægt og verulega hefur dregið úr verðhækkunum á síðustu mánuðum. Nafnverð íbúða hefur hækkað um 2,7% á síðustu tólf mánuðum en raunverðið hefur lækkað á milli ára fjóra mánuði í röð. Óvissa um lánakjör í tengslum við vaxtadóminn setti mark sitt á síðustu mánuði og hugsanlega eykst eftirspurnin aftur á komandi vikum þegar sú óvissa er úr sögunni. Að minnsta kosti má búast við að eftirspurnin aukist með lækkandi vaxtastigi á næstu misserum.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).










