Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,93% á milli mánaða í apríl og verðbólga hækkaði aftur upp í 4,2% úr 3,8%, nokkuð umfram okkar spá um 4,0% verðbólgu. Vísitala neysluverðs án húsnæðis hefur hækkað um 3,2% síðustu 12 mánuði sem er töluverð aukning frá því í síðasta mánuði þegar árshækkunin nam 2,5%.
Það sem kom helst á óvart í aprílmælingunni var meiri hækkun á reiknaðri húsaleigu en við höfðum spáð. Liðurinn hækkaði um 1,1% en ekki 0,5% eins og við spáðum. Verð á mat og drykkjarvörum hækkaði einnig meira en við gerðum ráð fyrir, eða um 0,8%. Verð á fötum og skóm hækkaði minna en við höfðum spá og athygli vekur að það er enn lægra en það var fyrir janúarútsölurnar. Framlag innfluttra vara til ársverðbólgu hækkaði nokkuð á milli mánaða og verðhækkun innfluttra vara virðist vera á tiltölulega breiðum grunni.
Framlag innfluttra vara mest til hækkunar á ársverðbólgu
Hækkun á verðbólgu í apríl skýrist að stærstum hluta af auknu framlagi innfluttra vara, en framlag þeirra til ársverðbólgu jókst um 0,23 prósentustig á milli mánaða. Það er ekki ein innflutt vörutegund sem skýrir stærstan hluta aukins framlags heldur virðist hækkunin nokkuð almenn. Tómstundavörur og fatnaður skýra 0,10 prósentustig, raftæki 0,3 prósentustig og reiðhjól 0,3, svo eitthvað sé nefnt.
Framlag flugfargjalda til ársverðbólgu jókst einnig nokkuð, en það skýrist af því að páskahækkunin í fyrra dreifðist á tvo mánuði en í ár kom hún öll fram í apríl, enda var framlag flugfargjalda til lækkunar á ársverðbólgu í síðasta mánuði. Í apríl voru flugfargjöld um 4% hærri en á sama tíma í fyrra.
Framlag reiknaðrar húsaleigu til ársverðbólgu minnkaði vegna þess að reiknuð húsaleiga hækkaði minna en í apríl í fyrra. Liðurinn hækkaði um 1,1% nú en um 1,7% í apríl í fyrra. Reiknuð húsaleiga hækkaði nokkuð umfram okkar spá um 0,5%. Febrúarhækkun vísitölu neysluverðs kom til hækkunar á verðtryggðum leigusamningum, en hún var 0,93%, sem skýrir eflaust stóran hluta hækkunarinnar. Almennt hefur vísitala neysluverðs til verðtryggingar þó ekki gefið gott spágildi um breytingar á reiknaðri húsaleigu.
Helstu liðir vísitölunnar:
- Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði aftur, nú um 0,8% á milli mánaða (+0,12% áhrif), nokkuð umfram okkar spá um 0,4%. Vísitala verðlagseftirlits ASÍ hækkaði eftir því sem leið á mánuðinn og er nú nær mælingu Hagstofunnar en fyrr í mánuðinum, þegar við tókum stöðuna.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 1,1% á milli mánaða (0,22% áhrif), nokkuð umfram okkar spá.
- Föt og skór hækkuðu um 0,8% á milli mánaða (0,03% áhrif). Við höfðum spáð 3% hækkun og þar með að útsölur myndu ganga alveg til baka. Verð á fötum og skóm er enn lægra en það var fyrir útsölur. Við gerum nú ráð fyrir að liðurinn hækki rólega fram að sumarútsölum.
- Flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 20,4% á milli mánaða (0,40% áhrif). Hækkunin var í takt við okkar spá.
Minni líkur á vaxtalækkun í maí
Peningastefnunefnd tilkynnir um vaxtaákvörðun þann 21. maí, en stýrivextir standa nú í 7,75%. Raunstýrivextir eru 3,55% miðað við liðna verðbólgu, þeir sömu og eftir síðustu vaxtaákvörðun. Neysla landsmanna hefur haldið áfram að aukast og húsnæðisverð að hækka, auk þess sem verðbólguvæntingar hafa ekki gefið eftir á síðustu mánuðum. Að svo stöddu virðast líkur á vaxtalækkun í maí þverrandi.
Horfur á 3,8% verðbólgu í júní
Við gerum nú ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,33% í maí, 0,51% í júní og 0,19% í júlí. Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 3,9% í maí og júní og 3,7% í júlí. Spáin nú er aðeins hærri en sú sem við birtum í verðkönnunarvikunni í apríl þar sem við gerðum ráð fyrir 3,7% verðbólgu í maí og júní og 3,4% í júlí. Munurinn á spánum skýrist að mestu af því að aprílmælingin var hærri en við bjuggumst við.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









