Efnahagshorfur í heiminum hafa versnað þó nokkuð frá því í byrjun þessa árs, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Í nýrri skýrslu er fjallað um að eftir langt tímabil ófyrirséðra áfalla hafi loks litið út fyrir að heimshagkerfið næði sér á strik. Skyndilega hafi óvissa svo náð nýjum hæðum í breyttu landslagi alþjóðasamskipta og stjórnvöld víða um heim hafa nú þurft að forgangsraða upp á nýtt.
Hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum lækka um tæpt prósentustig
AGS gerir ráð fyrir 2,8% hagvexti í heiminum á þessu ári og 3,0% vexti árið 2026. Í síðustu spá AGS frá því í janúar var gert ráð fyrir 3,3% hagvexti í heiminum á þessu ári og aftur á því næsta. Samtals er vöxturinn færður niður um 0,8 prósentustig.
Hagvaxtarhorfur í Bandaríkjunum á þessu ári eru færðar niður um 0,9 prósentustig á milli spáa, úr 2,7% í 1,8%. Breytingin endurspeglar ekki síst óvissu um aðgerðir stjórnvalda, spennu í utanríkisviðskiptum og horfur um minni eftirspurnarkraft. Svo er gert ráð fyrir 1,7% hagvexti árið 2026. Taldar eru 37% líkur á samdrætti í Bandaríkjunum á þessu ári.
Hagvaxtarhorfur á evrusvæðinu eru taldar heldur lakari, þótt þær hafi breyst minna frá síðustu spá. Þar er gert ráð fyrir að aukin óvissa og tollar haldi aftur af hagvexti sem verði 0,8% á þessu ári. Gert er ráð fyrir að umsvifin aukist á næsta ári og vöxturinn verði 1,2%. Það sem helst er talið muni kynda undir hagvexti á næsta ári er hækkandi kaupmáttur og aukin neysla í Þýskalandi auk áætlana þýskra stjórnvalda um aukin ríkisútgjöld, ekki síst til varnarmála.
Verðbólguhorfur versnað þó nokkuð í Bandaríkjunum og Bretlandi
Þá telur AGS nú horfur á að verðbólga hjaðni hægar á heimsvísu en gert var ráð fyrir í janúarspánni og að hún verði 4,3% árið 2025 og 3,6% árið 2026. Verðbólguspá fyrir þróuð ríki hefur verið færð upp á við en verðbólguhorfur í nýmarkaðsríkjum og þróunarríkjum eru nú taldar lítillega betri en áður.
Uppfærslur á verðbólguspám eru mest áberandi í Bretlandi og Bandaríkjunum. Verðbólguspá fyrir Bretland á þessu ári var færð upp um 0,7%.
Verðbólga í Bandaríkjunum er talin verða einu prósentustigi meiri á þessu ári en spáð var í janúar, vegna tolla og vísbendinga um hækkandi verð á nauðsynjavörum á borð við matvörur.
Seðlabankastjóri Bandaríkjanna hefur sagt hætt við að áhrif tolla á bandarískt hagkerfi setji peningastefnunefndina í ákveðna klemmu. Markmið peningastefnunnar í Bandaríkjunum er fyrst og fremst tvíþætt, annars vegar að viðhalda verðstöðugleika og hins vegar að halda atvinnustigi eins háu og mögulegt er. Hækkun á innflutningstollum leiðir að minnsta kosti til einskiptishækkunar á verðbólgu, sem fjarar út 12 mánuðum seinna að öðru óbreyttu. Verðbólguskot gæti haft áhrif á verðbólguvæntingar og leitt til þrálátrar verðbólgu sem kallar á aðhaldssamari peningastefnu en ella. Á sama tíma má gera ráð fyrir að samhliða versnandi hagvaxtarhorfum lækki atvinnustigið, sem kallar frekar á lausara taumhald. Markaðsaðilar vestanhafs gera ekki ráð fyrir að vextir verði lækkaðir á næsta fundi peningastefnunefndar þann 7. maí, en auknar líkur eru taldar á vaxtalækkun í júní.
AGS telur að aukin hætta sé á lakari efnahagshorfum (e. intensifying downside risk). Í skýrslunni er tekið fram að stigmögnun á viðskiptastríði og aukin óvissa gæti dregið horfurnar enn neðar en spáin gerir ráð fyrir. Þá er tekið fram að hraðar sviptingar í stjórnvaldsákvörðunum og aukin svartsýni gætu haldið áfram að framkalla sveiflur á eignamörkuðum.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









