Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um óbreytt­um vöxt­um þrátt fyr­ir svipt­ing­ar í efna­hags­líf­inu

Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga jókst umfram væntingar í október og verðbólgumælingin bar þess merki að undirliggjandi verðþrýstingur hefði aukist. Í ljósi breytts lánaframboðs og óviðbúinna áfalla í útflutningsgeirunum má líkast til búast við mildari tón frá peningastefnunefnd.
Seðlabanki Íslands
14. nóvember 2025

Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku og kynnir vaxtaákvörðun miðvikudaginn 19. nóvember. Nefndin hélt vöxtum óbreyttum á síðustu tveimur fundum, eftir að hafa lækkað vexti á fimm fundum þar á undan. Stýrivextir standa nú í 7,50%. Vegna þess að verðbólga jókst lítillega í október hafa raunstýrivextir lækkað og standa nú í 3,2%.

Ýmislegt hefur gerst frá síðasta fundi peningastefnunefndar. Má þar helst nefna vaxtadóminn og viðbrögð lánveitenda við honum, sem gætu ein og sér aukið peningalegt taumhald í hagkerfinu og þar með kælt eftirspurn. Ef breytt lánaframboð skapar þéttara taumhald gæti dregið úr þörfinni á þéttu taumhaldi Seðlabankans. Einnig gæti verulega skert álframleiðsla vegna bilunar hjá Norðuráli haft áhrif á hagvaxtarhorfur næstu fjórðunga og með tímanum dregið úr þenslu. Á móti hefur gengi krónunnar veikst, sem gæti kynt undir innflutta verðbólgu. Þá ríkir mikil óvissa varðandi tolla Evrópusambandsins á kísilmálm, horfur í sjávarútvegi hafa versnað og störfum fækkað í flugbransanum.

Við teljum að nýlegar vendingar í efnahagslífinu verði til þess að hagkerfið kólni hraðar en ætla mátti fyrr í haust. Þannig kunni þær að vera til þess fallnar að hraða vaxtalækkunum þegar þar að kemur en þó teljum við ólíklegt að Seðlabankinn taki af skarið strax í næstu viku. Peningastefnunefnd hefur það lögbundna hlutverk að viðhalda verðstöðugleika og í fundargerð peningastefnunefndar eftir síðasta fund kom meðal annars fram að nefndin teldi „brýnt að sjá skýrari hjöðnun verðbólgu áður en frekari skref væru tekin í lækkun vaxta“.

Verðbólga jókst umfram væntingar í október og bar þess merki að undirliggjandi verðbólguþrýstingu kynni að hafa aukist. Verðbólguvæntingar hafa ekki gefið nægilega eftir og horfur til næstu mánaða virðast ekki nógu bjartar. Þótt ýmislegt hafi gengið á teljum við ólíklegt að sjónarmið nefndarinnar um mikilvægi þess að ná niður verðbólgu víki fyrir aðgerðum til þess að örva hagkerfið.

Merki um aukinn verðþrýsting í október

Verðbólga jókst í október og mældist 4,3%, en opinberar spár höfðu gert ráð fyrir 4,1-4,2% verðbólgu. Það sem skiptir ekki síður máli er að þróun undirliða verðbólgunnar bendir til aukins undirliggjandi verðbólguþrýstings. Þetta speglast meðal annars í aukinni árshækkun vísitölu neysluverðs án húsnæðis og allra kjarnavísitalna verðbólgunnar sem eru merki um að aukin verðbólga eigi ekki rætur í tilfallandi hækkun sveiflukenndra liða, heldur frekar stöðugri liða á borð við matvöru og þjónustu.

Við teljum verðbólguhorfur næstu mánaða heldur ekki sérlega bjartar og að jafnvel þótt peningastefnunefnd yrði framsýnni en áður sæju nefndarmenn ekki tilefni til vaxtalækkana. Við spáum 4,3% verðbólgu í nóvember, 4,5% í desember, 4,6% í janúar og 4,5% í febrúar.

Neyslukraftur viðheldur verðbólgu þótt hægi á í atvinnulífinu

Kaupmáttaraukning hefur haldið áfram að skila sér í aukinni neyslu: kortavelta landsmanna hefur aukist á milli ára með hverjum mánuðinum, Íslendingar hafa farið um 20% fleiri utanlandsferðir það sem af er ári en á sama tíma í fyrra og bílakaup hafa færst í aukana. Á sama tíma eykst sparnaður á innlánsreikningum og vanskil hafa ekki vaxið.

Þegar verðbólguvæntingar eru þrálátar er hætt við að launahækkanir smitist hratt út í verðlag og því líklega ekki furða þótt kraftmikil neysla birtist í þrálátri verðbólgu.

Verðbólguvæntingar þrálátar

Seðlabankinn birti á miðvikudag sl. niðurstöður úr nýrri könnun á verðbólguvæntingum á meðal markaðsaðila. Væntingar um verðbólgu hafa lítið breyst og áfram er þess vænst að verðbólga hjaðni hægt og rólega á næstu mánuðum. Þó virðist nokkur breyting hafa orðið á viðhorfi markaðsaðila til peningalegs taumhalds: Ólíkt niðurstöðum úr síðustu könnun telur meirihluti svarenda nú að peningalegt taumhald sé of þétt. Sú skoðun virðist þó ekki endilega haldast í hendur við álit markaðsaðila á því hver viðbrögð Seðlabankans verði í næstu viku, því áfram telja flestir að vöxtum verði haldið óbreyttum út árið. Flestir búast þó við hraðari vaxtalækkunum á næsta ári en áður.  

Væntingar um verðbólgu gefa fyrirheit um verðbólgu fram í tímann og geta líka einar og sér haft veruleg áhrif á verðbólguþróun. Þær hafa áhrif á verðsetningu fyrirtækja og launakröfur launafólks og því er til mikils að vinna að halda þeim í skefjum.

Skjótt skiptast veður í lofti og óljóst hversu hratt kerfið kólnar

Greina má skýr merki um kólnun í atvinnulífinu. Stjórnendur fyrirtækja virðast hafa sífellt minni væntingar til efnahagslífsins og minni áform um ráðningar. Innflutningur á byggingarefni er þó nokkuð minni en í fyrra og hið sama má segja um ýmsar fjárfestingarvörur. Þá jókst atvinnuleysi þó nokkuð í október og mældist 3,9%. Telja má horfur á að það aukist umfram árstíðabundna sveiflu á næstu mánuðum.

En á meðan neysla eykst og verðbólga er þrálát teljum við að peningastefnunefnd hætti ekki á að tefla í tvísýnu þeim árangri sem hefur náðst í baráttunni við verðbólgu. Samkvæmt fundargerð frá síðasta fundi peningastefnunefndar, 6.-7. október, töldu nefndarmenn „að þétt taumhald væri nauðsynlegt til að tryggja áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og að ótímabær slökun taumhaldsins gæti stefnt í uppnám þeim árangri sem náðst hefði“.

Nefndinni hlýtur að vera annt um eigin trúverðugleika og þótt vissulega fylgi því einnig áhætta að halda vöxtum háum of lengi teljum við að nefndarmenn óttist frekar að missa aftur tökin á verðbólgu, að minnsta kosti á meðan neyslukraftur er jafn sterkur og raun ber vitni.

Vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Niðurstaða Meginvextir
8. feb. 2023 +0,50% ÁJ, RS, GJ, GZ, HS HS (+0,75%) +0,50% 6,50%
22. mars 2023
+1,00% ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS  

+1,00%

7,50%
24. maí 2023 +1,25% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+1,00%)   +1,25% 8,75%
23. ágúst 2023 +0,50% ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (+0,25%)   +0,50% 9,25%
4. október 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP HS (+0,25%) ÁÓP (+0,25%) óbr. 9,25%
22. nóvember 2023 óbr. ÁJ, RS, GJ, ÁP, HS   óbr. 9,25%
7. febrúar 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
20. mars 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS GJ (-0,25%)   óbr. 9,25%
8. maí 2024 óbr. ÁJ, RS, ÁP, HS AS (-0,25%)   óbr. 9,25%
21. ágúst 2024 óbr. ÁJ, RS, TB, ÁP, HS     óbr. 9,25%
2. október 2024 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁP, HS   HS (óbr.) -0,25% 9,00
20. nóvember 2024 -0,50% ÁJ, RS, TB,  ÁÓP, HS     -0,50% 8,50%
5. febrúar 2025 -0,50% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     -0,50% 8,00%
19. mars 2025 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS     -0,25% 7,75%
21. maí 2025 -0,25% ÁJ, RS, TB, ÁÓP, HS   HS (óbr.) -0,25% 7,50%
20. ágúst 2025 óbr. ÁJ, ÞGP, TB, ÁÓP, HS     óbr. 7,50%
8. október 2025 óbr. ÁJ, ÞGP, TB, ÁÓP, HS     óbr. 7,50%
19. nóvember 2025            

AS: Arnór Sighvatsson, ÁJ: Ásgeir Jónsson, ÁÓP: Ásgerður Ósk Pétursdóttir, GJ: Gunnar Jakobsson, GZ: Gylfi Zoëga, HS: Herdís Steingrímsdóttir, RS: Rannveig Sigurðardóttir, TB: Tómas Brynjólfsson, ÞGP: Þórarinn G. Pétursson
Heimild: Seðlabanki Íslands

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Bananar
22. des. 2025
Verðbólgumælingin ekki jafnslæm og hún virðist í fyrstu
Verðbólga rauk upp í 4,5% í desember eftir að hafa hjaðnað verulega í nóvember og mælst 3,7%. Rífleg hækkun á flugfargjöldum til útlanda skýrir stóran hluta hækkunarinnar, en einnig töluverð gjaldskrárhækkun á hitaveitu í desember. Aukin verðbólga skýrist þannig af afmörkuðum, sveiflukenndum liðum og ekki er að greina merki um að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist að ráði.
Vélsmiðja Guðmundar
22. des. 2025
Vikubyrjun 22. desember 2025
Fasteignamarkaðurinn fer enn kólnandi, ef marka má skýrslu sem HMS gaf út í síðustu viku. Gistinóttum á hótelum fækkaði um 6,6% á milli ára í nóvember. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 1,9% á milli ára á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt Hagstofunni. Í dag birtir Hagstofan verðbólgutölur.
Flugvél
15. des. 2025
Vikubyrjun 15. desember 2025
Færri erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í nóvember í ár en í nóvember í fyrra en utanlandsferðum Íslendinga hélt áfram að fjölga. Skráð atvinnuleysi hefur aukist þó nokkuð á síðustu mánuðum og var 4,3% í nóvember.
11. des. 2025
Spáum 3,9% verðbólgu í desember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,56% á milli mánaða í desember. Gangi spáin eftir mun verðbólga hækka úr 3,7% í 3,9% í desember. Flugfargjöld til útlanda, reiknuð húsaleiga og lok tilboðsdaga í nóvember verða til hækkunar en bensínverð til lækkunar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði á bilinu 3,9% til 4,0% næstu mánuði.
8. des. 2025
Vikubyrjun 8. desember 2025
Talsvert minni afgangur mældist af viðskiptum við útlönd á þriðja ársfjórðungi þessa árs en þess síðasta. Í síðustu viku gaf Seðlabankinn út yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fundargerð peningastefnunefndar. Í þessari viku verða birtar ferðamannatölur og skráð atvinnuleysi fyrir nóvembermánuð.
1. des. 2025
Mánaðamót 1. desember 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
1. des. 2025
Vikubyrjun 1. desember 2025
Óhætt er að segja að verðbólgumælingin í síðustu viku hafi komið á óvart. Verðbólga mældist 3,7% í nóvember og hefur ekki mælst minni í fimm ár. Hagstofan áætlar að landsframleiðsla hafi aukist um 1,2% á þriðja ársfjórðungi. Gistinóttum fjölgaði alls um 1,8% á milli ára í október.
Flutningaskip
28. nóv. 2025
1,2% hagvöxtur á þriðja fjórðungi
Landsframleiðsla jókst um 1,2% á þriðja ársfjórðungi og um 1,5% á fyrstu níu mánuðum ársins. Hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi var drifinn áfram af innlendri eftirspurn og þjóðarútgjöld jukust um heil 4,7%. Áfram er kraftur í einkaneyslu og fjárfestingu, en auknar birgðir hafa einnig sitt að segja. Innflutningur vegur þungt á móti og framlag utanríkisviðskipta er neikvætt, líkt og á síðustu fjórðungum.
Epli
27. nóv. 2025
Verðbólga ekki minni í fimm ár
Verðbólga hjaðnaði úr 4,3% í 3,7% í nóvember og hefur ekki verið minni frá því í desember 2020. Áhrif af afsláttardögum í nóvember komu mun skýrar fram í mælingu Hagstofunnar nú en síðustu ár og flugfargjöld til útlanda lækkuðu mun meira en við bjuggumst við.
Byggingakrani
24. nóv. 2025
Vikubyrjun 24. nóvember 2025
Seðlabankinn lækkaði vexti í síðustu viku með það fyrir augum að stemma stigu við því aukna peningalega aðhaldi sem hefur hlotist af breyttu lánaframboði í kjölfar vaxtadómsins. Auk þess spáir Seðlabankinn nú auknum slaka í hagkerfinu, minni hagvexti og minni verðbólgu en í síðustu spá. Hagstofan birtir verðbólgumælingu nóvembermánaðar á fimmtudaginn og þjóðhagsreikninga fyrir þriðja ársfjórðung á föstudaginn.