Íbúða­verð aft­ur á upp­leið og ónóg upp­bygg­ing í kort­un­um

Húsnæðisliðurinn leiðir aftur hækkanir á vísitölu neysluverðs og íbúðaverð hækkaði umfram væntingar síðustu tvo mánuði. Útlit er fyrir að íbúðauppbygging á næstu misserum fullnægi ekki íbúðaþörf og því má gera ráð fyrir þó nokkrum verðþrýstingi þegar vaxtastigið fer lækkandi.
Byggingakrani og fjölbýlishús
2. nóvember 2023

Áhrif vaxtahækkana hafa komið skýrt fram á íbúðamarkaði og strax á seinni helmingi síðasta árs tók að hægja mjög á verðþróun á markaðnum. Kaupsamningum fækkar milli ára, sölutími hefur lengst og færst hefur í aukana að íbúðir seljist undir ásettu verði. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs stóð í 25,5% í júlí í fyrra en var komin niður í 0,8% í júlí í ár. Hún hefur hækkað aðeins aftur og mældist 2,6% í september. Raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hefur lækkað á milli ára síðustu fjóra mánuði, en raunlækkunin minnkaði aðeins í ágúst og september og nam 4,8% milli ára í september.

Í nýrri þjóðhagspá spáðum við því að íbúðaverð færi ekki aftur á flug fyrr en skýr merki kæmu fram um að vextir gætu farið að lækka. Við spáðum því að vísitala íbúðaverðs hækkaði að meðaltali um 5,0% á milli ára í ár, 2,0% á næsta ári, um 6,1% árið 2025 og um 7,4% árið 2026.

Skammtímasveiflur á íbúðaverði hafa reynst nokkuð ófyrirsjáanlegar. Í ágúst og september hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu þó nokkuð umfram væntingar, um 0,7% í ágúst og 1,4% í september.

Vissulega hefur þörf á húsnæði aukist með hraðri fólksfjölgun, sem viðheldur þrýstingi á íbúðaverð, en það sem virðist hafa einna mest áhrif til hækkunar þessa mánuði er útvíkkun á skilyrðum í lánveitingum hlutdeildarlána. Eftir að skilyrðin voru útvíkkuð í júlí á stærri hópur kost á að sækja um og fleiri íbúðir passa inn í rammann. HMS tilkynnti nýlega að útvíkkunin hefði blásið lífi í lánveitingarnar, sem höfðu verið í hálfgerðu frosti mánuðina á undan. Lánin eru veitt fyrir nýjum íbúðum, sem eru jafnan dýrari en þær eldri, og því hefur úrræðið þrýst verðinu upp á við.

Íbúðafjárfesting og uppbygging

Verðþróun á íbúðamarkaði veltur að miklu leyti á því hversu vel gengur að tryggja að framboð mæti eftirspurn. HMS spáir því að í ár og á næstu tveimur árum rísi 15% færri fullbúnar íbúðir en á síðustu þremur árum. HMS telur íbúðir í byggingu í marsmánuði og september hvert ár.  Færri ný byggingarverkefni bættust við milli tveggja nýjustu talninga HMS en venjulega bætast við milli talninga, íbúðum á fyrstu byggingarstigum fækkar þó nokkuð á milli síðustu tveggja talninga og auk þess virðist hafa hægt á framvindu byggingarverkefna, þ.e. óvenjumörg byggingarverkefni stóðu í stað milli síðustu tveggja talninga. Samkvæmt spá HMS verða nýjar fullbúnar íbúðir álíka margar í ár og í fyrra og svipaður taktur verður næstu tvö ár þar á eftir.

Hærri fjármagnskostnaður þyngir róður fyrirtækja í íbúðauppbyggingu, ekki síst þegar langan tíma tekur að selja íbúðir og íbúðaverð er ekki á jafn hraðri uppleið og áður. Þá má nefna að skuldir byggingargeirans við viðskiptabankana hafa aukist um nærri 28% að raunvirði á síðustu 12 mánuðum.

Allt frá árinu 2020 hefur íbúðafjárfesting samkvæmt þjóðhagsreikningum dregist saman á milli ára. Við búumst við að áfram dragi úr íbúðafjárfestingu, um 5% í ár og 3% á næsta ári. Hún aukist svo samhliða vaxtalækkunum og aukinni eftirspurn, um 3% árið 2025 og 6% árið 2026.

Aukin uppbygging atvinnuhúsnæðis

Aðrir hagvísar en íbúðafjárfesting í þjóðhagsreikningum benda til mikilla umsvifa í byggingariðnaði. Helst ber að nefna síaukna veltu í byggingariðnaði samkvæmt virðisaukaskattskýrslum og gífurlega fjölgun fólks sem starfar við byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð.

Þessi ólíka þróun íbúðafjárfestingar annars vegar og veltu og starfsmannafjölda hins vegar skýrist líklega að hluta til af krafti í uppbyggingu atvinnuhúsnæðis og opinberum framkvæmdum. Eins og fjallað er um í nýjustu útgáfu Fjármálastöðugleika hefur uppbygging atvinnuhúsnæðis aukist á síðustu árum. Til dæmis hafa ekki verið fleiri fermetrar atvinnuhúsnæðis í byggingu frá árslokum 2011 og atvinnuhúsnæði í byggingu mældist 5,5% af stofni atvinnuhúsnæðis í lok ágúst.

Verðhækkanir á atvinnuhúsnæði síðustu mánuði hafa aukið hvata til uppbyggingar á þeim markaði, enda verðið enn hátt í samanburði við þróun byggingarkostnaðar. Vísitala raunverðs atvinnuhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 4,1% á tólf mánuðum í lok annars fjórðungs þessa árs.

Framhaldið óljóst – ýmsir þættir togast á

Það verður áhugavert að fylgast með verðþróun á fasteignamarkaði næstu mánuði. Ýmsir þættir togast á. Hátt vaxtastig temprar eftirspurnina, aukin íbúðaþörf þrýstir upp verði, bæði á kaup- og leigumarkaði, kaupmáttur er aftur á uppleið og hlutdeildarlánaúrræði ríkisstjórnarinnar virðist hafa áhrif til hækkunar á íbúðaverði, á skjön við markmið peningastefnunnar. Erfitt er að segja til um hvort þau áhrif komi áfram fram á næstu mánuðum, en að öðru óbreyttu má ætla að verðhækkanir fari að segja raunverulega til sín þegar skýr merki koma fram um að vaxtastigið fari lækkandi.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Íbúðahús
27. nóv. 2023
Vikubyrjun 27. nóvember 2023
Fyrstu kaupendum á íbúðamarkaði fjölgaði verulega á þriðja fjórðungi ársins og voru 1.123 talsins, 33% allra kaupenda. Til samanburðar voru fyrstu kaupendur 789 talsins á öðrum fjórðungi, 26% allra kaupenda.
Gata í Reykjavík
24. nóv. 2023
Vísitala íbúðaverðs hækkar enn og kaupsamningum fjölgar
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,9% milli mánaða í október. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 19% fleiri en í október í fyrra og fjölgaði einnig í september eftir að hafa fækkað viðstöðulaust milli ára frá miðju ári 2021. Vísitalan er hærri en við gerðum ráð fyrir við gerð verðbólguspár fyrir nóvembermánuð og því færum við hana örlítið upp og spáum nú 8,1% ársverðbólgu í stað 8,0%.
Seðlabanki
20. nóv. 2023
Vikubyrjun 20. nóvember 2023
Í nýjustu könnun á væntingum markaðsaðila, sem fór fram fyrir um tveimur vikum, töldu fleiri svarendur að taumhald peningastefnu væri of þétt en of laust. Þetta er viðsnúningur frá því sem verið hefur, en allt frá janúar árið 2020 hafa fleiri talið taumhaldið of laust.
Seðlabanki Íslands
17. nóv. 2023
Spáum óbreyttum stýrivöxtum í næstu viku
Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku. Við teljum að óvissa og viðkvæm staða í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga spili stóran þátt í ákvörðuninni og vegi þyngra en vísbendingar um þrálátan verðbólguþrýsting og viðvarandi háar verðbólguvæntingar.
Íbúðahús
16. nóv. 2023
Spáum 8,0% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,37% milli mánaða í nóvember og að ársverðbólga aukist úr 7,9% í 8,0%. Þeir liðir sem vega þyngst til hækkunar á vísitölunni eru reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykkjarvöru, en flugfargjöld til útlanda vega þyngst til lækkunar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga aukist svo lítillega í desember, í 8,1%, en hjaðni eftir áramót og verði 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar.
Veitingastaður
14. nóv. 2023
Laun hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum
Laun hafa hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum á síðustu árum og mest meðal verka- og þjónustufólks. Frá því rétt áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir árið 2019 hafa laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkað um að meðaltali 48,5% og verkafólks um 48,2%. Laun stjórnenda hafa á sama tímabili hækkað um 27,4% og laun sérfræðinga um 33,4%. Kaupmáttur hefur aukist um að meðaltali 10% á tímabilinu, en þróunin er ólík eftir hópum.
13. nóv. 2023
Vikubyrjun 13. nóvember 2023
Netverslun Íslendinga er að jafnaði langmest í nóvember. Það skýrist af stórum netútsöludögum í mánuðinum eins og makalausa deginum (e. Singles’ Day), svörtum föstudegi (e. Black Friday) og stafrænum mánudegi (e. Cyber Monday).
Fólk við Geysi
10. nóv. 2023
Aldrei fleiri ferðamenn í október
Um 205 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá Keflavíkurflugvelli í október og hafa aldrei verið fleiri í mánuðinum. Alls hafa um 1.940 þúsund erlendir ferðamenn farið um Leifsstöð það sem af er ári, örlítið fleiri en árið 2017 og lítillega færri en metárið 2018.
Kranar á byggingarsvæði
6. nóv. 2023
Vikubyrjun 6. nóvember 2023
Velta í byggingariðnaði dróst saman á milli ára í júlí og ágúst, samkvæmt gögnum Hagstofunnar sem byggja á virðisaukaskattsskýrslum. Þetta er í fyrsta skipti í rúm tvö ár sem veltan minnkar og til samanburðar jókst hún um rúm 15% milli ára á VSK-tímabilinu maí-júní.
2. nóv. 2023
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - október 2023
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit um sértryggð skuldabréf.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur