Minnkandi spenna á vinnumarkaði og minni fólksfjölgun

Greina má augljós merki þess að slaknað hafi á spennu á vinnumarkaði. Í september birti Seðlabankinn ársfjórðungslega niðurstöður úr Gallupkönnun á meðal stjórnenda 400 stærstu fyrirtækjanna. Nú á þriðja ársfjórðungi þessa árs töldu einungis stjórnendur 20% fyrirtækja vera skort á starfsfólki. Hlutfallið hefur lækkað hratt á síðustu árum og það má túlka sem greinilegt merki um minnkandi spennu á vinnumarkaði. Eftir faraldurinn töldu rúmlega 50% stjórnenda stærstu fyrirtækjanna vera skort á starfsfólki. Einnig hefur stjórnendum fækkað sem telja sig þurfa að fjölga starfsfólki á næstunni, en aðeins 19% stjórnenda töldu þörf á því nú á þriðja ársfjórðungi.
Spáum minnkandi launahækkunum
Á síðustu mánuðum hefur dregið úr hækkunartakti launa eftir ríflegar launahækkanir síðustu ár. Nú liggja fyrir kjarasamningar á stærstum hluta vinnumarkaðar til næstu ára, sem dregur töluvert úr óvissunni hvað varðar launaþróun. Launavísitalan hækkaði um 9,8% árið 2023 og um 6,6% á síðasta ári. Vísitalan hefur hækkað meira það sem af er þessu ári og í september var tólf mánaða hækkun hennar 7,8%. Í janúar og apríl síðastliðnum hækkaði vísitalan ríflega, en þá komu inn árlegar áfangahækkanir sem samið var um í síðustu kjaraviðræðum.
Í nýrri hagspá sem nær til ársins 2028 gerum við ráð fyrir hóflegri launahækkunum næstu árin. Launavísitalan hefur að meðaltali hækkað um rúm 7% á hverju ári frá aldamótum. Við gerum ráð fyrir 7,8% hækkun í ár, 6,2% á næsta ári, 5,5% árið 2027 og 5,4% árið 2028.
Launaþróunin er fyrirsjáanlegri en oft áður vegna þess að kjarasamningar liggja nú fyrir á langstærstum hluta vinnumarkaðar til næstu ára. Þá snýr óvissan fyrst og fremst að launaskriði. Vegna minnkandi eftirspurnar eftir vinnuafli á vinnumarkaði og smám saman aukins atvinnuleysis, má gera ráð fyrir hægara launaskriði. Þá eru einnig líkur á að launaþrýstingur minnki ef það tekst að halda verðbólgu í skefjum.
Síaukinn kaupmáttur hefur viðhaldið neyslu landsmanna síðustu mánuði. Í hagspánni gerum við ráð fyrir að kaupmáttur launa aukist áfram út spátímabilið, en hægar en á síðustu árum. Sé miðað við verðbólguspá okkar má gera ráð fyrir að kaupmáttur aukist um 3,5% á þessu ári, 2,2% á næsta ári, 1,8% árið 2027 og 2,0% árið 2028.
Áframhaldandi innistæða fyrir neyslu
Kortavelta hefur aukist af krafti síðustu misseri og Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir, en á sama tíma eykst sparnaður heimila að raunvirði og vanskil einstaklinga og fyrirtækja eru í sögulegu lágmarki.
Þjóðhagsreikningar fyrir fyrstu tvo ársfjórðunga þessa árs bera þess merki að einkaneysla hafi haldið áfram að aukast. Á fyrri hluta ársins hefur einkaneysla aukist um 3,0% frá sama tímabili í fyrra og við gerum ráð fyrir að hún haldi áfram að aukast með svipuðum hraða á síðari hluta ársins. Við spáum því að einkaneysla aukist um 3,0% á þessu ári, 2,3% á næsta ári, 2,1% árið 2027 og 2,6% árið 2028.
Spáum auknu atvinnuleysi og minni fólksfjölgun
Þrátt fyrir merki um minni eftirspurn eftir vinnuafli hefur atvinnuleysi aukist mjög hægt á síðustu mánuðum. Síðustu ár hefur hreyfanleiki vinnuafls dregið úr sveiflum í atvinnuleysi og á síðustu mánuðum hefur rólegri taktur í atvinnulífinu frekar endurspeglast í hægari fólksfjölgun en í auknu atvinnuleysi. Þess má geta að hægari fólksfjölgun hefur ekki einungis áhrif á vinnumarkað heldur getur hún haft margvísleg áhrif á hagtölur.
Á spátímabilinu gerum við ráð fyrir að slaki í atvinnulífinu komi skýrar fram í atvinnuleysistölum og aukist lítillega út spátímabilið. Við spáum því að atvinnuleysi mælist 3,8% í ár, 4,1% á næsta ári og 4,2% á árunum 2027 og 2028. Þróunin á vinnumarkaði veltur þó einnig á því hvort slaki í atvinnulífinu komi fram í veikara gengi eða hvort krónan haldist sterk og stöðug, en þá má ætla að vinnumarkaðurinn taki á sig sveiflur af meiri þunga en ella.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









