Kaup­mátt­ur jókst lít­il­lega milli mán­aða

Launavísitalan hækkaði um 0,4% milli mánaða í nóvember og kaupmáttur jókst um 0,2%. Ráðstöfunartekjur jukust um 2,9% milli þriðja ársfjóðungs ársins 2022 og sama ársfjórðungs árið áður en vegna verðbólgu dróst kaupmáttur ráðstöfunartekna saman um 6,1% á sama tíma sem er mesta lækkun síðan í lok árs 2010.
4. janúar 2023

Kaupmáttur launa jókst um 0,2% milli mánaða í nóvember. Á síðustu sjö mánuðum lækkaði kaupmáttur milli mánaða alla mánuði nema í september og nóvember. Á þessu sjö mánaða tímabili lækkaði kaupmáttur launa um 2,5%. Launavísitalan hækkaði um 0,4% í nóvember, og hafa ber í huga að nýumsamdar launahækkanir stórs hluta aðildarfélaga ASÍ gilda afturvirkt frá og með nóvembermánuði, og þær hækkanir eru ekki komnar inn í vísitöluna. Launavísitalan hækkaði örlítið meira í nóvember en í október (þá um 0,3%) og á síðustu 12 mánuðum hefur hún hækkað um 8%.

Kaupmáttur jókst vegna þess að launavísitalan hækkaði hlutfallslega meira en vísitala neysluverðs, sem hækkaði um 0,29% í nóvember. Vísitala neysluverðs hækkaði svo þó nokkuð meira milli mánaða í desember, um 0,66%.

Milli nóvembermánaða þessa árs og þess síðasta dróst kaupmáttur saman um 1,1%. 12 mánaða breyting á kaupmætti hefur verið neikvæð frá því í júní á síðasta ári, eftir að hafa aukist samfellt í 12 ár þar á undan.

Ráðstöfunartekjur jukust um 2,9% milli ára

Hagstofan gerir ráð fyrir að ráðstöfunartekjur á mann hafi numið rúmlega 1,2 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, u.þ.b. 400 þúsund krónum á mánuði, og hafi aukist um 2,9% frá sama tímabili í fyrra. Þjóðhagsreikningar Hagstofunnar reikna ráðstöfunartekjur heimilageirans með því að leggja saman launatekjur, eignatekjur, tilfærslutekjur, auk rekstrarafgangs vegna eigin eignarhalds, og draga frá öll eigna- og tilfærsluútgjöld svo sem tekjuskatt og fasteignagjöld.

Hagstofan áætlar að kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann hafi dregist saman um 6,1% milli þriðja ársfjórðungs þessa árs og sama fjórðungs síðasta árs sem er mesti samdráttur síðan á fjórða ársfjórðungi ársins 2010. Vísitala neysluverðs hækkaði um 9,7% á sama tímabili. Kaupmáttur ráðstöfunartekna dróst einnig saman á öðrum ársfjórðungi, um 2,7% milli ára, en hafði þar á undan aukist samfellt frá og með fyrsta ársfjórðungi 2021.

Ráðstöfunartekjur og launavísitala breytast með mjög svipuðum hætti yfir lengri tíma, en meiri sveiflur eru í þróun ráðstöfunartekna enda fleiri stærðir sem hafa áhrif á hana, svo sem vinnutími, atvinnuþátttaka og skattbreytingar. Launavísitalan mælir þróun reglulegra mánaðarlauna. Hún er stöðugri og lækkar yfirleitt ekki, að minnsta kosti mjög lítið.

Mestar hækkanir hjá sveitarfélögum

Laun hafa hækkað mun meira á opinbera markaðnum en þeim almenna á síðustu fjórum árum; á tímabilinu frá mars 2019, mánuði áður en kjarasamningar tóku gildi, til september 2022 hafa laun á almennum vinnumarkaði hækkað um 26,5%, laun á opinberum markaði um 31,6%, um 27,5% meðal ríkisstarfsmanna og 36,7% meðal starfmanna sveitarfélaga. Umframhækkunin á opinbera markaðnum skýrist því öll af launahækkunum þeirra sem starfa hjá sveitarfélögum.

Þessi munur er ekki furða í ljósi þess að í lífskjarasamningunum árið 2019 var samið um krónutöluhækkanir í stað hlutfallshækkana, og því hækkuðu þau laun mest sem voru lægst fyrir. Þar að auki hefur vinnutími styst meira á opinberum markaði en þeim almenna og hluti styttingar er metinn til launabreytinga.

Laun verkafólks og þjónustu- og afgreiðslufólks hafa hækkað langmest

Lífskjarasamningurinn fól þannig einnig í sér mjög mismiklar launahækkanir eftir starfstéttum. Sé litið til sama tímabils og hér að ofan, frá marsmánuði 2019 til septembermánaðar 2022, má sjá að laun hafa hækkað um u.þ.b. 35% meðal verkafólks og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks en laun stjórnenda hafa hækkað um u.þ.b. 19% og laun sérfræðinga um 21%.

Og svipaða sögu er að segja um launabreytingar í ólíkum atvinnugreinum. Laun hafa hækkað langmest á veitinga- og gististöðum, um 39% á tímabilinu frá mars 2019 til septembermánaðar í fyrra. Næstmestar eru launahækkanir í verslunum og viðgerðum, um 29%. Veitustarfsemi, framleiðsla, byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð og greinar tengdar flutningum og geymslu fylgja þar fast á eftir með launahækkanir á bilinu 24-29%. Laun þeirra sem starfa við fjármála- og vátryggingarstarfsemi hafa hækkað langminnst, um 19% að meðaltali.

Gera má ráð fyrir að þessi mikli munur skýrist ekki bara af muninum á síðustu kjarasamningsbundnum launahækkunum, sem voru minni í hátekjugreinum, heldur einnig launaskriði; starfsfólki í fjármálageiranum hefur fækkað stöðugt á síðustu árum á meðan fyrirtæki í verslun og þjónustu hafa þurft að keppa um starfsfólk, sem skapar þrýsting á laun.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
9. sept. 2024
Vikubyrjun 9. september 2024
Í þessari viku ber hæst útgáfa á tölum um fjölda ferðamanna í ágúst og skráð atvinnuleysi á morgun. Í síðustu viku birtist fundargerð peningastefnunefndar þar sem fram kom að allir nefndarmenn voru sammála um að halda vöxtum óbreyttum á síðasta fundi, ólíkt því sem var síðustu þrjá fundi þar áður þar sem einn nefndarmaður vildi lækka vexti um 0,25 prósentustig.
6. sept. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Lyftari í vöruhúsi
5. sept. 2024
Halli á viðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi
Halli mældist á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs, ólíkt öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar lítils háttar afgangur mældist. Það var afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum, en halli á vöruskiptum og rekstrarframlögum. Hrein staða þjóðarbúsins versnaði lítillega á fjórðungnum.
3. sept. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 3. september 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Íslenskir peningaseðlar
2. sept. 2024
Vikubyrjun 2. september 2024
Verðbólga lækkaði óvænt á milli mánaða í ágúst. Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, en á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur í fyrra var meiri en áður var talið og einnig að samdráttur var minni á fyrsta ársfjórðungi. Í þessari viku birtir Seðlabankinn gögn um greiðslujöfnuð við útlönd og fundargerð peningastefnunefndar.
Bílar
30. ágúst 2024
Samdráttur annan ársfjórðunginn í röð
Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur var meiri í fyrra en áður var talið og samdráttur einnig minni á fyrsta ársfjórðungi. Umsvif í hagkerfinu eru því meiri en áður var talið þótt landsframleiðsla dragist saman.
Paprika
29. ágúst 2024
Verðbólga undir væntingum - lækkar í 6,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í ágúst, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Ísland. Ársverðbólga lækkar því úr 6,3% í 6,0%, um 0,3 prósentustig. Vísitalan hækkaði nokkuð minna en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum óbreyttri verðbólgu. Það sem kom okkur mest á óvart var lækkun á menntunarliðnum, sem skýrist af niðurfellingu á skólagjöldum einstaka háskóla. Verð á matarkörfunni lækkaði í fyrsta skiptið í þrjú ár. 
Flutningaskip
27. ágúst 2024
Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum þrjá ársfjórðunga í röð
Afgangur af þjónustuviðskiptum náði ekki að vega upp halla af vöruviðskiptum á öðrum ársfjórðungi, ólíkt því sem var fyrir ári síðan. Bæði var meiri halli af vöruviðskiptum og minni afgangur af þjónustuviðskiptum en á öðrum fjórðungi síðasta árs.
Hús í Reykjavík
26. ágúst 2024
Vikubyrjun 26. ágúst 2024
Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum í síðustu viku, eins og búist var við. Nokkur kraftur er í fasteignamarkaðnum og vísitala íbúðaverðs og vísitala leiguverðs hækkuðu báðar þó nokkuð í júlí. Í þessari viku fáum við verðbólgutölur fyrir ágústmánuð og þjóðhagsreikninga annars ársfjórðungs. 
Rafbíll í hleðslu
20. ágúst 2024
Ný aðferð hefur skilað lægri verðbólgumælingum
Hagstofan hefur frá því í júní notað nýja aðferð við að mæla kostnað við búsetu í eigin húsnæði. Hefði Hagstofan ekki breytt um aðferð væri verðbólgumælingin nú líklega hærri. Um næstu áramót áforma stjórnvöld að breyta innheimtu gjalda á ökutæki sem mun að líkindum einnig hafa áhrif til lækkunar á mældri verðbólgu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur