Vikubyrjun 24. október 2022

Vikan framundan
- Á þriðjudag birtir Síminn árshlutauppgjör.
- Á miðvikudag birta Arion banki og Festi árshlutauppgjör.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan vísitölu neysluverðs fyrir október. Við spáum því að hún hækki um 0,44% milli mánaða og verðbólga mælist 9,2%.
- Á fimmtudag birta Eik, Íslandsbanki, Landsbankinn, Origo, Sjóvá og Skeljungur árshlutauppgjör.
Mynd vikunnar
Kraftmikill vöxtur útflutningsgreina og mikil innlend eftirspurn hafa drifið áfram myndarlegan vöxt landsframleiðslu undanfarið ár og mun að öllum líkindum leiða til meiri hagvaxtar en við gerðum ráð fyrir í hagspá okkar í maí. Þá spáðum við 5,1% hagvexti á þessu ári, en nú 6,5%. Við spáum því að hagvöxtur verði 2,1% á næsta ári, 3% árið 2024 og 1,9% árið 2025. Verðbólga hefur náð hámarki að okkar mati og mun mælast 6,5% á næsta ári. Við gerum ráð fyrir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið, að núverandi vaxtastigi verði haldið næstu misseri og vaxtalækkunarferli hefjist ekki fyrr en á þriðja fjórðungi næsta árs.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans var birt á miðvikudaginn og kynnt á opnum fundi í Hörpu.
- Hagfræðideild Landsbankans gaf út nýtt hlaðvarp um þjóðhagsspána. Farið er yfir atburði síðustu mánaða og hvernig má búast við að hagkerfið þróist á næstu árum.
- Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti vísitölu íbúðaverðs í september og Hagfræðideildin gaf út hagsjá um þróun íbúðaverðs. Íbúðaverð hækkaði um 0,8% og hækkunin skýrist alfarið af verðhækkun á sérbýli, um 4,8%. Verð á fjölbýli lækkaði aftur á móti í fyrsta sinn síðan í júní 2020, um 0,1%. Þetta var meiri hækkun en við gerðum ráð fyrir og hækkuðum við verðbólguspá okkar fyrir október úr 9,0% í 9,2%.
- Hagstofan birti á föstudag launavísitölu fyrir septembermánuð. Vísitalan hækkaði um 0,8% í september. Það felur í sér að árshækkun vísitölunnar hækkar úr 8% upp í 8,1%. Launaskriðið, þ.e. launahækkanir umfram umsamin laun, skýrist af spennu á vinnumarkaði. Það voru engar samningsbundnar hækkanir í mánuðinum, enda komið að lokum samningstímabils.
- Peningastefnunefnd Seðlabankans birti fundargerð frá fundi 5. október þar sem nefndin tók þá ákvörðun að hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig, upp í 5,75%. Í fundargerðinni kemur fram að allir nefndarmenn hafi stutt tillögu seðlabankastjóra um 0,25 prósentustiga hækkun. „Rökin sem komu fram fyrir því að hækka vexti voru þau að þótt verðbólga hefði hjaðnað á milli funda væri hún enn vel yfir markmiði auk þess sem undirliggjandi verðbólga hefði aukist. Þá væru langtímaverðbólguvæntingar einnig yfir markmiði. Verðbólguhorfur hefðu þar að auki versnað í viðskiptalöndum. Hættan á annarrar umferðar áhrifum á innlenda verðbólgu myndi að sama skapi aukast ef fyrirtæki hleypa auknum aðfangakostnaði út í innlent verðlag,“ er meðal þess sem segir í fundargerðinni.
- Fjármála- og efnahagsráðuneytið gaf út skýrslu um stöðu ÍL-sjóðs.
- Lánasjóður sveitarfélaga hélt skuldabréfaútboð og Lánamál ríkisins héldu útboð ríkisbréfa.
- Af hlutabréfamarkaði var helst að frétta að Hagar (fjárfestakynning), Icelandair (fjárfestakynning) og VÍS (fjárfestakynning) birtu árshlutauppgjör í vikunni.
Hagtölur og markaðsupplýsingar









