Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu Fjármálastöðugleikanefndar og fundargerð Peningastefnunefndar. Icelandair birtir flutningstölur fyrir nóvember.
- Á fimmtudag birtir Play flutningstölur fyrir nóvember.
- Á föstudag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í nóvember.
Mynd vikunnar
Á síðustu mánuðum hefur dregið verulega úr vexti hagkerfisins. Hagvöxtur mældist aðeins 1,1% á þriðja ársfjórðungi og bæði einkaneysla og fjárfesting drógust saman milli ára. Eftir Covid-samdráttinn árið 2020 mældist fyrst hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi 2021 og síðan hefur hagvöxtur mælst yfir 4% samfellt í níu fjórðunga, þar til nú. Hægari vöxtur hagkerfisins þarf ekki að koma á óvart, enda ljóst að hagkerfið ofhitnaði í kjölfar faraldursins með umframeftirspurn og tilheyrandi verðbólgu. Hagkerfið virðist nú færast í átt að jafnvægi og hátt vaxtastig hægir á umsvifum efnahagslífsins um leið og það heldur aftur af verðbólgu. Þetta eykur frekar líkurnar á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið, en næsta vaxtaákvörðun er fyrirhuguð 7. febrúar.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Hagvöxtur mældist 1,1% á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Verulega hægði á hagkerfinu á þriðja ársfjórðungi en til samanburðar var hagvöxtur 7,0% á fyrsta ársfjórðungi og 4,7% á öðrum. Innlend eftirspurn dróst saman milli ára. Útflutningur jókst milli ára á meðan innflutningur dróst saman. Þennan litla hagvöxt má í raun að langmestu leyti rekja til samdráttar í innflutningi.
- Verðbólgan í nóvember hækkaði úr 7,9% í 8,0%. Við höfðum spáð 8,1% verðbólgu. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði minna en við gerðum ráð fyrir, kostnaður við búsetu í eigin húsnæði hækkaði umfram spá okkar og verð á flugfargjöldum lækkaði meira en við spáðum. Við spáum 8,2% verðbólgu i desember, en að hún hjaðni svo niður í 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar.
- Afgangur af viðskiptum við útlönd mældist 61,8 ma.kr. á þriðja ársfjórðungi, en þriðji ársfjórðungur er alla jafna sá fjórðungur sem kemur best út, enda háannatími í ferðþjónustu. Á fyrstu níu mánuðum ársins var 42,1 ma.kr. afgangur. Á fjórða fjórðungi gæti mælst halli á viðskiptum við útlönd, en mjög ólíklegt er að hann verði nógu mikill til þess að halli mælist fyrir árið í heild.
- Á hlutabréfamarkaði hélt Ísfélagið hlutafjárútboð, Alvotech birti uppgjör og stjórn Marels hafnaði óskuldbindandi viljayfirlýsingu JBT.
- Á skuldabréfamarkaði héldu Lánamál ríkisins, Síminn og Iceland Seafood útboð á víxlum, Lánamál ríkisins hélt útboð á ríkisbréfum og S&P hækkaði lánshæfismat sértryggðra skuldabréfa Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans.