Ársverðbólga úr 8,0% í 7,9%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,60% á milli mánaða í október, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hjaðnar því lítillega á milli mánaða, úr 8,0% í 7,9%. Við höfðum spáð 0,53% hækkun á milli mánaða og að ársverðbólga yrði 7,8%.
Verð á mat og drykk hækkaði meira en við spáðum
Helsti munurinn á milli spár okkar og mælingar Hagstofunnar er að verð á mat og drykkjarvörum og á reiknaðri húsaleigu hækkaði meira en við gerðum ráð fyrir. Á móti lækkaði verð á flugfargjöldum meira en við spáðum. Liðurinn hótel og veitingastaðir lækkaði einnig meira en við gerðum ráð fyrir.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2% milli mánaða þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1,5% en áhrif vaxta voru 0,5% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði meira en við höfðum gert ráð fyrir en áhrif vaxta voru eins og við höfðum spáð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem Hagstofan reiknar tekur tillit til landsins í heild, en fyrr í mánuðinum gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og sú vísitala hækkaði um 1,4% milli mánaða. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði íbúðaverðverð utan höfuðborgarsvæðisins um 2,5% milli mánaða í september.
- Verð á matvöru hækkaði um 1% á milli mánaða, en við höfðum gert ráð fyrir 0,4%. Verð á kjöti og mjólkurafurðum hefur mest áhrif til hækkunar í þessum mánuði. Hluta af hækkun á mjólkurafurðum má rekja til ákvörðunar verðlagsnefndar búvara um hækkun á lámarksverði mjólkur til bænda. Við gerum ráð fyrir að sú hækkun hafi áfram áhrif á vísitöluna í næsta mánuði.
- Liðurinn tómstundir og menning hækkaði einnig nokkuð umfram okkar spá. Verð á bókum og pakkaferðum til útlanda leiddu hækkanir á þeim lið.
- Hótel og veitingastaðir lækkuðu um 1,3% milli mánaða, en við höfðum gert ráð fyrir 0,3% hækkun.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu einnig um 2,1% en við höfðum spáð 0,2% lækkun.
Húsnæði aftur sá undirliður sem vegur þyngst
Ársverðbólga hjaðnaði um 0,1 prósentustig milli mánaða og er nú 7,9%. Framlag húsnæðis til ársverðbólgu jókst á milli mánaða og fór hlutur þess úr 2,2 prósentustigum í 2,4 prósentustig af 7,9% verðbólgu. Húsnæði er því aftur sá liður sem vegur þyngst í ársverðbólgunni, en síðustu tvo mánuði var það þjónusta sem dró vagninn. Hlutur þjónustu lækkaði úr 2,4 prósentustigum í 2,3 í október. Hlutur innfluttra vara án bensíns lækkaði úr 2 prósentustigum í 1,8 og hlutur innlendra vara og bensíns stóð nokkurn veginn í stað á milli mánaða.
Gerum ráð fyrir 6,6% verðbólgu í janúar
Í ljósi verðbólgumælingarinnar í morgun hækkum við verðbólguspá okkar fyrir næstu mánuði lítillega. Við gerum nú ráð fyrir 7,8% verðbólgu í nóvember, 7,7% í desember og 6,6% í janúar. Við lyftum spánni upp um 0,1 prósentustig í nóvember og desember og um 0,2% í janúar. Munurinn milli spáa skýrist annars vegar af að talan í morgun var aðeins hærri en við áttum von á og hins vegar af að við gerum nú ráð fyrir verðhækkun á nýjum bílum í janúar vegna niðurfellingar á VSK-afslætti af rafbílum, sem tekur gildi um áramótin. Þó var nýlega tilkynnt að í stað VSK-afsláttar yrði kaupendum rafbíla veittur styrkur. Niðurgreiðslan verður þó minni en hún var í gegnum VSK-afsláttinn. Erfitt er spá fyrir um áhrif þessarar breytingar, bæði vegna þess að áformin gætu breyst en einnig vegna þess að enn er óljóst hvernig Hagstofan mun taka tillit til niðurgreiðslunnar í sínum verðmælingum.
Mikil lækkun verðbólgunnar í janúar á næsta ári skýrist af því hversu verulega vísitalan hækkaði í janúar í ár og sá mánuður dettur út úr verðbólgunni í janúar á næsta ári.
Þessi nýjasta verðbólgumæling er sú síðasta fyrir næsta fund peningastefnunefndar. Næsta vaxtaákvörðun verður birt 22. nóvember næstkomandi.