Vikubyrjun 22. desember 2025

Vikan framundan
- Í dag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir desember, við spáum því að verðbólga aukist úr 3,7% í 3,9%. Seðlabankinn birtir Hagvísa seinna í dag.
Mynd vikunnar
Velta í álframleiðslu dróst saman um 13% að raunvirði í september og október en velta í sölu og viðgerðum á bílum jókst um 6,2%. Þetta má lesa úr veltugögnum sem Hagstofan birti í síðustu viku og byggja á virðisaukaskattskýrslum. Velta dróst saman á milli ára í þremur af stóru útflutningsgeirunum á VSK-tímabilinu september og október. Samdrátturinn í ferðaþjónustu skýrist meðal annars af því að Play hætti starfsemi í lok september og því skilaði félagið ekki VSK-skýrslu. Útflutt magn málma jókst á milli ára þrátt fyrir bilun í kerum Norðuráls undir lok tímabilsins, þann 21. október. Samdráttinn í veltu í greininni á milli ára (í krónum) má rekja til þess að krónan var sterkari en á sama tíma í fyrra. Velta í tækni- og hugverkaiðnaði jókst verulega með aukinni starfsemi gagnavera.
Það helsta frá vikunni sem leið
- HMS birti vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu. Samkvæmt HMS virðist markaðurinn hafa kólnað nokkuð í nóvember. Vísitala íbúðaverðs lækkaði á milli mánaða, aðallega vegna lækkana á landsbyggðinni, en vístala leiguverðs hækkaði.
- Gistinóttum á hótelum fækkaði um 6,6% á milli ára í nóvember, þar af fækkaði gistinóttum erlendra ferðamanna um 2,9% á milli ára.
- Kaupmáttur ráðstöfunartekna, þ.e. ráðstöfunartekjur eftir að búið er að leiðrétta fyrir verðhækkunum, jókst um 1,9% á mann á milli ára á þriðja ársfjórðungi. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann jókst á milli ára ellefta ársfjórðunginn í röð, en síðast mældist samdráttur á fjórða ársfjórðungi 2022.
- Alþingi samþykkti fjárlög fyrir 2026.
- Verðbólga í Bretlandi fór úr 3,6% i 3,2% og hjaðnaði þó nokkuð meira en búist var við. Daginn eftir var vaxtaákvörðun í Bretlandi, en peningastefnunefnd Englandsbanka kaus (fimm á móti fjórum) að lækka vexti um 0,25 prósentustig. Seðlabanki Evrópu hélt vöxtum óbreyttum.
- Alvotech seldi breytanlegt skuldabréf í dollurum og skrifaði undir samning um sölu á lyfjahliðstæðu í Bandaríkjunum, Síminn undirritaði samning um kaup á Opnum Kerfum og Öryggismiðstöð Íslands, Skagi birti rekstrarhorfur fyrir næsta ár og Ölgerðin birti afkomutilkynningu.
- Fossar, Garðabær, Reykjavíkurborg og Útgerðafélag Reykjavíkur seldu skuldabréf.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









