Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og fundargerð peningastefnunefndar.
- Á föstudag birtir Vinnumálastofnun tölur um skráð atvinnuleysi í nóvember.
- Í vikunni fara fram verðmælingar vegna desembermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana fimmtudaginn 22. desember.
Mynd vikunnar
Verðbólga mældist 9,3% í nóvember og hefur lækkað um 0,6 prósentustig síðan hún mældist hæst 9,9% í júlí. Til samanburðar var verðbólgan 5,1% um síðustu áramót. Frá áramótum og þar til í júlí jókst framlag allra fimm meginundirliða til 12 mánaða verðbólgu. Síðan í júlí hefur framlag bensíns, húsnæðis og þjónustu svo minnkað. Það veldur áhyggjum að framlag innfluttra vara (án bensíns) og innlendra vara heldur áfram að hækka. Það skýrist að miklu leyti af veikingu krónunnar á seinni hluta ársins.
Það helsta frá vikunni sem leið
Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands mældist 7,3% hagvöxtur á 3. ársfjórðungi. Þetta er sjötti fjórðungurinn í röð með mjög kröftugum hagvexti. Samsetning vaxtarins var mjög svipuð því sem verið hefur og var hann fyrst og fremst keyrður áfram af ferðaþjónustu. Vöxturinn var kröftugri en við bjuggumst við og hagvöxturinn á fjórða fjórðungi þarf að vera umtalsvert minni en á fyrstu þremur til þess að spá okkar frá því í október um 6,5% hagvöxt yfir árið í heild gangi eftir.
Verðbólgan mældist 9,3% í nóvember, mjög nálægt því sem við áttum von á. Flestir undirliðir hreyfðust svipað og við áttum von á. Það var þó tvennt sem kom á óvart: Matur og drykkjarvörur hækkuðu meira en við áttum von á og húsgögn og heimilisbúnaður lækkuðu óvænt. Við eigum von á að verðbólgan hækki tímabundið upp í 9,5% í desember en lækki svo niður í 8,8% í janúar og fari niður í 8,4% í febrúar.
Afgangur af viðskiptum við útlönd mældist 23,1 ma.kr. á 3. ársfjórðungi. Mikill afgangur af þjónustuviðskiptum, keyrður áfram af ferðaþjónustu, dugði til að vega upp á móti halla á vöruskiptum, þáttatekjum og rekstrarframlögum á fjórðungnum. Fyrstu níu mánuði ársins mældist þó 64,5 ma.kr. halli. Það er næstum útilokað að nægur afgangur mælist á 4. ársfjórðungi til þess að vega upp á móti þessum uppsafnaða halla og því stefnir í halla á viðskiptum við útlönd yfir árið í heild.
Lánamál ríkisins luku útboði ríkisvíxla og skiptiútboði ríkisbréfa, Síminn og Alma íbúðafélag héldu útboð á víxlum, Arion banki seldi víkjandi skuldabréf sem teljast til eiginfjárþáttar 2 og Eik fasteignafélag hélt skuldabréfaútboð.