Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Spá­um stýri­vaxta­hækk­un um 1,0 pró­sentu­stig

Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækki vexti bankans um 1,0 prósentustig í næstu viku. Gangi spáin eftir fara meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, úr 7,5% upp í 8,5%.
17. maí 2023

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands kemur saman í næstu viku og ákvörðun nefndarinnar verður birt miðvikudaginn 24. maí. Við spáum því að stýrivextir verði hækkaðir um 1,0 prósentustig en teljum líklegt að nefndin ræði hækkun á bilinu 0,75 prósentustig til 1,25 prósentustig. Hækkun um 1,0 prósentustig myndi lyfta meginvöxtum upp í 8,5% en svo háir hafa þeir ekki verið síðan í bröttu vaxtalækkunarferli snemma árs 2010.

Verðbólga þrálát og óvænt

Við teljum víst að peningastefnunefnd líti síversnandi verðbólguhorfur alvarlegum augum. Verðbólgan hefur reynst þrálátari en búist var við og mæling Hagstofunnar á vísitölu neysluverðs ítrekað verið umfram væntingar. Ársverðbólgan mældist 9,9% í apríl og jókst um 0,1 prósentustig, þvert á okkar spá um að hún myndi hjaðna niður í 9,5%, enda var stór verðbólgumánuður að detta út úr vísitölunni, apríl 2022. Spáskekkjan skýrðist meðal annars af því að íbúðaverð á landsbyggðinni hækkaði og við það hækkaði reiknuð húsaleiga meira en við höfðum gert ráð fyrir. Þá höfðum við spáð því að bílar lækkuðu í verði, en þeir lækkuðu minna en við héldum.

Verðbólgan á fyrsta ársfjórðungi var heilt yfir umfram væntingar, í febrúar skaust hún úr 9,9% í 10,2% þegar við, og aðrir greiningaraðilar, höfðum spáð hjöðnun og í mars hjaðnaði hún svo lítillega en þó minna en við höfðum spáð, niður í 9,8% áður en hún hækkaði á ný.

Verðbólgan er ekki aðeins mikil og þrálát heldur hefur hún á síðustu mánuðum orðið almennari í þeim skilningi að sífellt fleiri undirliðir hafa hækkað verulega. Í fyrstu var hún mestmegnis drifin áfram af hækkandi húsnæðisverði en eftir því sem ró hefur færst yfir fasteignamarkaðinn hafa aðrir undirliðir neysluverðsvísitölunnar tekið við sér, ekki síst verð á þjónustu og innfluttum vörum.

Nýjasta verðbólguspá okkar gerir ráð fyrir því að hún hjaðni niður í 9,6% í maí og hjaðni svo áfram í júní og júlí, en hægar en áður var gert ráð fyrir.

Væntingar versna og þörf á skýrum skilaboðum

Væntingar um verðbólgu í framtíðinni eru á meðal þeirra þátta sem hafa áhrif á verðbólguþróunina, og því er mikilvægt að halda þeim í skefjum. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Seðlabankans á væntingum markaðsaðila fyrir annan ársfjórðung, sem birtar voru í morgun, hafa væntingar um verðbólgu versnað frá því í janúar og nú telja markaðsaðilar að jafnaði að verðbólga verði að meðaltali 9,4% á yfirstandandi fjórðungi. Þeir gera ráð fyrir því að verðbólga hjaðni áfram og verði 6,3% eftir eitt ár og 4,5% eftir tvö ár. Langtímaverðbólguvæntingar versnuðu einnig milli kannana; markaðsaðilar gera ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% á næstu fimm árum og 3,5% á næstu tíu árum. 

Ekki liggja fyrir ný gögn um verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja en þær versnuðu milli fjórðunga á fyrsta ársfjórðungi. Þróunin á skuldabréfamarkaði gefur einnig til kynna þó nokkra svartsýni; verðbólguálag á stystu bréfunum, þ.e. óverðtryggðu ríkisbréfi á gjalddaga 2025 og verðtryggðu á gjalddaga 2026, er nú rúmlega 6,5%, hærra en það var rétt fyrir síðustu vaxtaákvörðun og þarsíðustu.

Óhætt er að fullyrða að Seðlabankanum sé mikið í mun að ná niður verðbólguvæntingum, enda hafa þær mikið að segja. Launafólk sem býst við þrálátri verðbólgu er líklegra til að krefjast hærri launa og fyrirtæki sem býst við verðhækkunum er líklegra til að verðsetja vörur og þjónustu hátt fram í tímann, hvoru tveggja þættir sem ýta undir verðbólgu. Þegar verðbólga er þrálát er hætta á að fólk missi trú á að hún hjaðni og geri ráðstafanir í samræmi við verðþróun sem er langt yfir markmiði Seðlabankans.

Merki um víxlverkun launa og verðlags

Kröftug innlend eftirspurn styður spá okkar um frekari vaxtahækkanir. Ekki liggja fyrir gögn yfir einkaneyslu á fyrsta fjórðungi en aukning í kortaveltu Íslendinga á fjórðungnum bendir til þess að einkaneysla hafi aukist umfram okkar væntingar. Snarpar vaxtahækkanir virðast því hafa dugað skammt til þess að kæla innlenda eftirspurn, sem skýrist að líkindum mest af því hversu mjög laun hafa hækkað á síðustu misserum.

Laun hafa hækkað um 9,4% á síðustu 12 mánuðum, enda höfðu nýir kjarasamningar á nær öllum vinnumarkaðnum í för með sér ríflegar launahækkanir, auk þess sem spenna á vinnumarkaði, sem magnaðist hratt eftir því sem faraldurinn leið undir lok, hefur ýtt undir launaskrið. Verðbólga í kringum 10% étur upp launahækkanir og launafólk keppist því við að halda uppi launastiginu. Á sama tíma kynda launahækkanir undir kostnaðarhækkanir fyrirtækja ásamt því að auka innlenda eftirspurn sem hvoru tveggja ýta undir verðbólgu, og því er gjarnan talað um mikilvægi þess að koma í veg fyrir víxlverkun launa og verðlags.

Áframhaldandi óvissa á vinnumarkaði, vegna þess hversu stuttur gildistími nýrra kjarasamninga er, hefur einnig slæm áhrif á verðbólguvæntingar og ætti að auka líkur á að Seðlabankinn telji enn frekar þörf á að auka taumhald peningastefnunnar.

Nýjustu kortaveltutölur hugsanlega merki um kólnun

Kortaveltutölur yfir aprílmánuð, sem Seðlabankinn birti í gær, kunna þó að vera vísbending um að tekið sé að hægja á eftirspurn; heildarkortavelta íslenskra heimila dróst saman um 5% í apríl, sé hún borin saman við aprílmánuð í fyrra, að raunvirði. Það var í fyrsta sinn í rúm tvö ár sem heildarkortaveltan dróst saman milli ára. Kortavelta Íslendinga innanlands var 7,2% minni en í apríl í fyrra en erlendis jókst hún um 5% miðað við fast gengi og verðlag. Við teljum þó ólíklegt að peningastefnunefnd líti á þessa mælingu eina og sér og túlki sem svo innlend eftirspurn sé farin að dragast saman svo um muni.

Hagvaxtarhorfur bjartari en áður

Hagvöxtur verður 3,2% á Íslandi á þessu ári, samkvæmt þjóðhags- og verðbólguspánni sem við gáfum út í lok apríl. Við færðum hagvaxtarspána upp úr 2,1% spánni frá því í október, og fleiri greiningaraðilar en við sjá fram á kröftugri hagvöxt í ár en þeir gerðu áður ráð fyrir.

Við teljum að batnandi hagvaxtarhorfur auðveldi peningastefnunefnd ákvörðunina um stíga fast til jarðar; enn eru ekki merki um að frekari vaxtahækkanir valdi samdrætti í hagkerfinu í bráð og að því leyti enn svigrúm til vaxtahækkana.

Þá ber að nefna að þótt vaxtahækkanir hafi snöggkælt fasteignamarkaðinn í haust er enn talsvert líf á þeim markaði og vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur nú hækkað þrjá mánuði í röð. Vaxtastigið gerir róðurinn mun þyngri fyrir þau sem hafa breytilega vexti og einnig þau sem koma ný inn á fasteignamarkaðinn, en það virðist þó alls ekki hafa fryst markaðinn eða snarlækkað verð.

Framvirk leiðsögn nokkuð afdráttarlaus

„Peningastefnunefnd mun beita tækjum sínum til að tryggja betra jafnvægi í þjóðarbúskapnum og koma verðbólgu í markmið,“ segir í lok yfirlýsingar peningastefnunefndar eftir síðasta fund þann 22. mars 2023. Víst má telja að langt sé í að verðbólga komist í markmið og peningastefnunefnd ætti því að vera tilbúin að beita tækjum sínum líkt og yfirlýsingin ber með sér. Í Peningamálum, sem komu út í febrúar, birti Seðlabankinn spá um að verðbólgan á fyrsta fjórðungi ársins yrði 9,4%. Raunin varð 9,7% og Seðlabankinn því á sama máli og við um að verðbólgan hafi verið umfram væntingar. Samhliða vaxtaákvörðuninni á miðvikudaginn gefur Seðlabankinn út nýja verðbólguspá í Peningamálum, sem við búumst við að verði örlítið svartari en sú síðasta.

Skrefin hafa ekki orðið stærri en 1,0 prósentustig í yfirstandandi hækkunarferli, en við teljum þó ekki óhugsandi að nefndin ræði hækkun umfram það.

Vaxtaákvarðanir Peningastefnunefndar

Dags. Lagt til Atkvæði með Atkvæði móti Kosið annað Meginvextir
3. febrúar 2021 óbr. allir 0,75
24. mars 2021 óbr. allir 0,75
19. maí 2021 +0,25 allir GJ (+0,50) 1,00
25. ágúst 2021 +0,25 allir GJ,GZ (+0,50) 1,25
6. október 2021 +0,25 ÁJ, RS, KÓ GJ,GZ (+0,50) 1,50
17. nóvember 2021 +0,50 allir 2,00
9. febrúar 2022 +0,75 allir 2,75
4. maí 2022 +1,00 allir 3,75
22. júní 2022 +1,00 allir GZ (+1,25) 4,75
24. ágúst 2022 +0,75 allir GZ (+1,00) 5,50
5. október 2022 +0,25 allir 5,75
23. nóvember 2022 +0,25 allir GZ (+0,50) 6,00
8. feb. 2023 +0,50 allir HS(+0,75) 6,50
22. mars 2023
+1,00 allir   7,50
24. maí 2023        
23. ágú. 2023        
4. okt. 2023        
22. nóv. 2023        

Næsta vaxtaákvörðun er ekki fyrr en í ágúst, sem eykur enn fremur líkurnar á því að nefndin stígi stórt skref og hækki stýrivexti um 1,0 prósentustig, úr 7,5% í 8,5%.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Mynt 100 kr.
19. jan. 2026
Vikubyrjun 19. janúar 2026
Kortavelta heimila heldur áfram að aukast á milli ára en velta erlendra korta hér á landi hefur tekið að dragast saman í takt við fækkun ferðamanna. Í vikunni birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
15. jan. 2026
Spáum 5,1% verðbólgu í janúar
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,30% á milli mánaða í janúar. Gangi spáin eftir mun verðbólga aukast úr 4,5% í 5,1%. Janúarútsölur hafa mest áhrif til lækkunar í mánuðinum en breytingar á gjaldtöku ökutækja hafa mest áhrif til hækkunar, samkvæmt spánni. Mikil óvissa er þó um hvernig Hagstofan tekur breytingarnar inn í verðmælingar.
Smiður
13. jan. 2026
Atvinnuleysi eykst en kortavelta líka
Atvinnuástandið hefur versnað smám saman og eftirspurn eftir vinnuafli er minni en áður. Atvinnuleysi hefur aukist hratt og mældist 4,4% í desember, en svo mikið hefur atvinnuleysi ekki mælst í rúmlega þrjú og hálft ár. Þessi þróun styður við markmið Seðlabankans um að draga úr þenslu í hagkerfinu og vinna bug á verðbólgu. Á sama tíma heldur neysla landsmanna áfram að aukast með hverjum mánuðinum, en heildarkortavelta hefur aukist um 6% á fyrstu ellefu mánuðum síðasta árs frá sama tímabili árið áður.
Bílar
12. jan. 2026
Breytt gjaldtaka af bílum gæti aukið verðbólgu um 0,7 prósentustig
Breytingar á gjaldtöku hins opinbera af rekstri og kaupum ökutækja gætu aukið verðbólgu um 0,7 prósentustig. Óvíst er hvort áhrifin komi fram að öllu leyti í janúar eða dreifist yfir næstu mánuði, en telja má að það velti ekki síst á eftirspurn eftir bílum í byrjun árs.
Rafbíll í hleðslu
12. jan. 2026
Vikubyrjun 12. janúar 2026
Skráð atvinnuleysi hélt áfram að aukast í desember og var 0,6 prósentustigum meira en á sama tíma árið áður. Álíka margir erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í fyrra og síðustu tvö ár á undan en utanlandsferðir Íslendinga voru 18% fleiri í fyrra en árið á undan. Þó nokkur óvissa ríkir um verðbólgumælingu janúarmánaðar, ekki síst í tengslum við breytta gjaldtöku á innflutningi og rekstri bíla. Við gefum út verðbólguspá næsta fimmtudag.
5. jan. 2026
Mánaðamót 5. janúar 2026
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Vöruhótel
5. jan. 2026
Vikubyrjun 5. janúar 2026
Verðbólgan kom aftan að landsmönnum stuttu fyrir jól og fór úr 3,7% í 4,5%. Verðbólga í desember var aðeins 0,3 prósentustigum minni en í upphafi síðasta árs þegar hún mældist 4,8%. Á sama tímabili lækkuðu stýrivextir um 1,25 prósentustig, úr 8,50% í 7,25%.
Bananar
22. des. 2025
Verðbólgumælingin ekki jafnslæm og hún virðist í fyrstu
Verðbólga rauk upp í 4,5% í desember eftir að hafa hjaðnað verulega í nóvember og mælst 3,7%. Rífleg hækkun á flugfargjöldum til útlanda skýrir stóran hluta hækkunarinnar, en einnig töluverð gjaldskrárhækkun á hitaveitu í desember. Aukin verðbólga skýrist þannig af afmörkuðum, sveiflukenndum liðum og ekki er að greina merki um að undirliggjandi verðbólguþrýstingur hafi aukist að ráði.
Vélsmiðja Guðmundar
22. des. 2025
Vikubyrjun 22. desember 2025
Fasteignamarkaðurinn fer enn kólnandi, ef marka má skýrslu sem HMS gaf út í síðustu viku. Gistinóttum á hótelum fækkaði um 6,6% á milli ára í nóvember. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst um 1,9% á milli ára á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt Hagstofunni. Í dag birtir Hagstofan verðbólgutölur.
Flugvél
15. des. 2025
Vikubyrjun 15. desember 2025
Færri erlendir ferðamenn heimsóttu Ísland í nóvember í ár en í nóvember í fyrra en utanlandsferðum Íslendinga hélt áfram að fjölga. Skráð atvinnuleysi hefur aukist þó nokkuð á síðustu mánuðum og var 4,3% í nóvember.