Kaupmáttur jókst lítillega milli mánaða
Kaupmáttur launa jókst um 0,2% milli mánaða í nóvember. Á síðustu sjö mánuðum lækkaði kaupmáttur milli mánaða alla mánuði nema í september og nóvember. Á þessu sjö mánaða tímabili lækkaði kaupmáttur launa um 2,5%. Launavísitalan hækkaði um 0,4% í nóvember, og hafa ber í huga að nýumsamdar launahækkanir stórs hluta aðildarfélaga ASÍ gilda afturvirkt frá og með nóvembermánuði, og þær hækkanir eru ekki komnar inn í vísitöluna. Launavísitalan hækkaði örlítið meira í nóvember en í október (þá um 0,3%) og á síðustu 12 mánuðum hefur hún hækkað um 8%.
Kaupmáttur jókst vegna þess að launavísitalan hækkaði hlutfallslega meira en vísitala neysluverðs, sem hækkaði um 0,29% í nóvember. Vísitala neysluverðs hækkaði svo þó nokkuð meira milli mánaða í desember, um 0,66%.
Milli nóvembermánaða þessa árs og þess síðasta dróst kaupmáttur saman um 1,1%. 12 mánaða breyting á kaupmætti hefur verið neikvæð frá því í júní á síðasta ári, eftir að hafa aukist samfellt í 12 ár þar á undan.
Ráðstöfunartekjur jukust um 2,9% milli ára
Hagstofan gerir ráð fyrir að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,2 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, u.þ.b. 400 þúsund krónum á mánuði, og hafi aukist um 2,9% frá sama tímabili í fyrra. Þjóðhagsreikningar Hagstofunnar reikna ráðstöfunartekjur heimilageirans með því að leggja saman launatekjur, eignatekjur, tilfærslutekjur, auk rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, og draga frá öll eigna- og tilfærsluútgjöld svo sem tekjuskatt og fasteignagjöld.
Hagstofan áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um 6,1% milli þriðja ársfjórðungs þessa árs og sama fjórðungs síðasta árs sem er mesti samdráttur síðan á fjórða ársfjórðungi ársins 2010. Vísitala neysluverðs hækkaði um 9,7% á sama tímabili. Kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst einnig saman á öðrum ársfjórðungi, um 2,7% milli ára, en hafði þar á undan aukist samfellt frá og með fyrsta ársfjórðungi 2021.
Ráðstöfunartekjur og launavísitala breytast með mjög svipuðum hætti yfir lengri tíma, en meiri sveiflur eru í þróun ráðstöfunartekna enda fleiri stærðir sem hafa áhrif á hana, svo sem vinnutími, atvinnuþátttaka og skattbreytingar. Launavísitalan mælir þróun reglulegra mánaðarlauna. Hún er stöðugri og lækkar yfirleitt ekki, að minnsta kosti mjög lítið.
Mestar hækkanir hjá sveitarfélögum
Laun hafa hækkað mun meira á opinbera markaðnum en þeim almenna á síðustu fjórum árum; á tímabilinu frá mars 2019, mánuði áður en kjarasamningar tóku gildi, til september 2022 hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 26,5%, laun á opinberum markaði um 31,6%, um 27,5% meðal ríkisstarfsmanna og 36,7% meðal starfmanna sveitarfélaga. Umframhækkunin á opinbera markaðnum skýrist því öll af launahækkunum þeirra sem starfa hjá sveitarfélögum.
Þessi munur er ekki furða í ljósi þess að í lífskjarasamningunum árið 2019 var samið um krónutöluhækkanir í stað hlutfallshækkana, og því hækkuðu þau laun mest sem voru lægst fyrir. Þar að auki hefur vinnutími styst meira á opinberum markaði en þeim almenna og hluti styttingar er metinn til launabreytinga.
Laun verkafólks og þjónustu- og afgreiðslufólks hafa hækkað langmest
Lífskjarasamningurinn fól þannig einnig í sér mjög mismiklar launahækkanir eftir starfstéttum. Sé litið til sama tímabils og hér að ofan, frá marsmánuði 2019 til septembermánaðar 2022, má sjá að laun hafa hækkað um u.þ.b. 35% meðal verkafólks og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks en laun stjórnenda hafa hækkað um u.þ.b. 19% og laun sérfræðinga um 21%.
Og svipaða sögu er að segja um launabreytingar í ólíkum atvinnugreinum. Laun hafa hækkað langmest á veitinga- og gististöðum, um 39% á tímabilinu frá mars 2019 til septembermánaðar í fyrra. Næstmestar eru launahækkanir í verslunum og viðgerðum, um 29%. Veitustarfsemi, framleiðsla, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og greinar tengdar flutningum og geymslu fylgja þar fast á eftir með launahækkanir á bilinu 24-29%. Laun þeirra sem starfa við fjármála- og vátryggingarstarfsemi hafa hækkað langminnst, um 19% að meðaltali.
Gera má ráð fyrir að þessi mikli munur skýrist ekki bara af muninum á síðustu kjarasamningsbundnum launahækkunum, sem voru minni í hátekjugreinum, heldur einnig launaskriði; starfsfólki í fjármálageiranum hefur fækkað stöðugt á síðustu árum á meðan fyrirtæki í verslun og þjónustu hafa þurft að keppa um starfsfólk, sem skapar þrýsting á laun.