Ferðaþjónustan áfram megindrifkraftur kröftugs hagvaxtar
Samsetning vaxtarins var mjög svipuð því sem verið hefur en vöxturinn var þó ögn kröftugri en við bjuggumst við. Hagvöxturinn á fjórða fjórðungi þarf að vera umtalsvert minni en á fyrstu þremur fjórðungum til þess að spá okkar frá því í október um 6,5% hagvöxt yfir árið í heild gangi eftir. Vöxtur útflutnings var áfram kröftugur en framlag hans til hagvaxtar var jákvætt um 10,1 prósentustig. Vöxtur einkaneyslu reyndist mjög mikill eða 7,2% en það er þó nokkuð minni vöxtur en verið hefur á síðustu fjórðungum. Áhrif einkaneyslu á hagvöxt voru þó minni en ætla mætti við fyrstu sýn vegna þess að nánast allur hluti aukinnar neyslu milli ára fór fram erlendis vegna ferðalaga Íslendinga og kemur því til frádráttar í landsframleiðslu.
Kröftugur vöxtur útflutnings borinn af mikilli fjölgun erlendra ferðamanna
Vöxtur útflutnings reyndist að þessu sinni vera 22,9%. Þetta er svipaður vöxtur og verið hefur á síðustu fjórðungum, ögn hærri en á öðrum fjórðungi en minni en á fyrsta fjórðungi. Þessi vöxtur var nær allur borinn af vexti þjónustu en 93% af vexti heildarútflutnings skýrist af vexti þjónustu sem jókst um 46% milli ára. Vöxtur vöruútflutnings jókst mikið minna eða 4,8%. Mikinn vöxt í útflutningi þjónustu má skýra að langmestu leyti með miklum útflutningi á ferðaþjónustu. Fjöldi erlendra ferðamanna var 654 þúsund á þriðja fjórðungi og jókst hann um 77% milli ára. Breytileikinn í hagvaxtarþróun á síðustu árum skýrist að mjög miklu leyti af vexti og viðgangi ferðaþjónustunnar. Svo mun verða áfram en við spáum því að fjöldi erlendra ferðamanna verði í kringum 1,7 milljónir á þessu ári. Til samanburðar voru þeir tæplega 2 milljónir 2019, síðasta árið fyrir faraldur.
Vöxtur einkaneyslu einnig kröftugur
Vöxtur einkaneyslu var töluvert minni að þessu sinni en verið hefur eða 7,2%. Að meðaltali var vöxtur einkaneyslu á síðustu 5 fjórðungum þar á undan 10,9% en vöxturinn var 15% á öðrum fjórðungi. Mjög stór hluti af aukningu neyslunnar á þriðja fjórðungi fór fram erlendis og kemur því til frádráttar í landsframleiðslu. Áhrif þessa mikla vaxtar í einkaneyslu á hagvöxt eru því mikið minni en ætla mætti við fyrstu sýn.
Áhrif faraldursins voru mikil á neyslusamsetningu heimilanna. Neyslan færðist nær öll inn í landið meðan á faraldrinum stóð og mikill samdráttur varð í neyslu erlendis. Eftir að flugsamgöngur komust í samt lag hefur mjög stór hluti neyslunnar færst aftur út fyrir landssteinana á sama tíma og samdráttur mælist í neyslu Íslendinga innanlands. Út frá gögnum um kortaveltu má ætla að öll aukin neysla á þriðja ársfjórðungi hafi komið erlendis frá.
Almenn atvinnuvegafjárfesting dróst óvænt saman á fjórðungnum
Almenn atvinnuvegafjárfesting, sem er öll fjárfesting atvinnuveganna utan fjárfestingar í stóriðju, skipum og flugvélum, dróst saman um 2,4%. Þetta var óvænt enda er þetta í fyrsta sinn síðan eftir faraldur sem almenn atvinnuvegafjárfesting dregst saman milli ára. Líklegt er að þarna séu neikvæðari væntingar farnar að hafa áhrif. Væntingar stjórnenda fyrirtækja til næstu 6 mánaða hafa lækkað mikið á þessu ári en einnig mat þeirra á núverandi ástandi. Hækkun vaxtastigs hér á landi vegna meiri verðbólgu hefur án efa einnig letjandi áhrif á fjárfestingu.
Spáum kröftugum hagvexti á þessu ári
Samsetningin á hagvextinum var í góðu samræmi við það sem verið hefur á síðustu fjórðungum. Hagvöxturinn reyndist ef eitthvað er, töluvert kröftugri en búast hefði mátt við. Þjóðhagsspá okkar frá því í október gerði ráð fyrir 6,5% hagvexti á þessu ári en við höfðum í maí gert ráð fyrir 5,1% hagvexti. Til að spá okkar um 6,5% hagvöxt gangi eftir þarf hagvöxturinn að verða 3,7-4% á fjórða fjórðungi. Það er ólíklegt að það gangi eftir en þó alls ekki útilokað, líklegra þykir okkur að hagvöxturinn verði meiri. Vöxturinn á fjórða fjórðungi mun markast að töluvert miklu leyti af annars vegar komum og neyslu erlendra ferðamanna og hins vegar ferðalögum Íslendinga til útlanda og neyslu þeirra erlendis frá.