Vikubyrjun 19. maí 2025

Vikan framundan
- Á morgun birtir HMS vísitölu íbúðaverðs í apríl.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands. Við spáum því að nefndin haldi vöxtum óbreyttum. Samhliða vaxtaákvörðuninni gefur Seðlabankinn út Peningamál. Sama dag birtir HMS vísitölu leiguverðs í apríl og verðbólgutölur verða birtar í Bretlandi.
- Á fimmtudag birtir HMS mánaðarskýrslu og Hagstofan birtir vísitölu launa í apríl. Þá birtir Síldarvinnslan uppgjör.
Mynd vikunnar
Um 64% markaðsaðila álíta taumhald peningastefnu of þétt um þessar mundir, töluvert færri en í janúar, þegar hlutfallið var um 80%. Þetta má lesa úr niðurstöðum ársfjórðungslegrar væntingakönnunar Seðlabankans á meðal markaðsaðila. Enginn þátttakandi taldi taumhaldið of laust. Hlutfallslega telja nú fleiri en í janúar að taumhaldið sé hæfilegt, 36% í stað 20%. Taumhaldið er svipað og eftir síðustu vaxtaákvörðun og við teljum ólíklegt að vextir verði lækkaðir að svo stöddu.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Í síðustu viku fór fram útboð á hlutbréfum ríkissjóðs í Íslandsbanka (helstu niðurstöður, sundurliðun tilboðsbóka). Heildareftirspurn var 190 ma.kr., þar af 88 ma.kr. í tilboðsbók A. Ákveðið var að stækka útboðið og bjóða út allan hlut ríkisins, alls 45,2% útistandandi hluta. Útboðsgengi tilboðsbókar B og C var það sama og tilboðsbókar A, 106,5 krónur á hlut. Heildarvirði útboðsins nemur því 91 ma.kr.
- Greiðslukortavelta íslenskra heimila nam 114,1 ma.kr. í apríl og jókst um 9,4% á milli ára, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Hlutfallslega jókst kortavelta Íslendinga mun meira í útlöndum en hér á landi og hefur aldrei verið meiri erlendis í einum mánuði en nú í apríl. Kortavelta erlendra greiðslukorta hér á landi jókst um 5,6% á föstu verðlagi (VNV) á milli ára í apríl og um 15,5% á föstu gengi. Erlendum ferðamönnum um Keflavík fjölgaði um 6,5% á milli ára í apríl. Kortavelta á hvern ferðamann var álíka mikil og í apríl í fyrra.
- Seðlabankinn birti í vikunni niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila sem fór fram í byrjun maí. Út frá miðgildi svara má ætla að markaðsaðilar búist við að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,25 prósentustig á miðvikudaginn.
- Verðbólga í Bandaríkjunum hjaðnaði úr 2,4% í 2,3% í apríl og var lítillega undir væntingum.
- Heimar, Eimskip, Amaroq Minerals, Reitir og Sjóvá birtu uppgjör.
- Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, Alma lauk sölu á skuldabréfum, Hafnarfjarðarkaupstaður lauk skuldabréfaútboði og Landsvirkjun gaf út skuldabréf á Bandaríkjamarkaði.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









