Hag­kerf­ið stefn­ir í átt að jafn­vægi

Hagvöxtur mældist 1,1% á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Verulega hægði á hagkerfinu á þriðja ársfjórðungi en til samanburðar var hagvöxtur 7,0% á fyrsta ársfjórðungi og 4,7% á öðrum. Hátt vaxtastig segir til sín víðar en áður og áhrifin sjást skýrt á samdrætti í einkaneyslu og fjárfestingu. 
Lyftari í vöruhúsi
30. nóvember 2023

Samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar sem birt var í morgun mældist 1,1% hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi. Til samanburðar var 7,0% hagvöxtur á fyrsta fjórðungi og 4,7% á öðrum ársfjórðungi þannig að verulega hægir á. Hagvöxtur hefur ekki verið jafn lítill síðan á fyrsta ársfjórðungi 2021, þegar mældist samdráttur upp á 1,4%. Eftir Covid-samdráttinn mældist fyrst hagvöxtur á öðrum ársfjórðungi 2021 og síðan hefur hagvöxtur mælst yfir 4% samfellt níu fjórðunga, þar til nú. Hægari vöxtur hagkerfisins þarf ekki að koma á óvart, enda ljóst að hagkerfið ofhitnaði í kjölfar faraldursins með umframeftirspurn og tilheyrandi verðbólgu.

Hagkerfið leitar nú í átt að jafnvægi og hátt vaxtastig hægir á umsvifum efnahagslífsins um leið og það heldur aftur af verðbólgunni. Segja má að þessar nýjustu tölur auki frekar líkurnar á að vaxtahækkunarferlinu sé lokið. Að minnsta kosti virðist hafa náðst þó nokkur árangur í því að draga úr eftirspurn.  

Einkaneysla dróst saman um 1,7%

Einkaneysla dróst saman um 1,7% að raungildi á þriðja ársfjórðungi, í samanburði við sama ársfjórðung í fyrra. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur einkaneysla mælst 1,3% meiri en á sama tímabili í fyrra, en hún jókst um 8,5% á milli ára í fyrra. Á þessu ári hefur því hægt verulega á taktinum, einkaneysla jókst um 4,5% á fyrsta ársfjórðungi og um 1,0% á öðrum. Samdráttur um 1,7% á þriðja fjórðungi er sérstaklega áhugaverður í ljósi þess að á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 3%. Einkaneyslan hefur því ekki aðeins minnkað í heild heldur skiptist hún nú líka niður á mun fleiri einstaklinga. Einkaneysla á mann hefur því dregist þó nokkuð meira saman en einkaneysla í heild.  

Einkaneysluþróunin rímar ágætlega við hagspána sem við gáfum út í október. Við spáðum því að áfram myndi hægja á vexti einkaneyslu og að hún myndi aukast um 2% milli ára í ár. Ýmis gögn hafa bent til þessarar þróunar. Til dæmis hefur kortavelta landsmanna dregist saman milli ára síðustu sjö mánuði og Íslendingar hafa fækkað utanlandsferðum.

Samdráttur í einkaneyslu skýrist líklega langmest af háu vaxtastigi. Í upphafi árs er líklegt að áhrif ríflegra launahækkana hafi trompað áhrif hækkandi vaxta og haldið uppi kröftugri einkaneyslu. Eftir því sem leið á árið sló hækkandi vaxtastig svo loks á innlenda eftirspurn en hærri vöxtum er meðal annars ætlað að hamla neyslugetu fólks með því að hækka lánaafborganir og eins hefta neysluvilja þeirra sem hafa hug á að nýta betri ávöxtun sparifjár. Á sama tíma hægði á kaupmáttaraukningu og kaupmáttur hefur dregist saman suma mánuði ársins þótt hann hafi aukist aftur á allra síðustu mánuðum. Eftir faraldurinn áttu heimilin uppsafnaðan sparnað sem þau hafa nú gengið verulega á og þar með hefur dregið úr svigrúmi til þess að auka neyslu. Launahækkanir samkvæmt nýjustu kjarasamningum teygðust fram á mitt þetta ár sem, ásamt fólksfjölgun, kom líklega í veg fyrir að einkaneyslan drægist saman á öðrum ársfjórðungi.

Samneysla jókst um 2,3%

Samneysla jókst í heild örlítið meira en síðustu ársfjórðunga, um 2,3% milli ára. Samkvæmt Hagstofunni má rekja vöxtinn að miklu leyti til kaupa hins opinbera á vörum og þjónustu. Rétt eins og þegar einkaneysla er skoðuð er vert að hafa í huga að á sama tíma fjölgaði landsmönnum um 3% og samneysla á mann dróst því saman.

Fjármunamyndun dróst saman milli ára

Fjármunamyndun í heild dróst saman um 4,3% milli ára. Þar af jókst fjármunamyndun atvinnuveganna milli ára en fjárfesting hins opinbera dróst saman og líka fjárfesting í íbúðarhúsnæði. Aukning í fjármunamyndun atvinnuveganna og samdráttur í fjárfestingu hins opinbera skýrist að einhverju leyti af grunnáhrifum, en á þriðja ársfjórðungi í fyrra keypti ríkið norðurhúsið við Reykjastræti af Landsbankanum. Þessi viðskipti komu inn í þjóðhagsreikninga sem neikvæð fjárfesting atvinnuveganna en jákvæð fjárfesting hins opinbera en höfðu ekki áhrif á fjármunamyndun í heild.

Íbúðafjárfesting dróst saman, eins og hún hefur gert allt frá árinu 2020. Það kemur ekki á óvart að hún geri það enn - velta í byggingariðnaði dróst saman í júlí og ágúst eftir samfellda aukningu síðustu tvö ár og fólki sem starfar í byggingariðnaði fjölgar nú þó nokkuð hægar en fyrir ári. Þá hafa talningar Samtaka iðnaðarins á íbúðum í byggingu bent til þess að tekið hafi að hægja á uppbyggingu íbúða.

Jákvætt framlag utanríkisviðskipta til hagvaxtar skýrist af minni innflutningi

Framlag utanríkisverslunar til hagvaxtar var jákvætt um 2,2%. Það skýrist þó að mestu af því að innflutningur dróst saman um 3,0% á sama tíma og útflutningur jókst einungis um 0,5%. Töluvert hefur því hægt á vexti útflutnings á þriðja fjórðungi, en samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar jókst hann um 0,5% á fjórðungnum. Til samanburðar jókst útflutningur á fyrstu tveimur fjórðungum ársins um 9,1%. Vöruútflutningur heldur áfram að dragast saman og á þriðja fjórðungi nam samdrátturinn um 3,7%.

Aukinn samdráttur í vöruútflutningi skýrist ekki síst af samdrætti í útflutningi á áli og álafurðum á þriðja fjórðungi, en álútflutningur jókst á fyrstu tveimur fjórðungum ársins. Útflutningur á sjávarafurðum dregst einnig nokkuð saman á þriðja fjórðungi, en útflutt tonn af þorski dregst þó minna saman en á fyrstu tveimur ársfjórðungum á meðan samdráttur í útfluttum tonnum af loðnu eykst. Útflutningur á eldisfiski hefur heldur ekki náð sér á strik það sem af er ári.

Vöxt í utanríkisviðskiptum má því rekja til aukins þjónustuútflutnings sem nam 7,4% á þriðja fjórðungi. Ferðaþjónusta hefur mest áhrif til aukins þjónustuútflutnings eins og síðustu ársfjórðunga. Á fyrri hluta árs jókst þjónustuútflutningur um 21,3% en minni vöxtur á þriðja fjórðungi skýrist af því að á fyrstu tveimur fjórðungum síðasta árs voru töluvert minni umsvif í ferðaþjónustu en á þriðja fjórðungi þessa árs.

Innflutningur dregst saman milli ára

Í takt við samdrátt í einkaneyslu og fjárfestingu dróst innflutningur saman á þriðja ársfjórðungi, í fyrsta sinn síðan á fyrsta fjórðungi 2021. Samdrátturinn mældist 3,0%, en á fyrstu tveimur fjórðungum ársins hafði bersýnilega hægt á vexti innflutnings og hann jókst aðeins um 1,8%. Samdráttur í innflutningi skýrist alfarið af samdrætti í vöruinnflutningi, sem dróst saman um 4,4% á þriðja ársfjórðungi, ekki síst vegna minni innlendrar eftirspurnar.

Þjónustuinnflutningur stendur í stað á milli ára, en innflutt ferðaþjónusta, þ.e utanlandsferðir Íslendinga, vegur þyngst í þjónustuinnflutningi og dregst áfram saman á þriðja ársfjórðungi. Íslendingar fóru í nokkuð margar utanlandsferðir  í byrjun árs og á fyrsta fjórðungi jókst þjónustuinnflutningur. Hann hefur nú dregist saman tvo ársfjórðunga í röð, í takt við töluvert minni einkaneyslu.

Birgðir olíu og rekstrarvara dragast saman

Liðurinn birgðabreytingar er reiknaður fyrir birgðir af innfluttum olíuvörum og birgðir útflutningsfyrirtækja og samanstendur af óseldri framleiðslu fyrirtækja í orkufrekum iðnaði og í sjávarútvegi. Birgðir í heild drógust saman um 0,3% á þriðja ársfjórðungi sem samkvæmt frétt Hagstofunnar skýrist af minni olíu- og rekstrarvörubirgðum sem vegur þyngra en auknar birgðir sjávarafurða.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
6. sept. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Lyftari í vöruhúsi
5. sept. 2024
Halli á viðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi
Halli mældist á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs, ólíkt öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar lítils háttar afgangur mældist. Það var afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum, en halli á vöruskiptum og rekstrarframlögum. Hrein staða þjóðarbúsins versnaði lítillega á fjórðungnum.
3. sept. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 3. september 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Íslenskir peningaseðlar
2. sept. 2024
Vikubyrjun 2. september 2024
Verðbólga lækkaði óvænt á milli mánaða í ágúst. Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, en á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur í fyrra var meiri en áður var talið og einnig að samdráttur var minni á fyrsta ársfjórðungi. Í þessari viku birtir Seðlabankinn gögn um greiðslujöfnuð við útlönd og fundargerð peningastefnunefndar.
Bílar
30. ágúst 2024
Samdráttur annan ársfjórðunginn í röð
Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur var meiri í fyrra en áður var talið og samdráttur einnig minni á fyrsta ársfjórðungi. Umsvif í hagkerfinu eru því meiri en áður var talið þótt landsframleiðsla dragist saman.
Paprika
29. ágúst 2024
Verðbólga undir væntingum - lækkar í 6,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í ágúst, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Ísland. Ársverðbólga lækkar því úr 6,3% í 6,0%, um 0,3 prósentustig. Vísitalan hækkaði nokkuð minna en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum óbreyttri verðbólgu. Það sem kom okkur mest á óvart var lækkun á menntunarliðnum, sem skýrist af niðurfellingu á skólagjöldum einstaka háskóla. Verð á matarkörfunni lækkaði í fyrsta skiptið í þrjú ár. 
Flutningaskip
27. ágúst 2024
Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum þrjá ársfjórðunga í röð
Afgangur af þjónustuviðskiptum náði ekki að vega upp halla af vöruviðskiptum á öðrum ársfjórðungi, ólíkt því sem var fyrir ári síðan. Bæði var meiri halli af vöruviðskiptum og minni afgangur af þjónustuviðskiptum en á öðrum fjórðungi síðasta árs.
Hús í Reykjavík
26. ágúst 2024
Vikubyrjun 26. ágúst 2024
Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum í síðustu viku, eins og búist var við. Nokkur kraftur er í fasteignamarkaðnum og vísitala íbúðaverðs og vísitala leiguverðs hækkuðu báðar þó nokkuð í júlí. Í þessari viku fáum við verðbólgutölur fyrir ágústmánuð og þjóðhagsreikninga annars ársfjórðungs. 
Rafbíll í hleðslu
20. ágúst 2024
Ný aðferð hefur skilað lægri verðbólgumælingum
Hagstofan hefur frá því í júní notað nýja aðferð við að mæla kostnað við búsetu í eigin húsnæði. Hefði Hagstofan ekki breytt um aðferð væri verðbólgumælingin nú líklega hærri. Um næstu áramót áforma stjórnvöld að breyta innheimtu gjalda á ökutæki sem mun að líkindum einnig hafa áhrif til lækkunar á mældri verðbólgu.
19. ágúst 2024
Neysla heimila meiri en áður var talið 
Uppfærð gögn Seðlabankans gefa til kynna að kortavelta íslenskra heimila hafi verið þó nokkuð meiri á þessu ári en áður var talið. Heildarkortavelta Íslendinga hefur aukist á milli ára alla mánuði ársins og hefur verið 4% meiri að raunvirði það sem af er ári en á sama tímabili í fyrra.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur