Raungengi enn í hæstu hæðum

Íslenska krónan styrktist á fyrri hluta ársins þrátt fyrir um 120 milljarða króna halla á viðskiptum við útlönd á fyrstu sex mánuðum ársins. Hallann má að verulegu leyti rekja til innflutnings á fjárfestingarvörum sem eru fjármagnaðar erlendis og höfðu því ekki gjaldeyrisflæði í för með sér. Fjárfestingunum fylgdi aftur á móti ýmiss konar innlendur kostnaður sem meðal annars var fjármagnaður erlendis með tilheyrandi gjaldeyrisinnflæði sem styrkti krónuna. Einnig hefur hjálpað að lífeyrissjóðunum áskotnaðist gjaldeyrir fyrr á árinu og hafa þeir því haft minni þörf fyrir gjaldeyriskaup en gengur og gerist.
Undir lok októbermánaðar tók krónan að veikjast þegar erlendir aðilar seldu ríkisbréf. Skerðing á álframleiðslu kann að hafa spilað inn í, að minnsta kosti væntingar um minnkandi þrýsting til styrkingar krónunnar og jafnvel væntingar um vaxtalækkun í nóvember. Krónan er um þessar mundir lítillega veikari gangvart evru en í byrjun árs, en enn þá sterkari gagnvart bandaríkjadal en í byrjun árs. Á móti gengisvísitölunni er krónan mjög svipuð og í byrjun árs.
Raungengið mjög hátt
Raungengið hefur hækkað verulega síðan það var lægst á meðan heimsfaraldurinn reið yfir. Raungengið mældist 102,1 í október (vísitala, meðaltal ársins 2005 = 100). Frá aldamótum hefur raungengið einungis þrisvar sinnum verið hærra en nú: í september 2005 og fram til febrúar 2006 (sex mánuðir), í júlí 2007 (einn mánuður) og í maí og júní 2017 (tveir mánuðir). Í öll þessi skipti kom tiltölulega snörp leiðrétting í kjölfarið.
Miðað við þá nafngengisveikingu sem átti sér stað í lok október og byrjun nóvember ætti raungengið að lækka um tæplega 3% á milli mánaða nú í nóvember. Til þess að raungengið kæmist nær sögulegu meðaltali þyrfti að koma til mun meiri veiking á krónunni og/eða hjöðnun verðbólgu.
Fluttum út vörur og þjónustu fyrir tæpa 2.000 milljarða króna í fyrra
Á síðasta ári voru fluttar út vörur og þjónusta fyrir 1.950 milljarða króna. Stóru útflutningsstoðirnar þrjár, ferðaþjónusta, sjávarafurðir og ál, stóðu undir 66% af útflutningsverðmætum síðasta árs og annar útflutningur nam 34%. Undir annan útflutning fellur meðal annars útflutningur á lyfjum og lækningavörum, eldisfiski, þjónustu gagnavera og fjármála- og viðskiptaþjónusta. Útflutningur ótengdur stóru útflutningsstoðunum þremur hefur staðið undir stærstum hluta útflutningsvaxtar síðustu misseri og áfram má helst binda vonir við vöxt í þessum nýrri útflutningsstoðum næstu árin.
Gjörbreyttar horfur í álframleiðslu
Í október var tilkynnt um bilun í álveri Norðuráls á Grundartanga og að bilunin hefði í för með sér meiri háttar skerðingu á álframleiðslu. Sá hluti álversins sem nú er óvirkur stóð undir um 4% af útflutningsverðmætum Íslands í fyrra. Áhrifin á landsframleiðslu í heild eru ekki alveg jafn umfangsmikil og ætla mætti í fyrstu vegna þess að á móti minnkandi útflutningi kemur minni innflutningur af súráli sem notað er til álframleiðslu. Áhrifin á landsframleiðslu gætu þó orðið umtalsverð: Á meðan álframleiðsla er skert vegna bilunarinnar má ætla að landsframleiðsla skerðist á bilinu 0,8-1,3%, og nú er áætlað að bilunin gæti varað í heilt ár. Áhrifin velta meðal annars á því hversu lengi bilunin varir, hversu víðtæk afleidd áhrif skerðingin hefur á fyrirtæki sem þjónustar álver og hvort Norðurál fækki stöðugildum upp að einhverju marki.
Velta í útflutningsgeiranum nokkurn veginn óbreytt á milli ára
Velta hefur staðið nokkurn veginn í stað að raunvirði síðasta árið, samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum, hvort sem horft er til fyrirtækja sem starfa að mestu innanlands eða þeirra sem eru fyrst og fremst útflutningsdrifin. Velta fyrirtækja í útflutningsgeirum dróst verulega saman í faraldrinum og náði sér svo fljótt á strik aftur. Fyrirtæki á innlendum markaði sigldu lygnari sjó. Hátt raungengi og áföll á borð við álframleiðsluskerðingu gætu dregið úr veltunni í útflutningsgeirunum á næstu misserum.
Ávöxtun skráðra félaga með tekjur í erlendri mynt verri en félaga með tekjur í krónum
Þótt þróun í veltu síðustu mánuði sé sambærileg á milli fyrirtækja sem starfa innanlands og fyrirtækja í útflutningi sést nokkuð skýr munur á gengi hlutabréfa fyrirtækja með tekjur í erlendri mynt og fyrirtækja sem starfa í innlenda hagkerfinu. Síðustu tólf mánuði hefur ávöxtun hlutabréfa fyrirtækja í kauphöllinni með tekjur í erlendri mynt, leiðrétt fyrir arðgreiðslum og vegið með markaðsvirði, verið neikvæð á meðan ávöxtun félaga sem starfa nær eingöngu í innlenda hagkerfinu hefur verið jákvæð. Á þessu tímabili hafa hlutabréf í tveimur af tíu félögum í kauphöllinni með tekjur í erlendri mynt borið jákvæða ávöxtun, á meðan hlutabréf þrettán af sextán félögum í innlenda hagkerfinu hafa sýnt jákvæða ávöxtun.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









