Vikan framundan
- Í dag birtir Nova klúbburinn uppgjör og Icelandair birtir flutningstölur.
- Á þriðjudag birtir Eimskip uppgjör og Play birtir flutningstölur.
- Á miðvikudag birtir Sýn uppgjör.
- Á föstudag birtir Ferðmannastofa fjölda ferðamanna um Leifsstöð og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi.
Mynd vikunnar
Velta í byggingariðnaði dróst saman á milli ára í júlí og ágúst, samkvæmt gögnum Hagstofunnar sem byggja á virðisaukaskattsskýrslum. Þetta er í fyrsta skipti í rúm tvö ár sem veltan minnkar og til samanburðar jókst hún um rúm 15% milli ára á VSK-tímabilinu maí-júní. Það hefur vakið athygli okkar hversu mikið velta í byggingariðnaði hefur aukist á sama tíma og íbúðafjárfesting hefur dregist saman. Að einhverju leyti má segja að þessi viðsnúningur komi ekki á óvart. Eins og við fjöllum um í nýrri Hagsjá virðist hátt vaxtastig farið að þyngja róður fyrirtækja í byggingargeiranum og ólíklegt að íbúðauppbygging fullnægi íbúðaþörf á næstu misserum. Þá má gera ráð fyrir þó nokkrum verðþrýstingi þegar vaxtastigið fer lækkandi og skammtímaeftirspurn á íbúðamarkaði kemst aftur á flug.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,60% milli mánaða í október og við það lækkaði ársverðbólga úr 8,0% í 7,9%. Verð á mat og drykkjarvöru og kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir. Verð á flugfargjöldum lækkaði aftur á móti meira en við höfðum spáð. Við gerum nú ráð fyrir 7,8% verðbólgu í nóvember, 7,7% í desember og 6,6% í janúar. Spáð lækkun verðbólgunnar í janúar á næsta ári skýrist af því hversu mikið vísitalan hækkaði í janúar í ár og sá mánuður dettur út úr ársverðbólgunni í janúar á næsta ári.
- Skráðar gistinætur í september voru 6% fleiri en í september 2022. Uppsafnaður fjöldi fyrstu 9 mánuði ársins var 8,2 milljónir, 18% fleiri en sama tímabil árið 2022.
- Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki héldu vöxtum óbreyttum í síðustu viku. Verðbólga á evrusvæðin hjaðnaði nokkuð meira en búist var við, úr 4,3% í 2,9%, og því ólíklegt að Seðlabanki Evrópu hækki vexti meira í bili.
- Á hlutabréfamarkaði birti Kvika banki uppgjör og Amroq fékk tvö ný leyfi til námurannsókna á Suður-Grænlandi.
- Á skuldabréfamarkaði luku Lánamál ríkisins útboði ríkisvíxla og ríkisbréfa, Landsbankinn lauk útboði á sértryggðum skuldabréfum og Íslandsbanki gaf út skuldabréf í sænskum krónum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára. Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








