Ný hagspá Greiningardeildar til ársins 2027 leit dagsins ljós snemma í apríl. Við teljum horfur á lítils háttar hagvexti á þessu ári og næstu tveimur árum. Samkvæmt spánni verður hagvöxturinn á breiðum grunni, drifinn áfram af aukinni einkaneyslu og fjárfestingu en einnig auknum útflutningi.
Við gáfum hagspána út í skugga verulegrar óvissu, einkum í tengslum við viðskiptahömlur og efnahagshorfur í heiminum. Bandaríkjaforseti svipti hulunni af umfangsmiklum tollaáformum í upphafi mánaðarins en frestaði stórum hluta þeirra nokkrum dögum síðar. Vegna aukinnar óvissu og ókyrrðar í milliríkjaviðskiptum hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn lækkað hagvaxtarspár og hækkað verðbólguspár víðast hvar í vestrænum ríkjum.
Segja má að verðbólgutala aprílmánaðar hafi valdið vonbrigðum. Verðbólga mældist 4,2% í apríl, umfram okkar spá sem gerði ráð fyrir 4,0% verðbólgu. Við spáum 3,9% verðbólgu í maí og júní og 3,7% í júlí.
Peningastefnunefnd tilkynnir um vaxtaákvörðun þann 21. maí, en stýrivextir standa nú í 7,75%. Raunstýrivextir eru 3,55% miðað við liðna verðbólgu, þeir sömu og eftir síðustu vaxtaákvörðun. Neysla landsmanna hefur haldið áfram að aukast og húsnæðisverð að hækka, auk þess sem verðbólguvæntingar hafa ekki gefið eftir á síðustu mánuðum. Líkur á vaxtalækkun í maí minnkuðu með verðbólgumælingu aprílmánaðar.
Velta á íbúðamarkaði virðist hafa aukist á ný á fyrstu mánuðum ársins eftir að hafa minnkað smám saman frá því um mitt ár í fyrra. HMS fjallaði þó um það í mánuðinum að nýjar íbúðir seldust hægt og illa. Þótt hægt hafi á verðhækkunum á íbúðamarkaði hefur íbúðaverð hækkað þó nokkuð meira en verðlag í landinu almennt. Raunverð íbúða nú í mars var 5,3% hærra en á sama tíma í fyrra. Við spáum tiltölulega hófstillum verðhækkunum á næstu árum, á bilinu 5-6,5% að nafnvirði á ári.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









