Húsnæðisverð lyftir verðbólgu aftur í 8,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,38% á milli mánaða í nóvember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Ársverðbólga hækkar því aftur í 8,0%, úr 7,9% í október. Við höfðum spáð 0,47% hækkun á milli mánaða og að ársverðbólga yrði 8,1%. Vísitala neysluverðs án húsnæðis lækkaði um 0,04% á milli mánaða og ársbreytingin lækkaði úr 7,3% í 7,2%. Að húsnæðisliðnum undanskildum eru breytingar milli mánaða því ekki miklar.
Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði vegur langþyngst til hækkunar
Helsti munurinn á milli spár okkar og mælingar Hagstofunnar er að verð á mat og drykkjarvörum hækkaði minna en við spáðum. Á móti lækkaði verð á flugfargjöldum til útlanda nokkuð meira en við héldum. Íbúðaverð hækkaði einnig umfram okkar spá, en mæling Hagstofunnar á vísitölu íbúðaverðs hækkaði meira á höfuðborgarsvæðinu en vísitala íbúðaverðs, sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun reiknar.
Aðeins um helstu liði:
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 2,1% (+0,4% áhrif á vísitöluna) milli mánaða í nóvember þar sem markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði um 1,4% en áhrif vaxta voru 0,7% til hækkunar. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis hækkaði því meira en við höfðum gert ráð fyrir en áhrif vaxta voru eins og við höfðum spáð. Markaðsverð íbúðarhúsnæðis sem Hagstofan reiknar tekur tillit til landsins í heild, en fyrr í mánuðinum gaf HMS út vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu og sú vísitala hækkaði um 0,9% milli mánaða, þar sem fjölbýli hækkaði um 0,5% og sérbýli um 2,5%. Mæling Hagstofunnar sýndi 0,7% hækkun á fjölbýli og 2,7% fyrir sérbýli. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar hækkaði íbúðaverð utan höfuðborgarsvæðisins um 1,9% milli mánaða í október.
- Verð á matvöru hækkaði um 0,2% (+0,02% áhrif) á milli mánaða, en við höfðum gert ráð fyrir 0,8%. Við bjuggumst við því að verð á mjólkurafurðum myndi hækka meira, en verðhækkun vegna ákvörðunar verðlagsnefndar búvara hefur því verið komin inn að mestu leyti í síðasta mánuði. Verð á kjöti og fiski lækkaði töluvert milli mánaða.
- Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 12,8% (-0,23% áhrif), en við höfðum gert ráð fyrir 8,9% lækkun. Flugfargjöld lækka alla jafnan í nóvember og nú eru þau svipuð og í nóvember í fyrra.
Húsnæði aftur sá undirliður sem vegur þyngst til hækkunar
Ársverðbólga jókst um 0,1 prósentustig á milli mánaða og er nú 8,0%. Framlag húsnæðis til ársverðbólgu jókst aftur á milli mánaða og fór hlutur þess úr 2,4 prósentustigum í 2,7 prósentustig. Hlutur innfluttra vara án bensíns hækkaði einnig lítillega á milli mánaða, eða úr 1,8 prósentustigum í 1,9 prósentustig. Hlutur bensíns lækkaði enn frekar sem og hlutur innlendra vara og þjónustu.
Gerum ráð fyrir 6,7% verðbólgu í febrúar
Töluverð óvissa er um þróun íbúðaverðs næstu mánuði, en við gerum ekki ráð fyrir jafn hröðum hækkunum og síðustu mánuði. Vísitalan sem Hagstofan notar fyrir húsnæði við útreikning VNV byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali, sem þýðir að hún segir til um meðalverðbreytingu síðustu þriggja mánaða. Í næsta mánuði kemur nóvembermæling íbúðaverðs inn í mælinguna og ágústmælingin dettur út. Í ágúst og september hækkaði vísitalan óvenjumikið og við teljum því líklegt að það hægi á hækkun vísitölunnar þegar þær mælingar detta út.
Við breytum ekki spá okkar um mánaðarbreytingar til næstu mánaða vegna þessarar verðbólgumælingar, en vegna þess að verðbólgan var lægri en við höfðum spáð þá lækkar spáin fyrir ársverðbólgu um 0,1 prósentustig næstu mánuði. Við spáum því að í desember verði verðbólga 8,2%. Í janúar gerum við ráð fyrir að verðbólgan lækki nokkuð og verði 7,3% þann mánuð og 6,7% í febrúar.
Mikil lækkun verðbólgunnar í janúar á næsta ári skýrist af því hversu verulega vísitalan hækkaði í janúar í ár og sá mánuður dettur út úr verðbólgunni í janúar á næsta ári.