Óhætt er að segja að október hafi verið viðburðaríkur í efnahagslífinu og óvissa um efnahagshorfur hefur síst minnkað á síðustu vikum. Bilun í álveri Norðuráls á Grundartanga gæti höggvið þó nokkuð skarð í útflutningstekjur Íslands á næstu mánuðum og áhrifin gætu numið um það bil 1% af landsframleiðslu. Dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu setti einnig svip sinn á mánuðinn og enn er óvíst hversu mikil áhrif dómurinn kann að hafa á framboð íbúðalána og þar með á horfur á íbúðamarkaði. Þar að auki kynnti ríkisstjórnin sinn fyrsta aðgerðapakka í húsnæðismálum sem er m.a. ætlað að auka framboð íbúða og draga úr hvata til að safna íbúðum til útleigu.
Í hvirfilvindi allra þessara vendinga gáfum við út hagspá til ársins 2028 þann 22. október. Hagspáin ber heitið Kólnandi kerfi en kraftmikil neysla og gerir ráð fyrir lítils háttar hagvexti á næstu árum. Ætla má að hagvöxtur verði ekki síst drifinn áfram af aukinni einkaneyslu en einnig smám saman auknum útflutningi og aukinni fjárfestingu sum árin. Það ber þó að hafa í huga að spáin var gefin út áður en Norðurál tilkynnti um bilunina og því má ætla að hagvöxtur á næsta ári sé ofmetinn og á móti sé hann vanmetinn árið 2027.
Verðbólga jókst umfram væntingar í október og mældist 4,3%. Það má telja áhyggjuefni að undirliggjandi verðþrýstingur virðist hafa aukist, svo sem verð á matvöru og ýmissi þjónustu. Þá eiga hækkanir á flugfargjöldum í tengslum við fall Play eftir að koma fram í vísitölunni og flugfargjöld hækkuðu mun minna en við bjuggumst við í október. Við teljum horfur á að verðbólga haldist í 4,3% út þetta ár, áður en hún eykst í janúar í 4,5%, m.a. vegna breytinga á opinberri gjaldtöku á ökutækjum. Við teljum nær óhugsandi að Seðlabankinn lækki vexti á næsta fundi peningastefnunefndar, þann 19. nóvember.
Krónan veiktist síðustu daga mánaðarins eftir að hafa styrkst fyrri hluta mánaðarins. Erlendir aðilar tóku að selja ríkisskuldabréf á síðustu dögum og hugsanlega hafa væntingar um veikingu krónunnar aukist í kjölfar fregna af bilun hjá Norðuráli. Einhverjir kunna að hafa búist við vaxtalækkun og þar með minnkandi vaxtamun. Verðbólgutala síðustu viku hlýtur þó að hafa þurrkað út væntingar um vaxtalækkun og því verður áhugavert að fylgjast með gengisþróun næstu daga og vikur.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).










