Vikan framundan
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabankanum og við spáum 1,0 prósentustiga hækkun. Samhliða ákvörðuninni birtir Seðlabankinn Peningamál með nýrri þjóðhags- og verðbólguspá. Hagstofan birtir einnig vöru- og þjónustujöfnuð fyrir 1. ársfjórðung.
- Á fimmtudag birtir Síldarvinnslan árshlutauppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan verðbólgumælingu maímánaðar. Við eigum von á að verðbólgan lækki úr 9,9% í 9,6%..
Mynd vikunnar
Í upphaf árs 2015 fór um 10% af kortaveltu íslenskra heimila fram erlendis, annað hvort vegna ferðalaga erlendis eða í gegnum erlendar netverslanir. Þetta hlutfall var komið upp í kringum 15% áður en að heimsfaraldurinn skall á og fór það lægst í 7% á meðan engar utanlandsferðir voru í boði. Síðan hefur hlutfallið hækkað og er núna í kringum 20%. Þetta er merki þess að neysla íslenskra heimila fari í auknum mæli fram erlendis hvort sem er vegna aukinna ferðalaga eða aukinnar netverslunar, en aukning í kortaveltu íslenskra heimila síðan heimsfaraldrinum lauk hefur verið drifinn áfram af kaupum á vöru og þjónustu frá erlendum söluaðilum.
Helsta frá vikunni sem leið
- Heildarkortavelta íslenskra heimila dróst saman um 5% milli ára í apríl. Þetta er í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem heildarkortaveltan dregst saman milli ára að raunvirði. Kortavelta Íslendinga innanlands var 7,2% minni en í apríl í fyrra en erlendis jókst hún um 5% miðað við fast verðlag og gengi. Samdráttur í kortaveltu kann að vera merki um að tekið sé að hægja á einkaneyslu, en þó ber að varast að lesa of mikið í einstaka mánuði.
- Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,8% milli mánaða í apríl og er þetta þriðji mánuðurinn í röð sem vísitalan hækkar milli mánaða. Árshækkun vísitölu íbúðaverðs mælist nú 8,6% og lækkar milli mánaða þrátt fyrir þessa hækkun.
- Seðlabankinn birti niðurstöður úr könnun á væntingum markaðsaðila sem fór fram í byrjun maí. Verðbólguvæntingar versnuðu nokkuð frá síðustu könnun sem fór fram í janúar, en í stað 5,5% verðbólgu í loks árs gera markaðsaðilar nú ráð fyrir 7,5% verðbólgu (miðgildi svara varðandi meðalverðbólgu á 4. ársfjórðungs 2023). Miðað við miðgildi svara eiga markaðsaðilar almennt von á 1 prósentustigs hækkun á stýrivöxtum núna í vikunni, en 66% svarenda töldu að taumhald peningastefnu væri of laust.
- Reitir, Eimskip, Brim, Eik, Iceland Seafood og Alvotech birtu uppgjör.
- Af skuldabréfamarkaði er að frétta að OR hélt útboð á grænum skuldabréfum, Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum bréfum, Gróska hélt útboð á grænum skuldabréfum, Arion banki gaf út skuldabréf í evrum, Íslandsbanki birti niðurstöður endurkaupatilboðs á skuldabréfum bankans í evrum og Lánamál ríkisins tilkynntu um endurkaupatilboð á skuldabréfum ríkissjóðs í evrum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi umfjöllun og/eða samantekt er markaðsefni sem er ætlað til upplýsinga en felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningar eiga því ekki við, þar með talið bann við viðskiptum fyrir dreifingu. Umfjöllunin er unnin út frá opinberum upplýsingum frá aðilum sem Landsbankinn telur áreiðanlega, en bankinn getur ekki ábyrgst réttmæti upplýsinganna. Landsbankinn tekur enga ábyrgð á tjóni sem gæti hlotist af notkun upplýsinganna sem hér eru settar fram.Upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga eða -vísitalna sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef árangur byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Nánari upplýsingar um fyrri árangur fjármálagerninga og -vísitalna má finna á vef Landsbankans, þ.m.t. um ávöxtun síðastliðinna 5 ára.Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra á vef Landsbankans. Landsbankinn er viðskiptabanki sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og starfar undir leyfi og eftirliti fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.fme.is).








