Verðbólga mældist 4,3% í október, aðeins yfir okkar spá um 4,2% verðbólgu. Reiknuð húsaleiga; tómstundir og menning; og matur og drykkjarvörur hækkuðu meira en við spáðum, en á móti hækkuðu flugfargjöld til útlanda mun minna en við spáðum. Við spáum því að vísitalan hækki um 0,13% á milli mánaða nú í nóvember og að ársverðbólga verði óbreytt í 4,3%. Flugfargjöld til útlanda verða til lækkunar á vísitölunni, en reiknuð húsaleiga og matarkarfan til hækkunar.
Matarkarfan hækkar minna en í september og október
Á fyrri helmingi ársins hækkaði matarkarfan nokkuð meira en almennt verðlag hér á landi, en í júlí og ágúst tók að draga verulega úr hækkunartaktinum. Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði svo nokkuð hressilega í september og í október, um 0,4% og 0,6%. Vörukarfa verðlagseftirlits ASÍ hefur hækkað um 0,18% á milli mánaða það sem af er nóvember og við spáum því að matur og drykkjarvara hækki um 0,2% á milli mánaða.
Spáum aðeins minni hækkunum á reiknaðri húsaleigu
Samkvæmt HMS hækkar leiguverð nú nokkuð hraðar en íbúðaverð, en bæði greidd húsaleiga og reiknuð húsaleiga í vísitölu neysluverðs er reiknað út frá leigusamningum. Greidd húsaleiga í VNV hækkar meira en vísitala leiguverðs, en greidd húsaleiga í VNV mælir meðalleiguverði á gildum samningum á meðan vísitala leiguverðs mælir verð á nýjum leigusamningum. Þessi munur bendir til þess að það sé að draga úr leiguhækkunum. Árshækkun reiknaðrar húsaleigu í VNV mælist svipuð og vísitala leiguverðs.
Í spánni gerum við ráð fyrir að reiknuð húsaleiga hækki um 0,5% á milli mánaða næstu mánuði. Við teljum að liðurinn „annað vegna húsnæðis“ hækki um 0,2% í nóvember og að alls verði áhrif húsnæðiskostnaðar 0,12 prósentustig til hækkunar á vísitölunni.
Áhrif af falli Play eiga eftir að koma inn
Það sem kom okkur mest á óvart í októbertölunum var að flugfargjöld til útlanda hækkuðu aðeins um 0,5%, en til samanburðar hækkuðu þau um 6,6% í október í fyrra. Samkvæmt mælingu Hagstofunnar var ódýrara að fljúga til útlanda í október í ár en í október í fyrra. Hagstofan mælir flugfargjöld til útlanda tvær, fjórar og átta vikur fram í tímann í verðkönnunarvikunni og tekur mælinguna inn í þeim mánuði sem flogið er, ekki í þeim mánuði sem verðkönnunin er framkvæmd. Áhrif af falli Play í lok september komu því ekki nema að litlu leyti inn í októbermælinguna, en koma fram í nóvember og desember. Við búumst við að flugfargjöld til útlanda lækki um 4,9% á milli mánaða í nóvember, sem er mun minni lækkun en í nóvember í fyrra og því verður aftur dýrara að fljúga til útlanda en í fyrra.
Samkvæmt verðkönnun okkar lækkaði bensín um 0,3% á milli mánaða núna í nóvember. Við spáum síðan 0,5% hækkun á nýjum bílum vegna veikingar á gengi krónunnar. Alls munu áhrif liðarins ferðir og flutningar vera -0,08% til lækkunar á vísitölunni.
Spá um þróun VNV í nóvember 2025
| Undirliður | Vægi í VNV | Breyting (spá) | Áhrif (spá) |
| Matur og drykkjarvara | 15,5% | 0,2% | 0,03% |
| Áfengi og tóbak | 2,5% | 0,0% | 0,00% |
| Föt og skór | 3,7% | 0,5% | 0,02% |
| Húsnæði án reiknaðrar húsaleigu | 9,5% | 0,2% | 0,02% |
| Reiknuð húsaleiga | 20,5% | 0,5% | 0,10% |
| Húsgögn og heimilisbúnaður | 4,8% | -0,1% | 0,00% |
| Heilsa | 4,1% | 0,3% | 0,01% |
| Ferðir og flutningar (annað) | 3,9% | 0,2% | 0,01% |
| - Kaup ökutækja | 6,2% | 0,5% | 0,03% |
| - Bensín og díselolía | 3,4% | -0,3% | -0,01% |
| - Flugfargjöld til útlanda | 2,0% | -4,9% | -0,11% |
| Póstur og sími | 1,6% | -0,2% | 0,00% |
| Tómstundir og menning | 10,9% | 0,1% | 0,01% |
| Menntun | 0,9% | 0,0% | 0,00% |
| Hótel og veitingastaðir | 5,4% | 0,3% | 0,01% |
| Aðrar vörur og þjónusta | 5,2% | 0,1% | 0,00% |
| Alls | 100,0% | 0,13% |
Spáum aukinni verðbólgu næstu mánuði
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,13% í nóvember og um 0,51% í desember, lækki um 0,12% í janúar og hækki um 0,77% í febrúar. Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 4,3% í nóvember, 4,5% í desember, 4,6% í janúar og 4,5% í febrúar. Spáin er aðeins hærri en síðasta spá, sem við birtum daginn sem Hagstofan birti verðbólgutölur í október. Breytingin skýrist aðallega af því að krónan veiktist nokkuð í lok október og byrjun nóvember.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.










