Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu Fjármálastöðugleikanefndar og fundargerð Peningastefnunefndar. Icelandair birtir flutningstölur fyrir nóvember.
- Á fimmtudag birtir Play flutningstölur fyrir nóvember.
- Á föstudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í nóvember.
Mynd vikunnar
Á síðustu mánuðum hefur dregið verulega úr vexti hagkerfisins. Hagvöxtur mældist aðeins 1,1% á þriðja ársfjórðungi og bæði einkaneysla og fjárfesting drógust saman milli ára. Eftir Covid-samdráttinn árið 2020 mældist fyrst hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi 2021 og síðan hefur hagvöxtur mælst yfir 4% samfellt í níu fjórðunga, þar til nú. Hægari vöxtur hagkerfisins þarf ekki að koma á óvart, enda ljóst að hagkerfið ofhitnaði í kjölfar faraldursins með umframeftirspurn og tilheyrandi verðbólgu. Hagkerfið virðist nú færast í átt að jafnvægi og hátt vaxtastig hægir á umsvifum efnahagslífsins um leið og það heldur aftur af verðbólgu. Þetta eykur frekar líkurnar á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið, en næsta vaxtaákvörðun er fyrirhuguð 7. febrúar.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Hagvöxtur mældist 1,1% á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Verulega hægði á hagkerfinu á þriðja ársfjórðungi en til samanburðar var hagvöxtur 7,0% á fyrsta ársfjórðungi og 4,7% á öðrum. Innlend eftirspurn dróst saman milli ára. Útflutningur jókst milli ára á meðan innflutningur dróst saman. Þennan litla hagvöxt má í raun að langmestu leyti rekja til samdráttar í innflutningi.
- Verðbólgan í nóvember hækkaði úr 7,9% í 8,0%. Við höfðum spáð 8,1% verðbólgu. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði minna en við gerðum ráð fyrir, kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hækkaði umfram spá okkar og verð á flugfargjöldum lækkaði meira en við spáðum. Við spáum 8,2% verðbólgu i desember, en að hún hjaðni svo niður í 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar.
- Afgangur af viðskiptum við útlönd mældist 61,8 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi, en þriðji ársfjórðungur er alla jafna sá fjórðungur sem kemur best út, enda háannatími í ferðþjónustu. Á fyrstu níu mánuðum ársins var 42,1 ma.kr. afgangur. Á fjórða fjórðungi gæti mælst halli á viðskiptum við útlönd, en mjög ólíklegt er að hann verði nógu mikill til þess að halli mælist fyrir árið í heild.
- Á hlutabréfamarkaði hélt Ísfélagið hlutafjárútboð, Alvotech birti uppgjör og stjórn Marels hafnaði óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT.
- Á skuldabréfamarkaði héldu Lánamál ríkisins, Síminn og Iceland Seafood útboð á víxlum, Lánamál ríkisins hélt útboð á ríkisbréfum og S&P hækkaði lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram. Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára. Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








