Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

2,6% hag­vöxt­ur á fyrsta árs­fjórð­ungi en sam­drátt­ur í fyrra

2,6% hagvöxtur mældist á fyrsta ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar sem var birt í morgun. Samkvæmt endurskoðuðum þjóðhagsreikningum mældist 0,7% samdráttur á síðasta ári en ekki 0,5% hagvöxtur eins og áður var áætlað.
Lyftari í vöruhúsi
30. maí 2025

Landsframleiðsla var 2,6% meiri hér á landi á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en þess síðasta. Hagvöxturinn skýrist af aukinni fjárfestingu, aukinni einkaneyslu og auknum útflutningi. Hagvöxtur hefur ekki mælst jafnmikill á einum fjórðungi síðan á þriðja fjórðungi ársins 2023. Landsmenn voru 1,4% fleiri á fyrsta ársfjórðungi þessa árs en þess síðasta og því mældist ekki aðeins hagvöxtur í heild heldur einnig á mann, um 1,3%.

Aukin fjárfesting megindrifkraftur hagvaxtar

Hagvöxtinn má einkum rekja til þess að fjárfesting jókst um 18% á milli ára. Fjárfesting jókst aðallega vegna atvinnuvegafjárfestingar sem jókst um 19,6%, einkum í tengslum við uppbyggingu á gagnaverum. Uppbygging á gagnaverum kallar á töluverðan innflutning á tölvum, enda jókst innflutningur um 13,5%. Fjárfesting í íbúðauppbyggingu hélt líka áfram að aukast verulega, um 22,4%, álíka mikið og síðustu fjórðunga. Opinber fjárfesting er talin hafa aukist um 2,8% en tekið er fram að mikil óvissa ríki um þau gögn. Til dæmis kemur nýtt skip Hafrannsóknarstofnunar þar inn sem fjárfesting um á tæplega fimm milljarða á fyrsta fjórðungi.

Einkaneysla enn á uppleið – í takt við aukna kortaveltu

Það var þó ekki aðeins fjárfesting sem dreif áfram hagvöxt. Hann skýrðist einnig af 2,3% meiri einkaneyslu en á fyrsta fjórðungi síðasta árs, en einkaneysla hefur aukist smám saman frá því um mitt síðasta ár. Einhver hluti aukinnar einkaneyslu skýrist af fólksfjölgun en þó jókst einkaneysla líka á hvern og einn landsmann, að meðaltali um 1%. Bílakaup hafa færst í aukana á ný eftir að hafa farið minnkandi síðustu misseri. Þá jókst einkaneysla einnig vegna útgjalda Íslendinga á ferðalögum erlendis, en eins og við höfum fjallað um hefur kortavelta Íslendinga erlendis aukist verulega undanfarið, enda hefur utanlandsferðum landsmanna fjölgað mjög.

Viðsnúningur í útflutningi

Útflutningur jókst um 4,4% á milli ára á fyrsta fjórðungi, eftir að hafa dregist saman á milli ára allt frá þriðja fjórðungi 2023. Framlag útflutnings var jákvætt, bæði á vörum og þjónustu.

Þjónustuútflutningur var 7,4% meiri á fyrsta fjórðungi þessa árs en þess síðasta, aðallega vegna aukins útflutnings á viðskiptaþjónustu. Þá var þó nokkuð meira flutt út af fjármálaþjónustu en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra og einnig því sem Hagstofan flokkar sem viðgerðir og viðhald. Framlag ferðaþjónustu var jákvætt á fyrsta fjórðungi, en aðeins lítillega. Færri erlendir ferðamenn komu til landsins á fjórðungnum ef marka má tölur Ferðamálastofu, en aukin útflutt ferðaþjónusta er þó í takt við aukna erlenda kortaveltu á fjórðungnum.

Vöruútflutningur jókst um 2,5% á fjórðungnum. Útflutningur á áli jókst verulega á milli ára, en raforkuskerðingar drógu úr álframleiðslu í byrjun síðasta árs. Útflutningur á lyfjum og lækningavörum jókst einnig töluvert.

Áfram mikill innflutningur á fjárfestingarvörum

Innflutningur jókst töluvert á fjórðungnum og því er framlag utanríkisviðskipta til landsframleiðslu neikvætt á tímabilinu. Innflutningur hefur ekki sjálfstætt neikvæð áhrif á hagvöxt heldur kemur hann til frádráttar í landsframleiðsluformúlunni til að forðast tvítalningu. Stóran hluta af auknum innflutningi á fyrsta fjórðungi má rekja til innflutnings á tölvuvörum fyrir gagnaver sem birtist í verulega aukinni almennri atvinnuvegafjárfestingu. Aukin fjárfesting í gagnaverum ætti einnig að skila sér í auknum þjónustuútflutningi. Þá jókst innflutningur á neysluvörum og bílum nokkuð á fjórðungnum til þess að standa undir aukinni einkaneyslu landsmanna.

0,7% samdráttur í fyrra eftir endurskoðun

Samhliða þessari útgáfu þjóðhagsreikninga var gerð heildarendurskoðun á tímaröðum allt frá árinu 1995. Endurskoðunin hafði þó nokkur áhrif á niðurstöður þjóðhagsreikninga aftur í tímann. Endurskoðun Hagstofunnar tekur nú aftur með í reikninginn þjónustuviðskipti á milli landa með hugverkaréttindi. Þessar færslur voru áður teknar út vegna efasemda um raunveruleg viðskipti, en eru nú færðar aftur inn og hafa töluverð áhrif til aukins hagvaxtar síðustu ár, sérstaklega frá 2019.

Samkvæmt endurskoðuninni mældist samdráttur um 0,7% í fyrra, en ekki hagvöxtur um 0,5% eins og áður var áætlað. Það sem einkum dró niður landsframleiðslu á síðasta ári var leiðrétting á birgðabreytingum, en í ljós kom skekkja sem hafði veruleg áhrif til lækkunar á landsframleiðslu á seinni helmingi ársins.

Hagvöxtur á fjórðungnum umfram væntingar Seðlabankans

Seðlabankinn gerði ráð fyrir 0,1% hagvexti á Q1 2025, samkvæmt því sem fram kemur í Peningamálum sem Seðlabankinn birti samhliða síðustu vaxtaákvörðun, þann 21. maí. Seðlabankinn bjóst þannig við að landsframleiðsla myndi aukast þó nokkuð minna en sem nemur fólksfjölgun, og þannig myndi mælast samdráttur á mann. Hagvöxtur á mann reyndist 1,3%.

Ef meta ætti áhrif þjóðhagsreikninga á peningastefnu má að minnsta kosti hafa í huga að hagvöxtur í fyrsta fjórðungi var töluvert kröftugri en Seðlabankinn bjóst við. Þessi munur kann vel að skýrast að einhverju leyti af grunnáhrifum vegna endurskoðunar á gögnum aftur í tímann, en við vitum ekki hvernig spáin leit út fyrir hvern undirlið landsframleiðslu fyrir sig. Enn mælist þó nokkur kraftur í innlendri eftirspurn, þrátt fyrir vaxtastigið og þegar horft er á undirliði einkaneyslu má til dæmis sjá að bílakaup hafa færst aftur í aukana eftir samdrátt síðustu misseri. Vissulega gefa gögnin einungis hugmynd um umsvif á fyrsta fjórðungi en þjóðhagsreikningar fyrir Q2 verða ekki komnir út þegar peningastefnunefnd tilkynnir næst um stýrivaxtaákvörðun, þann 20. ágúst.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Epli
5. ágúst 2025
Vikubyrjun 5. ágúst 2025
Gistinóttum á landinu fjölgaði alls um 8,4% á milli ára í júní. Verðbólga á evrusvæðinu hélst óbreytt á milli mánaða og Seðlabanki Bandaríkjanna hélt stýrivöxtum óbreyttum.
1. ágúst 2025
Mánaðamót 1. ágúst 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Bananar
28. júlí 2025
Vikubyrjun 28. júlí 2025
Verðbólga hjaðnaði úr 4,2% í 4,0% í júlí. Við teljum ekki horfur á að verðbólga fari aftur niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands í ár, heldur haldist á bilinu 4,0% til 4,3% út árið.
25. júlí 2025
Minni verðbólga með bættri aðferð
Nú er liðið rúmt ár síðan Hagstofan tók upp nýja aðferð við að mæla reiknaða húsaleigu, sem er sá hluti vísitölu neysluverðs sem metur kostnað fólks við að búa í eigin húsnæði.
24. júlí 2025
Verðbólga aftur við efri vikmörk
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% á milli mánaða og verðbólgan hjaðnaði úr 4,2% í 4,0%. Þetta var í samræmi við væntingar, en við spáðum 0,26% aukningu VNV á milli mánaða og 4,0% verðbólgu. Við teljum að verðbólga komist ekki undir 4,0% efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í ár.
Fjölbýlishús
21. júlí 2025
Vikubyrjun 21. júlí 2025
Í júní dró úr árshækkun bæði vísitölu íbúðaverðs og leiguverðs. Ró virðist hafa færst yfir húsnæðismarkaðinn og HMS fjallaði um það í síðustu viku að markaðurinn væri frekar á valdi kaupenda en seljenda. Á fimmtudag birtir Hagstofan verðbólgutölur en við spáum því að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 4,0%.
Háþrýstiþvottur
14. júlí 2025
Vikubyrjun 14. júlí 2025
Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 10,1% á milli ára í júní, en það sem af er ári hafa þeir verið álíka margir og á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig á milli ára í júní, sem er svipuð aukning og hefur verið síðustu mánuði. Við birtum verðbólguspá í vikunni og teljum að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 4,0%. Í þessari viku birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
10. júlí 2025
Spáum 4% verðbólgu í júlí
Við spáum því að verðbólga minnki lítillega í júlí og mælist 4,0%. Eins og almennt í júlímánuði má búast við að sumarútsölur og breytingar á flugfargjöldum hafi mest áhrif á vísitölu neysluverðs. Við teljum ekki horfur á að verðbólga þokist nær verðbólgumarkmiði á árinu og spáum 4,2% verðbólgu í lok árs.
Fjölbýlishús
9. júlí 2025
Raunverð íbúða hefur þrefaldast frá aldamótum 
Íbúðaverð á Íslandi hefur hækkað langtum meira en laun og almennt verðlag frá aldamótum. Greiðslubyrði af meðalláni hélst tiltölulega stöðug til ársins 2021 þegar hún tók að hækka skarpt, sérstaklega greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum.   
Hús í Reykjavík
7. júlí 2025
Matur og húsnæði helstu drifkraftar verðbólgu
Hækkandi matvöruverð og húsnæðiskostnaður eru þeir þættir sem eiga stærstan þátt í því að viðhalda verðbólgu á Íslandi um þessar mundir. Verðbólga mældist 4,2% í júní, nokkuð umfram spár. Ef matvara og húsnæði væru ekki hluti af vísitölu neysluverðs hefði verðbólga verið undir markmiði Seðlabankans frá því í ágúst í fyrra. Þættir á borð við sterkari krónu og lækkandi olíuverð hafa líkast til haldið aftur af verðhækkunum á ýmsum vörum upp á síðkastið, en á móti hefur þjónustuverð hækkað.