Vikubyrjun 5. maí 2025

Vikan framundan
- Á miðvikudag birta Arion banki, Kvika banki og Sýn uppgjör. Þá er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Bandaríkjanna.
- Á fimmtudag birta Alvotech, Eik og Íslandsbanki uppgjör og svo er vaxtaákvörðun hjá Englandsbanka.
- Á föstudag birtir Ferðamálastofa gögn um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og Vinnumálastofa birtir skráð atvinnuleysi.
Mynd vikunnar
Verg landsframleiðsla í Bandaríkjunum dróst saman um 0,3 prósentustig á ársgrundvelli á fyrsta ársfjórðungi. Landsframleiðslan var minni en búist hafði verið við og verulegur viðsnúningur varð frá fjórða ársfjórðungi síðasta árs, þegar hagvöxtur mældist 2,4%. Samdrátturinn skýrist að miklu leyti af auknum vöruinnflutningi fyrirtækja sem birgðu sig upp áður en tollar tóku gildi. Þessi áhrif endurspeglast að hluta til í þjóðhagsreikningum sem auknar birgðir, en ekki nóg til þess að vega á móti auknum innflutningi. Þar að auki minnkuðu útgjöld hins opinbera á milli ára. 177 þúsund ný störf urðu til í Bandaríkjunum í apríl. Fjölgunin var lítillega umfram væntingar en ný störf voru þó færri en í mars þegar þau voru um 185 þúsund. Atvinnuleysi í Bandaríkjunum hélst óbreytt á milli mánaða í 4,2%.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Verðbólga hækkaði úr 3,8% í 4,2% í apríl, nokkuð umfram spá okkar um 4,0% verðbólgu. Reiknuð húsaleiga hækkaði meira en við bjuggumst við og það sama má segja um verð á mat og drykkjarvöru. Verð á fötum og skóm hækkaði aftur á móti minna en við höfðum spáð. Framlag innfluttra vara til ársverðbólgu hækkaði nokkuð á milli mánaða. Við teljum að verðbólga hjaðni aðeins næstu mánuði og verði komin niður í 3,7% í júlí.
- Gistinóttum á öllum tegundum skráðra gististaða fækkaði um 2,9% á milli ára í mars, þar af um 3,4% á hótelum. Hagstofan vinnur nú að endurskoðun á flokkun gistinótta eftir þjóðerni og birtir því ekki skiptingu á milli Íslendinga og erlendra ferðamenn að sinni.
- Velta samkvæmt VSK-skýrslum jókst um 4,5% á milli ára á föstu verðlagi á VSK-tímabilinu janúar-febrúar 2025.
- Árstíðaleiðrétt atvinnuleysi var 3,7% í mars, samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands.
- Á evrusvæðinu mældist 0,4% hagvöxtur á milli ársfjórðunga á fyrsta ársfjórðungi. Vöxturinn var meiri en búist var við, en það skýrist að hluta til af einskiptisaukningu á VLF á Írlandi vegna alþjóðlegra fyrirtækja sem taka tekjur í gegnum írsk dótturfélög. Flestir greinendur telja að tollar í Bandaríkjunum dragi niður hagvöxt á evrusvæðinu það sem eftir er árs.
- Verðbólga á evrusvæðinu í apríl var óbreytt á milli mánaða í 2,2%. Verðbólga var umfram væntingar. Árshækkun þjónustuverðs, sem ECB álítur helsta mælikvarða á innlendan verðþrýsting, hækkaði úr 3,5% í 3,8%. Hækkunin setur Seðlabanka Evrópu í eins konar klemmu hvað varðar næstu vaxtaákvarðanir, en bankinn hóf vaxtalækkunarferil síðasta sumar.
- S&P hækkaði lánshæfismat Landsbankans úr BBB+ í A-.
- Festi (fjárfestakynning), Hagar, Icelandair (fjárfestakynning), Landsbankinn, Play, Síminn, Skagi og Skel birtu uppgjör.
- Orkuveita Reykjavíkur hélt útboð á grænum skuldabréfum og Síminn hélt útboð á víxlum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









