Stór hluti íslensks vöruútflutnings til Bandaríkjanna undanþeginn tollum

Frá því snemma í apríl hefur 10% tollur verið lagður á vöruinnflutning til Bandaríkjanna. Nokkrar stórar undantekningar eru þó í gildi og t.d. er 145% tollur lagður á nær allan kínverskan innflutning. Þá er enn í gildi 25% tollur á þær vörur frá Mexíkó og Kanada sem falla ekki undir USMCA-samninginn og 25% tollur á bíla, ál og stál sem flutt er til Bandaríkjanna. Lyf eru undanskilin tollum, í bili að minnsta kosti. Ljóst er að staðan getur breyst hratt og rétt er að hafa í huga að þann 2. apríl, þegar Trump tilkynnti um tollana, var útlit fyrir að tollar á ýmis ríki yrðu mun hærri en 10%. Þeim áformum var ekki formlega aflýst heldur frestað um 90 daga.
Hversu mikil áhrif geta tollar í Bandaríkjunum haft á íslenskan útflutning?
Árið 2024 fór um 12% af vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna og um 10% árið 2023. Sögulega hafa sjávarafurðir verið uppistaðan í útflutningnum til Bandaríkjanna en síðustu ár hefur útflutningur á því sem Hagstofan flokkar sem „lyf og lækningavörur“ sótt hratt í sig veðrið. Þegar betur er að gáð eru lækningavörur fluttar til Bandaríkjanna í langtum meiri mæli en lyf og þær áttu stærstu hlutdeildina í verðmæti útflutnings Íslands til Bandaríkjanna í fyrra.
Lyf undanskilin tollum og einnig stór hluti lækningavara
Í fyrra var um 30% af vöruútflutningi Íslands til Bandaríkjanna í flokknum lyf og lækningavörur, samkvæmt Hagstofunni. Nákvæmara niðurbrot á flokknum má lesa út úr tollaskrá og samkvæmt henni eiga vörur og tæki til lækninga (hér kölluð lækningavörur) mun stærri hlutdeild í flokknum heldur en lyf, eða um 90% á móti 10%. Lækningavörur eru einkum vörur á borð við gervilíkamshluta og gerviliði.
Bandaríkjaforseti hefur gefið það út að lyf séu (enn sem komið er) undanskilin tollum en almennt bera lækningavörur nú 10% innflutningstoll. Stærstur hluti þeirra lækningavara sem fluttar eru frá Íslandi til Bandaríkjanna fellur þó undir sérstaka bókun Sameinuðu þjóðanna við samninginn um innflutning tengdan menntun, vísindum og menningu, svokallaða Nairobi-bókun frá árinu 1982. Bókunin tryggir meðal annars fríverslun með vörur ætlaðar fólki með varanlega fötlun.
10% tollur leggst því aðeins á vörur og tæki til lækninga sem ekki falla undir bókunina, sem virðist vera minni hluti þeirra lækningavara sem fluttar eru héðan til Bandaríkjanna, en erfitt er að meta umfangið nákvæmlega. Þá er ekki síður erfitt að meta hversu mikil áhrif tollurinn hefur á fyrirtæki í greininni. Lækningavörur sem héðan eru fluttar eru líklega mjög missérhæfðar. Ætla má að eftir því sem vörurnar eru sérhæfðari verði eftirspurnin eftir þeim minna teygin, þ.e. síður viðkvæm fyrir verðbreytingum. Hvað framleiðsluna varðar er hugsanlegt að tollar raski aðfangakeðjum, sérstaklega ef tollastríð vindur enn frekar upp á sig og dregur úr aðgengi að aðföngum í framleiðslu lækningavara.
Þótt þeir tollar sem nú eru í gildi hafi líklega ekki veruleg bein áhrif á fyrirtæki í útflutningi á lyfjum og lækningavörum hlýtur óvissa um framvindu alþjóðaviðskipta að halda aftur af fjárfestingu fyrirtækjanna. Til dæmis er óvíst hvort fyrirtækin geti reitt sig á að undanþágur séu varanlegar og enn er hætta á að önnur ríki svari Bandaríkjunum með einhvers konar viðskiptahömlum.
Sjávarafurðir fluttar til ótal landa og fyrirtækin aðlagast
Þriðjungur af vöruútflutningi okkar til Bandaríkjanna í fyrra voru sjávarafurðir, langmest þorskur og ýsa. Um 11% af íslenskum útflutningi á sjávarafurðum í fyrra fór til Bandaríkjanna og aðeins Bretar og Frakkar tóku við meiri fiski en Bandaríkjamenn. Síðustu ár hefur íslenskur eldisfiskur einnig verið fluttur til Bandaríkjanna í auknum mæli.
Frá því í byrjun apríl hefur 10% tollur lagst á íslenskar sjávarafurðir sem fluttar eru til Bandaríkjanna. Ætla má að hærra verð til kaupenda í Bandaríkjunum vegna tolla gæti dregið úr eftirspurn þar í landi og leitt til þess að íslenskar sjávarafurðir verði frekar fluttar til annarra landa. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki flytja vörur á ótal markaði og geta líklega aðlagast breyttum aðstæðum tiltölulega hratt. Ef framboð ákveðinna sjávarafurða eykst verulega á öðrum mörkuðum vegna tilfærslu útflutnings ætti verðið að lækka og þannig gæti dregið úr útflutningsverðmætunum. Hvað sem tollum líður gerum við ráð fyrir að úthlutaðar aflaheimildir verði nýttar til fulls.
Eins og fram kemur í nýlegri hagspá gerum við ráð fyrir að útflutningur sjávarafurða verði svipaður í ár og í fyrra. Útflutningur sjávarafurða dróst saman um 1,8% í fyrra sem skýrðist að langmestu leyti af loðnubresti. Samdrátturinn hefði verið enn meiri ef ekki hefði verið fyrir auknar aflaheimildir á botnfiski, bæði ýsu og þorski. Aflaheimildir breyttust lítið í ár og við gerum ráð fyrir litlum vexti næstu ár, í samræmi við skammtímaspár Hafrannsóknarstofnunnar um þróun á stofnum þorsks og ýsu. Fyrir utan tollana felst mesta óvissan í því hvort loðna finnist á spátímabilinu, sem gæti haft verulega jákvæð áhrif á útflutningshorfur.
Ál frá Íslandi fer mestmegnis til Evrópu
Ál frá Íslandi er að mestu flutt til Evrópu og því ætti 10% tollur í Bandaríkjunum ekki að hafa bein áhrif á álfyrirtækin. Þó gætu innflutningstollar á ál í Bandaríkjunum leitt til aukins álframboðs í Evrópu. Aukið framboð og meiri samkeppni á Evrópumarkaði gæti dregið úr eftirspurn eftir íslensku áli. Staða í miðlunarlónum er nokkuð góð og ekki útlit fyrir að álfyrirtæki þurfi að búa við raforkuskerðingar sem hamla framleiðslunni, eins og á síðasta ári. Við gerum því ráð fyrir meiri álframleiðslu í ár en í fyrra, en framleiðsla í fyrra var undir meðaltali síðustu ára.
Takmörkuð bein áhrif af tollum en óvissa skaðleg
Eins og lesa má úr umfjölluninni hér að ofan teljum við ólíklegt að íslenskt hagkerfi verði fyrir verulegum beinum áhrifum af þeim tollum sem nú eru í gildi í Bandaríkjunum, ekki síst vegna þess hversu stór hluti vöruútflutningsins er undanskilinn tollum, a.m.k. enn sem komið er. Þó má telja víst að óvissa um framvindu mála í alþjóðaviðskiptum leiði til þess að fyrirtæki halda frekar að sér höndum, ráðast síður í nýjar fjárfestingar og hætti jafnvel við fjárfestingaráform.
Almennt draga tollar úr alþjóðaviðskiptum og sérhæfingu ólíkra ríkja og þar með hagvexti í heiminum. Hugsanleg áhrif tolla á heimshagkerfið endurspeglast til dæmis í uppfærðri hagspá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem við fjölluðum um nýlega, þar sem hagvaxtarhorfur hafa verið færðar niður á við frá því sem var í upphafi árs. Íslenskt hagkerfi reiðir sig verulega á öflugar útflutningsgreinar og greiðan aðgang að erlendum mörkuðum og því er mikið í húfi. Ef tollarnir eru komnir til að vera og önnur ríki svara fyrir sig af meiri krafti en hingað til, gætu viðskiptahömlur farið að segja til sín í ríkari mæli hér á landi.
Þá kann ýmissa óbeinna áhrifa tolla að gæta á Íslandi næstu mánuði, til dæmis ef ferðamönnum fækkar, eins og við fjölluðum um í nýlegri hagsjá. Tollar gætu rýrt kaupmátt Bandaríkjamanna og haft áhrif á komur þeirra hingað til lands. Auk þess eru merki um að áhugi Evrópubúa á að heimsækja Bandaríkin fari dvínandi, sem gæti haft áhrif hingað heim, enda hafa Evrópubúar gjarnan komið við á Íslandi á leið sinni vestur um haf.
Í hagspá sem við birtum 9. apríl síðastliðinn gerðum við ráð fyrir tiltölulega stöðugum horfum í íslenskum útflutningi næstu árin. Við spáðum því að flestar útflutningsgreinar myndu vaxa á næstu árum og að útflutningur í heild myndi aukast um 2% á þessu ári og um 2,2% árlega árin 2026 og 2027.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









