Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir HMS vísitölu íbúðaverðs í nóvember.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn greiðslumiðlun og HMS birtir vísitölu leiguverðs.
- Á fimmtudaginn birtir Hagstofan gistinætur og veltu skv. VSK-skýrslum, HMS birtir mánaðarskýrslu og Ölgerðin birtir afkomutilkynningu.
- Á föstudag birtir Hagstofan vísitölu launa.
Mynd vikunnar
Skráð atvinnuleysi var 4,3% í nóvember, 0,6 prósentustigum meira en á sama tíma í fyrra. Frá febrúar 2024 til september 2025 var atvinnuleysi 0,2-0,4 prósentustigum hærra en atvinnuleysi á sama tíma árið áður, en tók svo að aukast hraðar í október og nóvember. Samkvæmt könnun meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins, sem fór fram í nóvember, býst þriðjungur stjórnenda við að fækka starfsfólki næsta hálfa árið en einungis 11% sjá fram á að fjölga starfsfólki. Þetta bendir til þess að atvinnuleysi kunni að aukast áfram á næstu mánuðum.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Um 141 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í nóvember, um 13% færri en í nóvember í fyrra. Í sumar var töluverður kraftur í ferðaþjónustunni og á tímabilinu frá maí til september fjölgaði ferðamönnum um 7% frá sama tímabili í fyrra. Í kjölfar falls Play í október tók erlendum ferðamönnum að fækka á milli ára. Frá ársbyrjun hefur ferðamönnum nú fjölgað um 0,7%. Íslendingar halda áfram að ferðast til útlanda eins og enginn sé morgundagurinn, samkvæmt talningu Ferðamálastofu, og utanlandsferðir voru tæplega 20% fleiri en í nóvember í fyrra. Það sem af er ári hafa Íslendingar farið í um 18% fleiri utanlandsferðir en á sama tímabili í fyrra.
- Icelandair flutti 347 þúsund farþega í nóvember sem er 15% fjölgun á milli ára. Þar af fjölgaði farþegum frá Íslandi um 25%, farþegum til Íslands fjölgaði um 7% og tengifarþegum fjölgaði um 18%.
- Hæstiréttur dæmdi skilmála verðtryggðs íbúðaláns hjá Arion banka löglega, stjórn Íslandsbanka barst krafa um hluthafafund og stjórnarkjör og Amaroq birti niðurstöður borrannsókna.
- Heimar, HS Veitur, Íslandsbanki, Landsbankinn, Lánasjóður sveitarfélaga og Reykjastræti seldu skuldabréf.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).










