Vikubyrjun 9. janúar 2023

Markaðsaðilar eru bjartsýnni og gera ráð fyrir 3,6% meðalverðbólgu næstu fimm ár, en búast líka við nokkuð svipaðri stöðu næstu tíu árin. Væntingar fyrirtækja eru upp á 4% verðbólgu til fimm ára. Það er enginn sem gerir ráð fyrir því að meðalverðbólga til næstu 5 ára verði í samræmi við verðbólgumarkmið sem er 2,5%.
Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Vinnumálastofnun tölur yfir skráð atvinnuleysi í desember.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna janúarmælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana mánudaginn 30. janúar.
Mynd vikunnar
Verðbólguvæntingar til langs tíma stóðu nokkurn veginn í stað milli þriðja og fjórða ársfjórðungs síðasta árs eftir að hafa hækkað hratt frá miðju ári 2021, þegar verðbólgan komst á flug. Heimilin gera almennt ráð fyrir að meðaltal verðbólgunnar á næstu fimm árum verði 5%. Markaðsaðilar eru bjartsýnni og gera ráð fyrir 3,6% meðalverðbólgu næstu fimm ár, en búast líka við nokkuð svipaðri stöðu næstu tíu árin. Væntingar fyrirtækja eru upp á 4% verðbólgu til fimm ára. Það er enginn sem gerir ráð fyrir því að meðalverðbólga til næstu 5 ára verði í samræmi við verðbólgumarkmið sem er 2,5%.
Verðbólguvæntingar hafa mikið að segja. Fólk semur um laun fram í tímann og fyrirtæki verðleggja vörur fram í tímann. Vænt verðlag hefur áhrif á þessar ákvarðanir og þar með á verðbólguna. Væntingarnar hafa þar af leiðandi áhrif á viðbrögð Seðlabankans við aukinni verðbólgu. Ef hætta er á að kjölfesta verðbólguvæntinga við verðbólgumarkmið hafi veikst og þær þannig líklegri til að aukast, stígur Seðlabankinn fastar til jarðar til þess að halda væntingum í skefjum.
Helsta frá vikunni sem leið
- Hagstofan birti tölur um vöruviðskipti í desember 2022. Þau voru óhagstæð um 12,8 ma.kr. í desember. Til samanburðar voru þau óhagstæð um 18 ma.kr. í desember árið áður, á gengi hvors árs fyrir sig. Vöruskiptajöfnuður árið 2022 var óhagstæður um 323 ma.kr. sem er 91,1 ma.kr. óhagstæðari jöfnuður en á árinu 2021.
- Í nýrri Hagsjá fjallaði Hagfræðideildin um fjárlög ársins 2023 sem voru samþykkt rétt fyrir jól. Niðurstaðan er um 120 ma.kr. halli. Í síðustu fjárlögum sem voru samþykkt í óvissu faraldursins, var hallinn ráðgerður 186 ma.kr., en gert er ráð fyrir að hann hafi verið í kringum 142 ma.kr.
- Við fjölluðum einnig um erfitt ár að baki á hlutabréfamarkaði. Íslenski markaðurinn lækkaði um 16,8% á síðasta ári sem er mesta lækkun síðan í hruninu. Síðasta ár var erfitt á hlutabréfamörkuðum og flestir þeirra lækkuðu yfir árið. Mikil verðbólga, hækkandi vextir og dekkri efnahagshorfur í heimshagkerfinu hafa dregið úr væntingum fjárfesta.
- Þá gáfum við út Hagsjá um þróun kaupmáttar, launa og ráðstöfunartekna. Kaupmáttur launa jókst um 0,2% milli mánaða í nóvember. Á síðustu sjö mánuðum lækkaði kaupmáttur milli mánaða alla mánuði nema í september og nóvember. Á þessu sjö mánaða tímabili lækkaði kaupmáttur launa um 2,5%. Launavísitalan hækkaði um 0,4% í nóvember. Hafa ber í huga að nýumsamdar launahækkanir stórs hluta aðildarfélaga ASÍ gilda afturvirkt frá og með nóvembermánuði og að þær hækkanir eru ekki komnar inn í vísitöluna.
- Á skuldabréfamarkaði héldu Lánamál ríkisins útboð á ríkisskuldabréfum, Arion banki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum og Reitir stækkaði skuldabréfaflokkinn REITIR140337.
- Á hlutabréfamarkaði tilkynnti Festi um framkvæmd endurkaupaáætlunar.
Hagtölur og markaðsupplýsingar









