Hagspá 2022-2025: Kröft­ug­ur hag­vöxt­ur en kaup­mátt­ur dregst aft­ur úr

Við spáum 6,5% hagvexti hér á landi á þessu ári, þeim mesta frá árinu 2007, en að svo hægi töluvert á. Verðbólga hjaðni smám saman en fari þó ekki undir 4% fyrr en árið 2025. Við búumst við að stýrivextir byrji að lækka á seinni hluta næsta árs og vegna verðbólgu aukist kaupmáttur mun hægar en undanfarin ár.
Hagspá 2022
19. október 2022 - Hagfræðideild

Kraftmikill vöxtur útflutningsgreina og mikil innlend eftirspurn hafa drifið áfram myndarlegan vöxt landsframleiðslu undanfarið ár, meiri hagvöxt en við gerðum ráð fyrir í maí þegar við gáfum síðast út hagspá. Þá spáðum við 5,1% hagvexti á þessu ári, en nú 6,5%. Þetta er mun meiri hagvöxtur en í flestum nágrannalöndum okkar og á flesta mælikvarða eru horfur í efnahagsmálum hér á landi mjög góðar. Töluverð óvissa um þróun efnahagsmála í heiminum gæti þó sett strik í reikninginn og þar að auki óvissa hér á landi í tengslum við kjaraviðræður og kjarasamninga.

Hagvöxtur veltur á ferðaþjónustunni

Spá um verulega aukinn hagvöxt á þessu ári skýrist einna helst af því að við spáum nú að fleiri erlendir ferðamenn komi hingað á þessu ári en við gerðum ráð fyrir í maí. Á móti kemur að við spáum minni hagvexti á síðari árum spátímans. Margt bendir til þess að tekið sé að hægja á vexti hagkerfisins og eru þar verðbólga, vaxtahækkanir og kaupmáttarrýrnun stórir áhrifaþættir. Við gerum ráð fyrir að kaupmáttur dragist saman um 0,4% milli áranna 2021 og 2022 og aukist aðeins um 0,5% á næsta ári. Þetta yrði í fyrsta sinn síðan 2010 sem kaupmáttur dregst saman milli ára og er útlit fyrir að vöxtur kaupmáttar á næstu árum verði undir meðalvexti frá aldamótum.

Kvarnast úr kaupmættinum

Hægari kaupmáttarþróun má fyrst og fremst rekja til mikillar verðbólgu. Verðbólgan er almenn um þessar mundir sem þýðir að hana má rekja til ýmissa ólíkra þátta. Íbúðamarkaður, sem hefur verið einn helsti drifkraftur hennar, er nú loks farinn að sýna merki kólnunar en það er ekki nóg til þess að slá alveg á verðbólguna. Aðstæður erlendis hafa mikið að segja þar sem verð á hrávöru er enn hátt og gengi krónunnar hefur ekki styrkst jafn mikið og gert var ráð fyrir.

Versnandi lífskjör í mörgum viðskiptalöndum okkar, meiri verðbólga en sést hefur í áratugi, misjöfn og misvísandi viðbrögð stjórnvalda hinna ýmsu ríkja við efnahagsástandinu og innrás Rússa í Úkraínu eru meðal þeirra þátta sem valda mikilli óvissu um þróun alþjóðaviðskipta á heimsvísu. Þessi óvissa veldur því að við gerum nú ráð fyrir að erlendum ferðamönnum fjölgi hlutfallslega minna á næsta ári en við töldum áður.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í hagspá Hagfræðideildar, sem nær til ársloka 2025.

Helstu niðurstöður

  • Við gerum ráð fyrir að landsframleiðslan aukist um 6,5% á þessu ári og 2,1% á því næsta. Hagvöxturinn ræðst að miklu leyti af uppgangi ferðaþjónustunnar og verður þannig talsvert minni á næsta ári en á þessu ári, vegna hægari fjölgunar ferðamanna. Við spáum því að hagvöxtur verði 3% árið 2024 og 1,9% árið 2025.
  • Við búumst við 1,7 milljónum ferðamanna til landsins í ár, sem er meira en við gerðum ráð fyrir í maí. Aftur á móti spáum við nú 1,9 milljónum ferðamanna á næsta ári, en í maí hljóðaði spáin upp á 2 milljónir. Árið 2024 spáum við að fjöldinn verði 2,3 milljónir og 2,5 milljónir árið 2025.
  • Alls gerum við ráð fyrir 22,4% vexti útflutnings á milli ára í ár. Á næsta ári verður vöxturinn fremur lítill (3,7%) vegna minni fjölgunar ferðamanna og samdráttar í loðnuveiðum. Vöxtur útflutnings verður síðan nokkur árið 2024 (7%) þegar við gerum ráð fyrir að staða heimila í Evrópu verði orðin betri.
  • Horfur eru á að innflutningur aukist mjög í ár, mun meira en gert var ráð fyrir í maí, og skýrist það m.a. af ferðagleði Íslendinga í sumar. Við búumst við 18,6% vexti innflutnings í ár en að svo hægi verulega á vextinum á næstu árum og hann liggi á bilinu 2,2-3,5% á árunum 2023-2025.
  • Viðskiptajöfnuður við útlönd verður neikvæður í ár um alls 2,2% af landsframleiðslu, gangi spá okkar eftir. Þegar líður á spátímabilið munu utanríkisviðskipti færast úr halla í afgang sem við spáum að verði mestur árið 2025, 1,9% af landsframleiðslu.
  • Við teljum að krónan styrkist ögn á næsta ári en styrkingin verði svo töluvert meiri árið 2024 þegar við sjáum fram á meiri afgang af vöru- og þjónustuviðskiptum.
  • Einkaneysla hefur aukist mjög það sem af er ári og m.a. verið drifin áfram af ferðalögum Íslendinga erlendis. Við gerum ráð fyrir að aukningin verði 6,7% á yfirstandandi ári en svo taki að hægja á og að einkaneysla aukist aðeins um 2% á næsta ári og 3-3,3% árin þar á eftir.
  • Óvissa í spánni snýr einna helst að vinnumarkaði í aðdraganda kjarasamninga. Vinnumarkaður hefur verið sterkur, launaskrið talsvert og fyrirtæki fundið fyrir skorti á starfsfólki. Við gerum ráð fyrir að laun hækki um 7,6% á þessu ári og svo 7,1% á næsta ári, sem er nokkuð í takt við breytingar síðustu ára.
  • Atvinnuleysi hefur minnkað hratt og ólíklegt að það geti dregist mikið meira saman til lengri tíma, enda er óhjákvæmilegt að einhver hluti vinnuaflsins sé atvinnulaus á hverjum tíma. Við gerum því ráð fyrir að það verði nokkuð stöðugt á spátímabilinu, að jafnaði 3,2% á næsta ári.
  • Verðbólga hefur náð hámarki að okkar mati og mun að jafnaði mælast 6,5% á næsta ári. Það er nokkur hjöðnun miðað við þá 8,1% verðbólgu sem við spáum í ár. Við teljum að verðbólgumarkmiði Seðlabankans verði ekki náð á spátímanum.
  • Við gerum ráð fyrir að vaxtahækkunarferli Seðlabankans sé lokið. Núverandi vaxtastigi verði haldið næstu misseri og vaxtalækkunarferli teljum við að hefjist ekki fyrr en á þriðja fjórðungi næsta árs.
  • Loks er tekið að hægja á hækkunum íbúðaverðs og við gerum ráð fyrir nánast kyrrstöðu á þeim markaði næstu mánuði. Að jafnaði mun íbúðaverð hækka um 5% á næsta ári sem er undir meðalbreytingu frá aldamótum og mikil breyting frá 22% verðhækkun þessa árs, gangi spá okkar eftir.
  • Stefnt er að því að draga úr hallarekstri ríkissjóðs á spátímanum og það hraðar en áður var spáð. Samkvæmt fjármálaáætlun er þó gert ráð fyrir halla á rekstri bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga fram til ársins 2027.

Yfirlit yfir þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans

Landsframleiðsla og helstu undirliðir hennar Í ma. kr. Magnbreytingar frá fyrra ári, %
2021 2022 2023 2024 2025
Verg landsframleiðsla 3.251 6,5 (5,1) 2,1 (3,7) 3,0 (2,8) 1,9
Einkaneysla 1.674 6,7 (3,5) 2,0 (3,0) 3,3 (3,0) 3,0
Samneysla 892 1,5 (1,5) 1,6 (1,5) 1,7 (1,5) 2,0
Fjármunamyndun 738 6,6 (6,2) 1,1 (5,1) -3,2 (2,2) -3,1
  Atvinnuvegafjárfesting 422 9,4 (5,0) 2,3 (5,4) -4,4 (3,0) -3,7
  Fjárfesting í íbúðarhúsnæði 176 1,0 (10,0) 4,5 (8,0) 0,5 (2,0) -1,5
  Fjárfesting hins opinbera 140 5,0 (5,0) -7,0 (0,0) -4,0 (0,0) -3,0
Þjóðarútgjöld alls 3.309 5,3 (3,4) 1,7 (3,1) 1,4 (2,4) 1,4
Útflutningur vöru og þjónustu 1.242 22,4 (19,4) 3,7 (7,5) 7,0 (7,2) 3,1
Innflutningur vöru og þjónustu 1.300 18,6 (14,3) 2,7 (6,0) 3,5 (6,5) 2,2
Stýrivextir og verðbólga
  2022 2023 2024 2025
Meginvextir Seðlabanka Íslands, 7 daga bundin innlán, lok árs, %   5,75 (6,00) 5,25 (5,50) 4,25 (4,00) 3,75
Verðbólga, ársmeðaltal, %   8,1 (7,4) 6,5 (5,8) 4,4 (4,0) 3,5
Gengi evru, lok árs   139 (132) 138 (130) 132 (128) 130
Fasteignaverð, ársmeðaltal, %   22 (20) 5 (8) 4 (4) 5
Vinnumarkaður
  2022 2023 2024 2025
Vísitala launa, ársmeðaltal, %   7,6 (7,5) 7,1 (6,8) 6,4 (6,2) 5,0
Kaupmáttur launa, ársmeðaltal, %   -0,4 (0,1) 0,5 (0,9) 1,9 (2,2) 1,3
Atvinnuleysi, ársmeðaltal, %   3,8 (4,5) 3,2 (4,2) 3,3 (3,9) 3,4
Viðskiptajöfnuður
  2022 2023 2024 2025
Fjöldi erlendra ferðamanna, þúsund manns   1.700 (1.500) 1.900 (2.000) 2.300 (2.400) 2.500
Vöru- og þjóustujöfnuður, %VLF   -0,2 (0,9) 0,6 (1,0) 2,5 (0,9) 2,8
Viðskiptajöfnuður, %VLF   -2,2 (0,6) -0,4 (0,7) 1,6 (0,7) 1,9

Tölur innan sviga eru spá Hagfræðideildar frá maí 2022

Verðbólga hefur náð hámarki og stýrivextir einnig

Verðbólga hér á landi náði hámarki í 9,9% í júlí eftir að hafa aukist hratt framan af ári líkt og annars staðar. Síðan hafa verið birtar tvær verðbólgumælingar, í ágúst og september. Verðbólga mældist 9,7% í ágúst og hjaðnaði enn frekar í september þegar hún mældist 9,3%. Þessar tölur gefa skýrt til kynna að verðbólgan hafi náð hámarki en við teljum björninn þó ekki unninn og að þrátt fyrir að verðbólga hjaðni muni það gerast verulega hægt. Við teljum að verðbólgumarkmiðið náist ekki á spátímabilinu en að verðbólga nái lágmarki í 3,5% árið 2025.

Verðbólguvæntingar heimila og fyrirtækja hafa hækkað mikið samfara aukinni verðbólgu, en eru þó farnar að sýna merki lækkunar. Verðbólguvæntingar fyrirtækja lækkuðu úr 6% í 5% milli annars og þriðja ársfjórðungs þessa árs, en verðbólguvæntingar heimila voru aftur á móti óbreyttar í 8%. Hversu hratt Seðlabankanum tekst að ráða niðurlögum verðbólgunnar ræðst að töluverðu leyti af þróun verðbólguvæntinga. Peningastefnunefnd hækkaði stýrivexti um 0,25 prósentustig nú í október, upp í 5,75%. Á kynningarfundi vegna ákvörðunarinnar kom skýrt fram að nefndin sæi í dag ekki tilefni til þess að hækka vextina frekar á næstunni. Við spáum því að þessu vaxtastigi verði haldið fram yfir mesta þungann í kjarasamningsviðræðum og að á þriðja fjórðungi næsta árs taki við hægfara vaxtalækkunarferli. Við spáum því að stýrivextir nái lágmarki í 3,75% í lok spátímans.

Ferðamönnum fjölgar áfram þrátt fyrir erfitt árferði í Evrópu

Ferðaþjónustan í heiminum tók verulega við sér á fyrri hluta ársins og naut Ísland góðs af. Fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi á öðrum fjórðungi var 89% af fjöldanum á sama fjórðungi síðasta árs fyrir faraldur, 2019. Viðlíka hlutföll sáust í öðrum löndum sem reiða sig á ferðamenn. Út frá þeim fjölda sem þegar hefur komið til landsins á árinu og áætlunum um brottfarir frá Leifsstöð fram til áramóta höfum við fært spá okkar um fjölda ferðamanna úr 1,5 milljónum upp í 1,7 milljónir á þessu ári. Í maí spáðum við að 2 milljónir ferðamanna myndu sækja landið heim á næsta ári en nú teljum við að eftirspurnin verði minni vegna efnahagsþrenginga víða í Evrópu. Við höfum því fært þá tölu niður í 1,9 milljónir en gerum ráð fyrir að ástandið í Evrópu verði mun skárra árið 2024 og spáum þá 2,3 milljónum ferðamanna, eða 21% fjölgun milli ára. Við gerum svo ráð fyrir að ferðamönnum fjölgi áfram árið 2025 og að þeir verði 2,5 milljónir, fleiri en nokkru sinni fyrr.

Heilt yfir gerum við ráð fyrir að útflutningur aukist um 22,4% á þessu ári en aðeins um 3,7% á næsta ári, bæði vegna minni fjölgunar ferðamanna og minni loðnuveiða en á þessu ári. Árið 2024 verður svo nokkuð kröftugur vöxtur, eða 7%, og verður hann borinn af 400 þúsund manna fjölgun erlendra ferðamanna. Það er töluverð óvissa um þessa spá og þá helst vegna þeirra miklu þrenginga sem fjöldi landa í Evrópu gengur í gegnum um þessar mundir vegna mikillar verðbólgu. Hún gæti enn færst í aukana með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á kaupmátt og neyslugetu heimila. Í þessu sambandi má benda á að vísitala fyrirhugaðra kaupa evrópskra heimila á fasteignum, bílum og ferðalögum hefur lækkað mjög á undanförnum misserum og er einungis litlu hærri en þegar hún fór lægst í faraldrinum. Vísitala fyrirhugaðra utanlandsferða Bandaríkjamanna, sem hafa verið stærsti einstaki viðskiptahópur íslenskrar ferðaþjónustu, hefur aftur á móti aldrei mælst hærri.

Krónan styrkist út spátímabilið en lítið fyrst um sinn

Verð á hrávörum hefur almennt farið lækkandi á síðustu mánuðum eftir miklar hækkanir í faraldrinum. Hrávöruverð er þó í flestum tilfellum enn töluvert hærra en fyrir faraldur. Við spáum því að viðskiptakjaraáhrif verði jákvæð á þessu og næsta ári. Engu að síður gerum við ráð fyrir viðskiptahalla á þessu ári og smávægilegum halla á næsta ári. Við spáum því þó að það verði lítils háttar afgangur á vöru- og þjónustuviðskiptum á næsta ári. Árið 2024 gerum við ráð fyrir 67 ma.kr. afgangi á viðskiptajöfnuði og 86 mö.kr. árið 2025. Við búumst við að krónan leiti til styrkingar fram að áramótum og á næstu árum. Á næsta ári gerum við ráð fyrir að evran endi árið í 138 krónum en að töluverður viðskiptaafgangur árið 2024 leiði til meiri styrkingar og að evran endi árið í 132 krónum og 130 krónum í lok spátímabilsins.

Kjaraviðræður í skugga kaupmáttarrýrnunar

Töluverð tímamót urðu í júní á þessu ári þegar tólf ára samfelldri kaupmáttaraukningu lauk, sé litið til breytinga milli ára. Verðbólga síðustu mánaða hefur étið upp kaupmátt sem hefur nú dregist saman um 4,2% frá því í janúar. Við spáum því að lítillega hægist á launahækkunum yfir spátímann eftir því sem slaki færist yfir vinnumarkaðinn sem þandist hratt út þegar faraldurinn leið undir lok. Laun hafa hækkað að meðaltali um 8% á síðustu 12 mánuðum, mest meðal þeirra sem starfa við rekstur gisti- og veitingastaða og meira hjá verkafólki og þjónustu- og afgreiðslufólki en öðrum. Kjarasamningar á almenna markaðnum renna út í lok október og á þeim opinbera í lok mars á næsta ári. Ætla má að munur á launaþróun milli hópa hafi áhrif á kjaraviðræður, en einnig verðbólga og nýtilkomin kaupmáttarrýrnun.  

Hraður viðsnúningur á vinnumarkaði og atvinnuleysi helst í lágmarki

Mjög hefur dregið úr atvinnuleysi síðan það náði hámarki í tæpum 12% í janúar 2021. Það hefur verið undir 6% síðan í júlí 2021 og í kringum og undir 3% á síðustu mánuðum sem bendir til töluverðrar spennu á vinnumarkaði. Þeim sem starfa á íslenskum vinnumarkaði hefur fjölgað um tæp 5% milli fyrri helminga áranna 2021 og 2022. Atvinnuþátttaka hefur aukist á sama tíma, sem og vinnuaflsnotkun. Uppgangur, ekki síst í ferðaþjónustu, hefur lyft atvinnustiginu hraðar en við reiknuðum með og viðsnúningurinn er slíkur að nú vantar ekki störf heldur starfsfólk. Stjórnendur rúmlega helmings fyrirtækja telja vanta vinnuafl, samkvæmt nýrri Gallup-könnun, en það er nálægt sögulegu hámarki hér á landi. Eftirspurninni hefur í síauknum mæli verið mætt með erlendu vinnuafli. Aldrei hafa fleiri flutt til landsins á einum ársfjórðungi en á öðrum ársfjórðungi þessa árs og innflytjendur eru um það bil fimmtungur þeirra sem starfa á Íslandi, um 48 þúsund talsins. Við reiknum með að áfram ríki nokkur spenna á vinnumarkaði á næstu árum og að atvinnuleysi verði í lágmarki, að meðaltali 3,8% á þessu ári, 3,2% árið 2023, 3,3% árið 2024 og 3,4% árið 2025.

Hægir á neysluaukningunni

Einkaneyslan jókst um 11% frá fyrri hluta ársins miðað við sama tímabil í fyrra sem er mikill vöxtur í sögulegu ljósi. Við gerum ráð fyrir að sú mikla neysluaukning sem orðið hefur, eftir að takmarkanir vegna faraldursins voru afnumdar að fullu, fari dvínandi. Landsmenn voru margir ferðaþyrstir í sumar og gerðu vel við sig í útlöndum. Neysluaukning þessa árs er því að langmestu leyti tilkomin vegna ferðalaga. Við gerum ráð fyrir að áhrif afnáms takmarkana fjari út og einkaneysluvöxturinn verði mun hófstilltari á komandi fjórðungum, m.a. vegna kaupmáttarrýrnunar. Heimili leggja ekki jafnmikið til hliðar og þegar faraldurinn stóð sem hæst og svigrúm til neysluaukningar er því orðið takmarkaðra. Einnig hafa væntingar heimila til atvinnu- og efnahagsástandsins versnað sem gæti dregið úr neysluáhuga fólks. Alls gerum við ráð fyrir að einkaneysla aukist um 6,7% í ár en um 2-3,3% árlega á árunum 2023-2025.

Kröftug atvinnuvegafjárfesting á þessu og næsta ári en svo dregur úr henni

Vöxtur atvinnuvegafjárfestingar var kröftugur í fyrra og í ár en það skýrist að hluta til af samdrættinum sem varð vegna faraldursins árið 2020. Almenn atvinnuvegafjárfesting, sem undanskilur stóriðju og fjárfestingu í skipum og flugvélum, hefur verið á töluverðri siglingu og spáum við því að hún aukist um 17% á þessu ári. Eftir því sem líður á uppsveifluna í hagkerfinu mun draga lítillega úr fjárfestingunni líkt og gerist venjulega. Væntingar stjórnenda til efnahagsástandsins eftir 6 mánuði hafa dalað verulega á árinu, sem og mat þeirra á núverandi stöðu. Töluverð fjárfesting hefur verið til staðar, sérstaklega í tengslum við enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar. Við spáum því að sú þróun haldi áfram og verði meðal annars studd af styrkingu krónunnar en styrking krónu hefur í gegnum tíðina stutt við atvinnuvegafjárfestingu.

Íbúðamarkaður kólnar

Eftir miklar hækkanir á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu á síðustu misserum hafa nú komið fram mjög skýr merki kólnunar, m.a. lækkun vísitölu íbúðaverðs milli mánaða í ágúst í fyrsta sinn í þrjú ár. Fleiri íbúðir eru jafnan til sölu og færri kaupsamningar undirritaðir sem bendir til þess að eftirspurn sé að dragast saman eftir mikla eftirspurnaraukningu á síðustu misserum þegar stýrivaxtastigið var lágt og íbúðalánavextir í sögulegu lágmarki. Við gerum ráð fyrir mjög hófstilltum hækkunum og að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækki um að jafnaði 4%-5% á næstu árum eftir 22% hækkun á þessu ári.

Samhliða minni eftirspurn gerum við ráð fyrir auknu framboði af íbúðum á næstunni. Ný talning samtaka iðnaðarins og HMS á íbúðum í byggingu bendir til þess að 35% fleiri íbúðir séu nú í byggingu en á sama tíma í fyrra. Við gerum ráð fyrir mikilli og jafnri íbúðafjárfestingu næstu ár í sögulegu ljósi og að fjárfest verði fyrir ríflega 180 ma.kr. árlega. Kraftmikil uppbygging á sama tíma og eftirspurn er minni mun leiða til hófstilltari hækkana en ella.

Minnkandi en þó viðvarandi halli ríkissjóðs

Afkoma ríkissjóðs versnaði mjög í faraldrinum og fór úr -1,9% af tekjum árið 2019 í -25% árið 2021. Í fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027 er gert ráð fyrir að halli bæði ríkissjóðs og sveitarfélaga fari minnkandi, en verði þó enn til staðar á árinu 2027, 1,9% af tekjum hjá ríkissjóði og 0,5% hjá sveitarfélögum. Í nýju fjárlagafrumvarpi er áætlað að skuldir ríkissjóðs verði 33% af VLF í árslok 2023. Ljóst má telja að eitt helsta úrlausnarefni ríkissjóðs á næstu árum verður að koma opinberum fjármálum í eðlilegt horf eftir mikinn útgjaldaauka og tekjumissi. Aðhald í rekstri þarf því að aukast töluvert. Við spáum 1,5% aukningu samneyslu í ár, 1,6% aukningu 2023, 1,7% aukningu 2024 og 2% aukningu 2025. Hlutfall samneyslu af vergri landsframleiðslu lækkar á spátímabilinu en verður áfram sögulega hátt. Opinber fjárfesting kemur tæplega til með að aukast frekar á næstu árum, enda auðveldara fyrir stjórnvöld að halda aftur af henni en samneyslu. Þörfin fyrir innviðafjárfestingar er þó áfram rík og þar með krafa um fjárfestingu. Við reiknum með að opinber fjárfesting aukist um 5% á þessu ári, en minnki svo milli ára út spátímabilið, fyrst um 7% árið 2023 en svo 4% árið 2024 og 3% árið 2025. Hlutfall opinberrar fjárfestingar af vergri landsframleiðslu lækkar því nokkuð á spátímabilinu.

Þjóðhags- og verðbólguspá 2022-2025: Kröftugur hagvöxtur en kaupmáttur dregst aftur úr (pdf)

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
20. okt. 2022
Morgunfundur um hagspá til 2025 - upptökur og glærur
Hagspá Landsbankans til ársins 2025 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 19. október 2022 og í kjölfarið tóku við fjörugar pallborðsumræður um stöðu og horfur á vinnumarkaði.
Hlaðvarp
21. okt. 2022
Hagspáin – hver er staðan og hvert stefnum við?
Hagfræðideildin kynnti nýja þjóðhags- og verðbólguspá í Hörpu 19. október sl. og hlaðvarpið er að þessu sinni tileinkað henni. Una Jónsdóttir, Ari Skúlason, Gústaf Steingrímsson og Hildur Margrét Jóhannsdóttir fara yfir það helsta úr spánni; hagvöxtinn, verðbólguna, ferðamenn, kaupmátt, óvissuna og fleira. Þau ræða það hvað hefur gerst á síðustu mánuðum og hvernig má búast við að hagkerfið þróist á næstu árum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur