Vikan framundan
- Í dag birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi í október. Oculis og Reitir birta uppgjör.
- Á morgun birtir Ferðamálastofa brottfarir um Leifsstöð í október og Eimskip birtir uppgjör.
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn væntingakönnun markaðsaðila og Alvotech birtir uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Iceland Seafood uppgjör. Þá verða einnig birtar verðbólgutölur í Bandaríkjunum.
- Á föstudag birtir Amaroq uppgjör.
- Í vikunni fara fram mælingar vegna vísitölu neysluverðs í nóvember.
Mynd vikunnar
Verðbólguálag á skuldabréfamarkaði, sem almennt gefur vísbendingu um verðbólguvæntingar, jókst nokkuð í október. Vert er að benda á nokkra atburði sem virðast hafa hreyft við markaðnum í mánuðinum. Álagið lækkaði í kjölfar þess að dómur féll í vaxtamálinu í Hæstarétti þann 14. október, hugsanlega vegna væntinga um kólnun á fasteignamarkaði og jafnvel hækkandi greiðslubyrði. Þann 21. október tilkynnti Norðurál um umfangsmikla bilun sem veldur verulegri skerðingu á álframleiðslu. Fljótlega á eftir tók gengið að veikjast sem kann að hafa aukið á verðbólguvæntingar. Verðbólguálagið tók að aukast og jókst svo enn meira þegar Hagstofan birti vísitölu neysluverðs, sem reyndist hafa hækkað umfram væntingar. Síðan hefur álagið smám saman gefið eftir á ný. Peningastefnunefnd Seðlabankans kemur saman í næstu viku vegna vaxtaákvörðunar, en hún fylgist meðal annars grannt með vísbendingum um verðbólguvæntingar.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Seðlabanki Íslands tilkynnti að hann myndi hefja birtingu á föstum lánstímavöxtum alla viðskiptadaga fyrir kl. 11.
- Íslandsbanki gaf út að bankinn myndi hefja að veita verðtryggð lán á ný, með föstum vöxtum.
- Íslandsbanki lauk sölu á sértryggðum skuldabréfum ásamt skiptiútboði og lauk sölu á grænum skuldabréfum. Orkuveitan lauk sölu á grænum skuldabréfum. Lánamál ríkisins lauk sölu á ríkisbréfum.
- JBT Marel, Kvika banki og Sýn birtu uppgjör. Amaroq tilkynnti fyrstu greiningu á sjaldgæfum jarðmálmum í Suður-Grænlandi. Alvotech og Advanz Pharma fengu markaðsleyfi fyrir gobivaz í Bretlandi.
- Reykjavíkurborg birti fjárhagsáætlun fyrir 2026-2030.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).










