Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,36% á milli mánaða í maí og að ársverðbólga minnki úr 4,2% í 3,9%. Hjöðnunin verður ekki rakin sérstaklega til einstakra undirliða heldur teljum við að flestir undirliðir verðbólgu hækki minna í verði en í maí í fyrra. Við gerum þó ráð fyrir að matvöruverð hækki þó nokkuð.
Matarkarfan hækkar áfram
Verð á matvöru hefur hækkað umfram verðbólgu síðustu mánuði og framlag matarkörfunnar til ársverðbólgu hefur því aukist á milli mánaða. Við gerum ráð fyrir að verð á matvöru hækki áfram umfram verðbólgu næstu mánuði.
Árshækkun á mat og drykkjarvöru fór lægst í 3,8% í nóvember síðastliðnum en var komin upp í 5,6% í apríl. Hækkandi verð á kjöti, grænmeti og sælgæti vegur langþyngst og rétt er að rifja upp háværa umræðu um yfirvofandi verðhækkanir á matvöru rétt fyrir síðustu áramót. Rekstraraðilar matvöruverslana lýstu meðal annars yfir áhyggjum af hækkandi raforkuverði og hækkandi heimsmarkaðsverði á kakóbaunum vegna uppskerubrests. Verðmælingar á vísitölu neysluverðs báru ekki með sér skarpar verðhækkanir á matvöru í kringum áramótin en verðhækkanir hafa komið smám saman inn í mælingar, sérstaklega á kjöti, grænmeti og sælgæti. Verð á ávöxtum, brauði og mjólkurvörum hefur hækkað mun minna, en í maímánuði má þó búast við verðhækkunum á mjólkurvörum. Í byrjun vikunnar tók gildi ákvörðun verðlagsnefndar búvara um hækkun á mjólkurverði til bænda og hækkun á heildsöluverði. Í ljósi þess að verðkönnunarvika Hagstofunnar stendur yfir í þessari viku má gera ráð fyrir að hækkunin komi inn í verðmælingar strax í maímánuði. Við gerum ráð fyrir að matarkarfan í heild hækki um 0,7% í maí.
Reiknuð húsaleiga hækkar hægar en áður
Frá því Hagstofan tók upp nýja aðferð við mælingar á reiknaðri húsaleigu, sem á að mæla kostnað við að búa í eigin húsnæði, hafa mælingar sveiflast á þrengra bili en áður. Sveiflur á milli mánaða hafa samt sem áður verið þó nokkrar, sérstaklega á allra síðustu mánuðum.
Meirihluti leigusamninga í verðmælingum eru verðtryggðir sem þýðir að verð þeirra breytist í takt við vísitölu neysluverðs, með tveggja mánaða töf. Reiknuð leiga hækkaði töluvert í apríl, eða um 1,1%, og mikil hækkun á vísitölu neysluverðs í febrúar gæti skýrt hluta þeirrar hækkunar. Vísitölubreytingin með tveggja mánaða töf hefur þó ekki haft gott spágildi hingað til. Við gerum áfram ráð fyrir að liðurinn sveiflist í kringum meðaltal síðustu mánaða, eða um 0,5% á milli mánaða.
Flugfargjöld og bensín lækka á milli mánaða og óljóst með útsölulok
Flugfargjöld til útlanda hækkuðu töluvert í síðasta mánuði í tengslum við páskaferðalög. Yfirleitt lækka flugfargjöld til útlanda í maí og við gerum ráð fyrir að þau lækki um rúmlega 1% nú í maí. Samkvæmt verðmælingu okkar lækkar verð á bensíni um 0,5% í mánuðinum.
Það vekur athygli að verð á fötum og skóm er enn lægra en það var fyrir janúarútsölurnar. Við gerum ráð fyrir að verð á fötum og skóm hækki um 0,7% á milli mánaða og verði áfram lægra en það var fyrir útsölurnar. Styrking á gengi krónunnar síðustu mánuði kann að hafa haldið aftur af verðhækkunum á fötum og skóm og komið í veg fyrir að útsölurnar gengju fyllilega til baka.
Spá um þróun VNV í mars 2025
Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
Matur og drykkjarvara | 15,5% | 0,7% | 0,010% |
Áfengi og tóbak | 2,6% | 0,0% | 0,00% |
Föt og skór | 3,7% | 0,7% | 0,02% |
Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,4% | 0,2% | 0,02% |
Reiknuð húsaleiga | 20,0% | 0,5% | 0,10% |
Húsgögn og heimilisbúnaður | 4,8% | 0,0% | 0,00% |
Heilsa | 4,1% | 0,5% | 0,02% |
Ferðir og flutningar (annað) | 3,9% | 0,5% | 0,02% |
- Kaup ökutækja | 6,3% | 0,4% | 0,02% |
- Bensín og díselolía | 3,6% | -0,5% | -0,02% |
- Flugfargjöld til útlanda | 2,3% | -1,1% | -0,03% |
Póstur og sími | 1,6% | -0,6% | -0,01% |
Tómstundir og menning | 10,9% | 0,4% | 0,04% |
Menntun | 0,9% | 0,0% | 0,00% |
Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 1,0% | 0,05% |
Aðrar vörur og þjónusta | 5,2% | 0,2% | 0,01% |
Alls | 100,0% | 0,36% |
Verðbólga nokkuð stöðug í kringum 4% næstu mánuði
Eftir nokkuð öra hjöðnun síðustu tvö ár teljum við að verðbólga hjaðni lítið næstu mánuði. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,36% í maí, 0,53% í júní, 0,21% í júlí og 0,25% í ágúst. Gangi spáin eftir verður verðbólga 3,9% í maí, 4,0% í júní, 3,7% í júlí og 3,9% í ágúst. Í ágúst og september detta miklar lækkanir frá fyrra ári út úr 12 mánaða taktinum, en verðbólga hjaðnaði skarpt þegar skólagjöld voru felld niður í nokkrum háskólum og skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar. Við gerum ráð fyrir 4,0% verðbólgu í árslok.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









