Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Mán­aða­mót 2. maí 2025

Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
2. maí 2025

Ný hagspá Greiningardeildar til ársins 2027 leit dagsins ljós snemma í apríl. Við teljum horfur á lítils háttar hagvexti á þessu ári og næstu tveimur árum. Samkvæmt spánni verður hagvöxturinn á breiðum grunni, drifinn áfram af aukinni einkaneyslu og fjárfestingu en einnig auknum útflutningi.

Við gáfum hagspána út í skugga verulegrar óvissu, einkum í tengslum við viðskiptahömlur og efnahagshorfur í heiminum. Bandaríkjaforseti svipti hulunni af umfangsmiklum tollaáformum í upphafi mánaðarins en frestaði stórum hluta þeirra nokkrum dögum síðar. Vegna aukinnar óvissu og ókyrrðar í milliríkjaviðskiptum hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkað hagvaxtarspár og hækkað verðbólguspár víðast hvar í vestrænum ríkjum.  

Segja má að verðbólgutala aprílmánaðar hafi valdið vonbrigðum. Verðbólga mældist 4,2% í apríl, umfram okkar spá sem gerði ráð fyrir 4,0% verðbólgu. Við spáum 3,9% verðbólgu í maí og júní og 3,7% í júlí.

Peningastefnunefnd tilkynnir um vaxtaákvörðun þann 21. maí, en stýrivextir standa nú í 7,75%. Raunstýrivextir eru 3,55% miðað við liðna verðbólgu, þeir sömu og eftir síðustu vaxtaákvörðun. Neysla landsmanna hefur haldið áfram að aukast og húsnæðisverð að hækka, auk þess sem verðbólguvæntingar hafa ekki gefið eftir á síðustu mánuðum. Líkur á vaxtalækkun í maí minnkuðu með verðbólgumælingu aprílmánaðar.  

Velta á íbúðamarkaði virðist hafa aukist á ný á fyrstu mánuðum ársins eftir að hafa minnkað smám saman frá því um mitt ár í fyrra. HMS fjallaði þó um það í mánuðinum að nýjar íbúðir seldust hægt og illa. Þótt hægt hafi á verðhækkunum á íbúðamarkaði hefur íbúðaverð hækkað þó nokkuð meira en verðlag í landinu almennt. Raunverð íbúða nú í mars var 5,3% hærra en á sama tíma í fyrra. Við spáum tiltölulega hófstillum verðhækkunum á næstu árum, á bilinu 5-6,5% að nafnvirði á ári.

Lesa fréttabréfið í heild:

Mánaðamót 2 apríl 2025 (PDF)

Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.

Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.

Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.

Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.

Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).
Þú gætir einnig haft áhuga á
Fasteignir
2. maí 2025
Leiguverð á hraðari uppleið en kaupverð undanfarið
Ör fólksfjölgun og hækkun húsnæðisverðs hefur aukið eftirspurn eftir leiguíbúðum. Stærstur hluti Airbnb-íbúða er nú leigður út af leigusölum með fleiri en tvær íbúðir í útleigu. Frumvarp um hert skilyrði um skammtímaleigu hefur verið sett í samráðsgátt. Hömlur á skammtímaleigu gætu aukið framboð leiguíbúða og jafnvel söluframboð. 
29. apríl 2025
Verðbólga yfir væntingum og mælist 4,2%
Verðbólga mældist 4,2% í apríl og hækkaði úr 3,8% frá því í mars. Verðbólga var umfram okkar spá, einkum vegna þess að reiknuð húsaleiga og verð á matvörum hækkaði meira en við bjuggumst við.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn
28. apríl 2025
Versnandi efnahagshorfur í heiminum að mati AGS
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) birti nýja efnahagsspá um páskana. Hagvaxtarhorfur í heiminum hafa verið færðar niður og AGS telur að spenna í alþjóðaviðskiptum og veruleg óvissa komi til með að draga úr umsvifum í heimshagkerfinu.
USD
28. apríl 2025
Vikubyrjun 28. apríl 2025
Hagstofan birtir verðbólgutölur fyrir aprílmánuð á morgun og við búumst við að verðbólga hækki tímabundið upp í 4%. Í vikunni fáum við fyrstu uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung og fyrsta mat á hagvexti í Bandaríkjunum og á evrusvæðinu á fyrsta ársfjórðungi.
Íbúðir
23. apríl 2025
Horfur á hófstilltum hækkunum á íbúðaverði
Við teljum horfur á tiltölulega hófstilltum verðhækkunum á íbúðamarkaði næstu árin, 5,9% hækkun á þessu ári, 4,8% hækkun á næsta ári og 6,4% hækkun árið 2027. Til samanburðar hefur íbúðaverð hækkað um 9% á ári að jafnaði frá aldamótum, og að meðaltali um 13% á ári frá árinu 2021. 
Greiðsla
22. apríl 2025
Vikubyrjun 22. apríl 2025
Leiguverð hefur hækkað um 11,3% á síðustu tólf mánuðum, þó nokkuð meira en íbúðaverð sem hefur hækkað um 8% á sama tímabili. Hækkanir á íbúða- og leigumarkaði eru þó nokkuð umfram almennar verðhækkanir í landinu, en verðbólga mældist 3,8% í mars. Áfram er kraftur í innlendri neyslu, greiðslukortavelta heimila hefur aukist statt og stöðugt síðustu mánuði og var 1,8% meiri í mars síðastliðnum en í mars í fyrra.  
Gönguleið
16. apríl 2025
Óljósar horfur í ferðaþjónustu vegna sviptinga í alþjóðasamskiptum
Sviptingar í alþjóðaviðskiptum gætu haft margvísleg áhrif á ferðaþjónustu hér á landi. Tollar gætu rýrt kaupmátt Bandaríkjamanna og haft áhrif á komur þeirra hingað til lands. Auk þess eru merki um að áhugi Evrópubúa á að heimsækja Bandaríkin fari dvínandi, sem gæti haft áhrif hingað heim, enda hafa Evrópubúar gjarnan komið við á Íslandi á leið sinni vestur um haf. Í nýrri hagspá gerum við ráð fyrir samdrætti í ferðaþjónustu á þessu ári, en að hún taki aftur við sér á næstu tveimur árum.
Mynt 100 kr.
14. apríl 2025
Vikubyrjun 14. apríl 2025
Í síðustu viku birtum við hagspá til næstu ára þar sem við spáum 1,4% hagvexti í ár og um 2% hagvexti næstu árin. Ferðamönnum fækkaði um 13,8% milli ára í mars. Skráð atvinnuleysi í mars var 0,4 prósentustigum hærra en í mars í fyrra. Þau tíðindi bárust einnig að skuldabréfaeigendur ÍL-sjóðs hefðu samþykkt að breyta skilmálum bréfanna sem heimilar útgefanda að gera upp bréfin. Í þessari viku birtir svo HMS vísitölu íbúðaverðs og leiguverðs.
Paprika
10. apríl 2025
Spáum 4% verðbólgu í apríl
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,77% á milli mánaða í apríl og að verðbólga hækki úr 3,8% í 4,0%. Hækkunin á milli mánaða skýrist meðal annars af tímasetningu páskanna í ár.
9. apríl 2025
Hagspá til 2027: Ágætis horfur en allt getur breyst
Hagkerfið hefur kólnað eftir kröftugt vaxtarskeið fyrstu árin eftir Covid-faraldurinn og við teljum að nú fari það hægt af stað á ný.