Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um óbreytt­um vöxt­um í næstu viku

Við spáum því að peningastefnunefnd geri hlé á vaxtalækkunarferlinu og haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í apríl og verðbólguvæntingar hafa haldist tiltölulega stöðugar. Þá virðist hagkerfið þola vaxtastigið vel, kortavelta hefur aukist sífellt síðustu mánuði og enn er þó nokkur velta á íbúðamarkaði. Peningalegt taumhald losnaði með aukinni verðbólgu í apríl og við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd þyki tímabært að lækka raunstýrivexti enn frekar.
Seðlabanki Íslands
15. maí 2025

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 21. maí. Nefndin lækkaði vexti á síðustu fjórum fundum, eftir rúmt ár af óbreyttu vaxtastigi. Vextirnir standa nú í 7,75% og ef tekið er mið af liðinni verðbólgu standa raunstýrivextir í 3,58%. Raunstýrivextirnir eru þeir sömu og eftir síðustu vaxtaákvörðun þegar vextir höfðu verið lækkaðir um 0,25 prósentustig. Við teljum ólíklegt að peningastefnunefnd sjái tilefni til að slaka á taumhaldinu í næstu viku.

Vextir voru lækkaðir nokkurn veginn í takt við hjöðnun verðbólgu á haustmánuðum í fyrra og áfram í febrúar og mars. Raunstýrivextir miðað við liðna verðbólgu hafa verið á bilinu 3-4% síðan í haust og seðlabankastjóri gaf í skyn á kynningarfundi eftir febrúarákvörðunina að raunstýrivextir í kringum 4% virtust virka vel. Þar kom einnig fram að nefndin myndi ekki slaka á taumhaldinu fyrr en ljóst væri að verðbólguþrýstingur væri sannarlega í rénun. Einnig var talað um að verðbólguvæntingar væru allt of háar. Við teljum ekki augljóst að verðbólguþrýstingur sé meira í rénun nú en í febrúar og verðbólguvæntingar hafa ekki gefið eftir.

Þá er auðvelt að tína til ýmislegt fleira sem gæti undirbyggt ákvörðun um óbreytt vaxtastig. Við teljum að þótt verðbólga hjaðni í sumar verði verðbólga í lok árs í svipuðum gildum og nú. Þá virðist enn þó nokkur kraftur í hagkerfinu: Kortavelta hefur aukist stöðugt að raunvirði á milli ára og enn virðist vera innistæða fyrir aukinni neyslu hjá heimilum landsins. Auk þess er hvorki að sjá að vaxtastigið hafi dregið allan þrótt úr vinnumarkaði né íbúðamarkaði.

Verðbólga óbreytt á milli funda – og umfram væntingar í apríl

Verðbólga var á hröðu undanhaldi undir lok síðasta árs og á fyrstu mánuðum þessa árs. Í apríl gerðum við ráð fyrir að verðbólga myndi aukast úr 3,8% í 4,0%, ekki síst vegna tímasetningar páskanna. Hún jókst umfram væntingar og mældist 4,2%. Verðbólga án húsnæðis fór úr 2,5% í 3,2% í apríl og verð á mat og drykk hækkaði meira en við bjuggumst við.

Þegar peningastefnunefnd hittist síðast, í mars, var verðbólga sú sama og nú, 4,2%. Samsetning verðbólgunnar hefur þó breyst. Framlag kostnaðar við að búa í eigin húsnæði (reiknuð húsaleiga) hefur lækkað skarpt á milli funda, enda hækkaði reiknuð húsaleiga verulega í mars og apríl í fyrra og þær hækkanir duttu út úr ársverðbólgunni nú. Á móti má telja áhyggjuefni að framlag innfluttra vara án bensíns hefur aukist og einnig framlag innlendra vara og almennrar þjónustu.

Verðbólguvæntingar hafa ekki lækkað og við spáum aukinni verðbólgu í haust

Væntingar um verðbólgu gefa hugmynd um verðbólgu fram í tímann og geta líka einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks og því er til mikils að vinna að halda þeim í skefjum. Verðbólguvæntingar má líka túlka sem eins konar mælikvarða á trúverðugleika Seðlabankans í baráttu við verðbólgu. Þess vegna er það peningastefnunefnd mikið keppikefli að koma væntingum niður í 2,5% verðbólgumarkmið.

Einn mælikvarði á verðbólguvæntingar er verðbólguálag á skuldabréfamarkaði. Hægt er að fylgjast með breytingum á þeim mælikvarða dag frá degi. Verðbólguálagið er nokkurn veginn óbreytt frá síðasta fundi en athygli vekur að það er þó nokkuð hærra en það var í október, þegar vaxtalækkunarferlið hófst.

Væntingar má líka meta út frá könnunum Seðlabankans, annars vegar meðal heimila og fyrirtækja og hins vegar meðal markaðsaðila. Niðurstöður úr könnun meðal markaðsaðila voru birtar í gær og báru þess merki að væntingar um verðbólgu á þessu ári hefðu hækkað lítillega frá síðustu könnun sem var gerð í janúar sl. Til dæmis vænta markaðsaðilar nú 0,25% meiri verðbólgu á þriðja ársfjórðungi heldur en þeir gerðu ráð fyrir í janúar. Líklega hefur verðbólga umfram væntingar í apríl haft sitt að segja. Væntingar til lengri tíma lækkuðu aftur á móti lítillega.

Rétt eins og væntingar markaðsaðila hefur okkar verðbólguspá til næstu mánaða hækkað lítillega frá því við síðustu vaxtaákvörðun. Við teljum að verðbólga hjaðni í sumar en aukist svo í haust og mælist þá aftur 4,2%. Við teljum að verðbólga aukist í ágúst og september þegar einskiptisliðir sem kölluðu fram hjöðnun síðasta haust detta út úr ársverðbólgunni. Verðbólga hjaðnaði hressilega þegar skólamáltíðir í grunnskólum voru gerðar gjaldfrjálsar og skólagjöld voru afnumin í ákveðnum háskólum. Í lok árs spáum við enn 4% verðbólgu.

Hagkerfið þolir vaxtastigið merkilega vel

Við teljum að þrátt fyrir þrálátt hátt vaxtastig séu fá merki um að hagkerfið hrópi á vaxtalækkun. Fyrsta mat Hagstofunnar á hagvexti á fyrsta ársfjórðungi verður ekki birt fyrr en í lok maí, en flest bendir til þess að landsframleiðsla hafi haldið áfram að aukast lítillega. Velta í hagkerfinu jókst um 4,5% á milli ára í janúar og febrúar, skv. gögnum sem byggja á virðisaukaskattskýrslum, og veltan jókst einna mest í sölu og viðgerð á bílum. Kortavelta landsmanna hefur aukist á milli ára að raunvirði í hverjum einasta mánuði frá október 2023, án þess að yfirdráttur hafi færst í aukana, á sama tíma og sparnaður heimila á innlánsreikningum hefur aukist þó nokkuð. Þannig hafa heimilin að meðaltali áfram útgjaldasvigrúm og eftir því sem raunvextir lækka er líklegra að sparnaður leiti út í neyslu. Þá er enn þó nokkur velta á íbúðamarkaði og íbúðaverð hefur haldið áfram að hækka, þótt það hækki hægar en þegar vextir voru í lágmarki. Vaxtastigið virðist heldur ekki hafa lagst verulega þungt á vinnumarkaðinn þótt atvinnuleysi hafi aukist lítillega.

Í ljósi þessa ætti peningastefnunefnd ekki að þykja sérlega aðkallandi að slaka á aðhaldinu og líklegra að nefndin leggi nú áherslu á að tryggja eigin trúverðugleika.

Hafa ber í huga að dagana fyrir vaxtaákvörðunina berast fleiri gögn sem skipta máli í þessu samhengi. Seðlabankinn birtir gögn um kortaveltu í apríl á föstudaginn og HMS birtir vísitölu íbúðaverðs fyrir aprílmánuð á þriðjudaginn.

Teljum að nefndin ræði lækkun en bíði með hana þar til í ágúst

Eftir fjórar vaxtalækkanir í röð er ekki furða að fólk og fyrirtæki vonist eftir fimmtu lækkuninni strax í næstu viku. Sennilega kemur til tals á fundi peningastefnunefndar að lækka vexti um 0,25 prósentustig, með hliðsjón af spám um lækkandi verðbólgu í sumar. Einnig er langt í næstu ákvörðun og ef verðbólga hjaðnar í takt við spár verður taumhaldið nokkuð þétt í sumar, miðað við óbreytt vaxtastig. Við teljum þó að nefndin komist að þeirri niðurstöðu að skynsamlegra sé að staldra við í þetta skiptið og eiga þá frekar inni meiri vaxtalækkun í ágúst.

Líkt og á síðustu fundum nefndarinnar snýr óvissa um verðbólgu- og vaxtaþróun ekki síst að efnahagshorfum erlendis og alþjóðaviðskiptum. Óvissa um utanríkisviðskipti og aðgengi að erlendum mörkuðum getur ein og sér valdið því að fyrirtæki haldi að sér höndum þegar kemur að fjárfestingaráformum og þannig dregið úr umsvifum í hagkerfinu. Við teljum að þótt Seðlabankinn sé vakandi fyrir mögulegum áhrifum ýmiss konar sviptinga í heimshagkerfinu verði þau ekki ráðandi þáttur í næstu vaxtaákvörðun.

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
8. feb. 2023 +0,50% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS   óbr. 9,25%
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
8. maí 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS AS (-0,25%)   óbr. 9,25%
21. ágúst 2024 óbr. ÁJ, RS, TB, ÁP, HS     óbr. 9,25%
2. október 2024 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁP, HS   HS (óbr.) -0,25% 9,00
20. nóvember 2024 -0,50% ÁJ, RS, TB,  ÁÓP, HS     -0,50% 8,50%
5. febrúar 2025 -0,50% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     -0,50% 8,00%
19. mars 2025 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     -0,25% 7,75%
21. maí 2025            
20. ágúst 2025            
8. október 2025            
19. nóvember 2025            

AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁÓP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson, ÞGP: Þórarinn G. Pétursson
Heimild: Seðlabanki Íslands

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Háþrýstiþvottur
14. júlí 2025
Vikubyrjun 14. júlí 2025
Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 10,1% á milli ára í júní, en það sem af er ári hafa þeir verið álíka margir og á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig á milli ára í júní, sem er svipuð aukning og hefur verið síðustu mánuði. Við birtum verðbólguspá í vikunni og teljum að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 4,0%. Í þessari viku birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
10. júlí 2025
Spáum 4% verðbólgu í júlí
Við spáum því að verðbólga minnki lítillega í júlí og mælist 4,0%. Eins og almennt í júlímánuði má búast við að sumarútsölur og breytingar á flugfargjöldum hafi mest áhrif á vísitölu neysluverðs. Við teljum ekki horfur á að verðbólga þokist nær verðbólgumarkmiði á árinu og spáum 4,2% verðbólgu í lok árs.
Fjölbýlishús
9. júlí 2025
Raunverð íbúða hefur þrefaldast frá aldamótum 
Íbúðaverð á Íslandi hefur hækkað langtum meira en laun og almennt verðlag frá aldamótum. Greiðslubyrði af meðalláni hélst tiltölulega stöðug til ársins 2021 þegar hún tók að hækka skarpt, sérstaklega greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum.   
Hús í Reykjavík
7. júlí 2025
Matur og húsnæði helstu drifkraftar verðbólgu
Hækkandi matvöruverð og húsnæðiskostnaður eru þeir þættir sem eiga stærstan þátt í því að viðhalda verðbólgu á Íslandi um þessar mundir. Verðbólga mældist 4,2% í júní, nokkuð umfram spár. Ef matvara og húsnæði væru ekki hluti af vísitölu neysluverðs hefði verðbólga verið undir markmiði Seðlabankans frá því í ágúst í fyrra. Þættir á borð við sterkari krónu og lækkandi olíuverð hafa líkast til haldið aftur af verðhækkunum á ýmsum vörum upp á síðkastið, en á móti hefur þjónustuverð hækkað.
Bakarí
7. júlí 2025
Vikubyrjun 7. júlí 2025
Hagstofa Íslands spáir 2,2% hagvexti á yfirstandandi ári, samkvæmt hagspá sem birt var á föstudaginn. Hagvaxtarhorfur hafa verið færðar upp frá marsspánni þegar gert var ráð fyrir 1,8% hagvexti á árinu. Hagstofan spáir lítillega auknu atvinnuleysi næstu misserin, en Vinnumálastofnun birtir atvinnuleysistölur fyrir júnímánuð síðar í þessari viku.
1. júlí 2025
Mánaðamót 1. júlí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Flugvél á flugvelli
30. júní 2025
Vikubyrjun 30. júní 2025
Verðbólga jókst úr 3,8% og mældist 4,2% í júní. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum þrýstingi á innfluttum vörum en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu. Þá jókst velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum um 1,5% að raunvirði í mars og apríl.
Paprika
27. júní 2025
Verðbólga umfram væntingar
Verðbólga mældist 4,2% í júní og jókst úr 3,8% frá því í maí. Verðlag hækkaði umfram spár, en við höfðum spáð 3,9% verðbólgu. Aukin verðbólga skýrist aðallega af auknum verðþrýstingi á innfluttum vörum, einkum fötum, skóm og tómstundarvörum, en einnig af hækkandi flugfargjöldum og verðhækkun á þjónustu.
Orlofshús á Íslandi
27. júní 2025
Viðskipti með sumarhús færast aftur í aukana
Sumarhúsum á Íslandi hefur fjölgað um 45% á síðustu 20 árum. Viðskipti með sumarhús færðust verulega í aukana á tímum faraldursins. Fyrst eftir faraldurinn hægðist um en nú virðist aftur hafa glaðnað yfir markaðnum.
Herðubreið
25. júní 2025
Áfram merki um viðnámsþrótt í hagkerfinu
Velta samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum jókst um 1,5% að raunvirði í mars og apríl og um 5,2% í janúar og febrúar, samkvæmt nýbirtum gögnum Hagstofunnar. Veltugögnin bera þess merki að hagkerfið standi vaxtastigið vel af sér sem er í takt við aukinn hagvöxt í byrjun árs. Það sem af er ári hefur velta aukist mest í sölu og viðhaldi á bílum en einnig má greina aukin umsvif í helstu útflutningsgreinunum: álframleiðslu, sjávarútvegi og ferðaþjónustu.