Verðbólga jókst umfram væntingar

Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% á milli mánaða í október, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofunnar. Verðbólga eykst því úr 4,1% í 4,3%. Verðbólga hafði haldist á milli 3,8% og 4,2% síðan í febrúar, en skaust nú rétt yfir þetta bil. Verðbólga án húsnæðis mælist nú 3,3%.
Vísitalan hækkaði meira en við bjuggumst við. Spá okkar gerði ráð fyrir að vísitalan hækkaði um 0,39% og að ársverðbólga færi í 4,2%. Ýmsir undirliðir hækkuðu meira en við bjuggumst við, svo sem reiknuð húsaleiga, tómstundir og menning og matur og drykkjarvörur. Það kom einna helst á óvart að flugfargjöld til útlanda hækkuðu mun minna en við spáðum og að verð á hótel- og veitingastaðaþjónustu lækkaði þvert á spána.
Framlag flestra liða jókst
Ársverðbólga jókst um 0,2 prósentustig á milli mánaða í október. Framlag innfluttra vara og reiknaðrar húsaleigu til ársverðbólgu jókst, en framlag flugfargjalda til útlanda dróst saman.
Helstu liðir vísitölunnar:
- Verð á mat og drykkjarvöru hækkaði um 0,6% á milli mánaða, nokkuð umfram spá okkar um 0,3% hækkun. Mestu munar um að kjöt hækkaði um 1,5% á milli mánaða, sykur, súkkulaði, sælgæti o.fl. hækkaði um 1,5% og fiskur hækkaði um 1,4%. Spáin byggði að miklu leyti á verðkönnun ASÍ eins og hún leit út í verðkönnunarvikunni, en þá gaf hún til kynna að verð á mat og drykk hefði aðeins hækkað um 0,2%.
- Reiknuð húsaleiga hækkaði um 0,9% á milli mánaða, nokkuð umfram okkar spá um 0,5% hækkun. Annan mánuðinn í röð hækkar reiknuð húsaleiga um 0,9% á milli mánaða.
- Flugfargjöld til útlanda hækkaði um 0,5% á milli mánaða, en við spáðum 8,2% hækkun. Þetta er mun minni hækkun en í október í fyrra þegar flugfargjöld til útlanda hækkuðu um 6,6%. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar var 5,2% ódýrara að fljúga til útlanda í október í ár en í október í fyrra, en í september var það 0,4% dýrara.
- Hótel- og veitingarstaðaþjónusta lækkaði um 1,3%, en við spáðum 0,2% hækkun. Hér munar mestu um að þjónusta hótela og gistiheimila lækkaði í verði um 20% á milli mánaða.
Gerum ráð fyrir 4,5% verðbólgu í janúar
Við gerum nú ráð fyrir að vísitala neysluverðs hækki um 0,09% í nóvember, hækki um 0,43% í desember og lækki um 0,13% í janúar. Gangi spáin eftir verður ársverðbólga 4,3% í nóvember og desember og 4,5% í janúar. Spáin er hærri en síðasta spá sem við birtum í verðkönnunarvikunni. Hækkunin skýrist aðallega af tvennu. Í fyrsta lagi var verðbólga í október meiri en við bjuggumst við og tólf mánaða takturinn verður því áfram hærri næstu mánuði. Hitt er breytt gjaldtaka af ökutækjum sem tekur gildi um næstu áramót. Vörugjöld af bílum sem ganga fyrir jarðeldsneyti hækka, vörugjöld af rafbílum verða felld niður og styrkur til rafbílakaupa lækkar.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.
Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.









