Vikubyrjun 16. september 2024
Vikan framundan
- Á morgun birtir HMS vísitölu íbúðaverðs og Seðlabankinn birtir veltu greiðslukorta.
- Á miðvikudag birtir HMS vísitölu leiguverðs, Seðlabanki Bandaríkjanna tekur ákvörðun um vexti og það verða birtar verðbólgutölur í Bretlandi.
- Á fimmtudag er vaxtaákvörðun hjá Englandsbanka.
Mynd vikunnar
Árið 2016 tóku gildi reglur sem fólu í sér að skuldir ríkissjóðs skyldu veru undir 30% af VLF. Í kjölfarið lækkuðu skuldir og fóru lægst í 21,9% af VLF 2019. Síðan var vikið tímabundið frá skuldareglunni í heimsfaraldrinum og þá jukust skuldir ríkissjóðs hratt. Samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að skuldir ríkissjóðs verði 31,4% af VLF á næsta ári, þ.e. rétt yfir því sem reglan gerir ráð fyrir. Að óbreyttu tekur reglan ekki gildi á ný fyrr en 2026.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Í síðustu viku fóru fram verðmælingar vegna septembermælingu vísitölu neysluverðs. Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,08% á milli mánaða í september og að verðbólga lækki úr 6,0% í 5,7%. Við eigum von á áframhaldandi lækkun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 4,9% í lok árs.
- Um 281 þúsund erlendir ferðamenn fóru um Leifsstöð í ágúst, 0,3% fleiri en í ágúst í fyrra. Það sem af er ári hefur ferðamönnum fjölgað um 0,8% frá sama tímabili í fyrra. Brottfarir Íslendinga voru töluvert fleiri í ágúst í ár en í fyrra, eða um 52 þúsund, sem er rúmlega 13% fleiri en fyrir ári síðan. Það sem af er ári hefur utanlandsferðum Íslendinga fjölgað um 0,7%.
- Skráð atvinnuleysi var 3,2 í ágúst og jókst úr 3,1% í júlí. Atvinnuleysi er örlítið hærra en á sama tíma í fyrra, en þá var það 2,9%.
- Seðlabankinn leiðrétti áður birtar tölur um viðskipti við útlönd. Í stað 30,5 ma. kr. halla á öðrum ársfjórðungi telur Seðlabankinn núna að hallinn hafi verið 43,9 ma. kr.
- Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 2,5% í ágúst. Kjarnaverðbólga, þ.e. verðbólga án matvöru og orku, mælist aðeins hærri, eða 3,2%. Mælingin eykur líkurnar á vaxtalækkun á miðvikudaginn. Seðlabanki Evrópu lækkaði vexti um 0,25 prósentustig í samræmi við væntingar.
- Lánasjóður sveitarfélaga og Alma íbúðafélag héldu skuldabréfaútboð, Lánamál ríkisins tilkynnti um niðurstöðu viðbótarútgáfu.
- Á hlutabréfamarkaði birti Play flutningstölur, Skel tilkynnti að áreiðanleikakönnun vegna samruna Samkaupa, Heimkaupa og Orkunnar væri lokið og JBT kynnt fyrirhugað framtíðarskipulag JBT Marel.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).