Vikan framundan
- Á þriðjudag gefur Hagstofan út vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,4% milli júlí og ágúst. Gangi spáin eftir verður ársverðbólgan óbreytt milli mánaða í 9,9%. Origo og Sýn birta ársfjórðungsuppgjör á þriðjudaginn.
- Á miðvikudag gefur Hagstofan út þjóðhagsreikninga, bæði bráðabirgðatölur fyrir 2021 og fyrir annan ársfjórðung þessa árs.
- Á föstudag gefur Seðlabankinn út tölur um greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins á öðrum ársfjórðungi.
Mynd vikunnar
Vísbendingar eru um að einkaneysla verði áfram kröftug en þar vegur þungt mikil aukning ferðalaga til útlanda í vor og sumar en einnig áframhaldandi aukning neysluútgjalda innanlands. Aukin neysluútgjöld birtast m.a. í mikilli aukningu greiðslukortaveltu og enn frekari aukningu á nýskráningum bifreiða. Hrein ný bílalán heimila, þ.e. ný lán að frádregnum upp- og umframgreiðslum, hafa aukist verulega á síðustu mánuðum og námu samtals 2,6 mö.kr. í júlí sl. sem er 34% aukning milli ára miðað við fast verðlag.
Efnahagsmál
- Launavísitalan lækkaði um 0,1 prósentustig milli júní og júlí, samkvæmt tölum Hagstofu Íslands.
- Peningastefnunefnd tilkynnti á miðvikudaginn um 0,75 prósentustiga hækkun stýrivaxta. Stýrivextir eru því komnir upp í 5,5% en þeir fóru lægst í 0,75% í maí á síðasta ári. Þessi hækkun var í samræmi við væntingar okkar. Samhliða þessu gaf Seðlabankinn út ársfjórðungsrit sitt, Peningamál, með uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá. Hagfræðideild Landsbankans fjallaði um hækkun stýrivaxta og áhrif þess á hagkerfið í hlaðvarpsþætti Landsbankans, Umræðan.
- Seðlabankinn gaf út tölur um bankakerfið en hrein ný útlán, þ.e. útlán innlánsstofnana að frádregnum upp- og umframgreiðslum, jukust um 8% á milli ára á föstu verðlagi í júlí.
- Hagstofan birti tölur fyrir inn- og útflutning vöru og þjónustu á öðrum fjórðungi, auk atvinnuleysistalna, en samkvæmt árstíðaleiðréttum tölum var hlutfall atvinnulausra 4,1% í júlí.