Íslenski markaðurinn lækkaði um 16,8% á síðasta ári sem er mesta lækkun síðan í hruninu. Síðasta ár var erfitt á hlutabréfamörkuðum en flestir þeirra lækkuðu yfir árið. Mikil verðbólga, hækkandi vextir og dekkri efnahagshorfur í heimshagkerfinu hafa dregið úr væntingum fjárfesta.
Mesta lækkun á vísitölunni hér á landi síðan í hruninu
Vísitala Aðallista Kauphallarinnar lækkaði um 2,6% í desember og kom sú lækkun í kjölfar 0,4% lækkunar í nóvember. Vísitalan lækkaði um 16,8% á síðasta ári og var það versta ávöxtun hennar síðan á árinu 2008, en þá lækkaði vísitalan um 90% enda urðu hlutabréf viðskiptabankanna þriggja, sem voru fyrir hrunið langstærstu félögin að markaðsvirði, verðlaus vegna gjaldþrots þeirra. Sé litið til síðasta árs hækkaði vísitalan einungis yfir 3 mánuði og lækkaði hina 9 mánuðina. Mesta lækkunin var í maí þegar vísitalan lækkaði um tæp 10% en þar á eftir kom lækkunin í september sem var 8,3%. Mesta hækkunin var í júlí eða 7% en næstmest í október eða 5,2%. Verðþróunin hér á landi stýrðist að miklu leyti af verðþróuninni erlendis; markaðurinn hér á landi hækkaði þegar verðhækkanir urðu erlendis, og að sama skapi lækkaði hann hér þegar hann gerði það úti. Viðbúið er að verðþróunin hér á landi verði áfram fyrir miklum áhrifum af verðþróun á öðrum hlutabréfamörkuðum á þessu ári.
Alvotech kom inn á Aðallistann í desember með hvelli
Alvotech kom nýtt inn á Aðallistann í desember og gerði það með miklum hvelli en félagið hækkaði um 68% í mánuðinum, sem var langmesta hækkunin hjá félögunum á Aðallistanum, sem nú eru orðin 23 talsins. Næstmest hækkaði Origo, um 15,8%, en þar á eftir kom Nova Klúbburinn með 9,1% hækkun. Alls hækkuðu 5 félög á Aðallistanum í desember en mikill meirihluti þeirra lækkaði í verði, alls 16 fyrirtæki. Verð á tveimur félögum stóð í stað, fjarskiptafélögunum Símanum og Sýn. Bréf Marels lækkuðu mest í desember, um 10,9%. Bréf Iceland Seafood lækkuðu næstmest, um 9,7%, og þar á eftir bréf Icelandair Group, um 8,4%.
Iceland Seafood lækkaði mest yfir árið
Af þeim 20 félögum á Aðallistanum sem komu ekki ný inn á markaðinn á árinu var besta ávöxtunin hjá Origo yfir árið í heild. Félagið hækkaði um 37,5%. Þar á eftir komu útgerðarfyrirtækin á Aðallistanum: Síldarvinnslan og Brim. Síldarvinnslan hækkaði um 19,8% og Brim um 16%. Meirihluti fyrirtækjanna, 14 af 20, lækkaði þó yfir árið. Mest lækkaði Iceland Seafood, um 59,1%, en þar á eftir kom Marel með 43,9% lækkun. Þriðja mesta lækkunin var í Kviku banka, 29,1%.
Ekki meiri lækkun á bandaríska hlutabréfamarkaðnum síðan í alþjóðlegu fjármálakreppunni
Langflestir hlutabréfamarkaðir erlendis lækkuðu á árinu en jafn almennar lækkanir hafa ekki sést síðan 2018. Þar áður þurfti að fara aftur til ársins 2011 til að finna viðlíka lækkanir. Bandaríski markaðurinn lækkaði um 19,4% á árinu og var það mesta lækkun hans síðan í Alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008/2009 og á þetta við um fleiri markaði, til dæmis þann íslenska, hollenska, sænska og svissneska. Mestu lækkanir í fyrra voru á mörkuðum eins og þeim rússneska (-39,2%), þýska (-25,6%) og sænska (-24,6%). Hlutabréfamarkaðir á evrusvæðinu lækkuðu um 14,4% og um 20,5% í löndum Evrópusambandsins.