Samkvæmt tölum sem birtust í fyrradag hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hækkaði vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu um 0,8% milli ágúst og september. Þessi mæling kom nokkuð á óvart, enda kemur hún í kjölfar mælingar sem sýndi lækkun milli mánaða, mánuðinn á undan. Við höfðum reiknað með mjög hófstilltum hækkunum næstu mánuði, nánast þannig að vísitalan myndi standa í stað og tók verðbólguspáin sem við birtum í síðustu viku mið af því. Við höfum nú uppfært þá spá og gerum ráð fyrir að verðbólga mælist 9,2% í október en ekki 9,0% vegna hækkunar á íbúðaverði.
Afar misjöfn þróun eftir undirliðum
Vísitala íbúðaverðs byggir á þriggja mánaða hlaupandi meðaltali mánaðarlegra gagna, annars vegar um þróun á fjölbýli og hins vegar sérbýli. Þegar rýnt er í undirliðina sést að öll verðhækkunin sem nú mælist milli mánaða skýrist af hækkun á sérbýli þar sem lítils háttar lækkun varð á fjölbýli. Að sama skapi skýrðist öll lækkunin milli mánaða síðast af lækkun á sérbýli. Mjög mikið flökt er á mælingum á sérbýli milli mánaða og því varasamt að lesa mikið í þær tölur. Þróunin á fjölbýli virðist gefa meira lýsandi mynd af markaðnum og minnkandi eftirspurn eftir íbúðakaupum, þ.e. verð hefur hækkað minna með hverjum mánuðinum þar til nú, þegar það lækkar í fyrsta sinn síðan í júní 2020. Seðlabankinn hefur gripið til þónokkurra aðgerða til þess að stemma stigu við ört hækkandi íbúðaverði, vextir hafa verið hækkaðir og lánþegaskilyrði hert sem dregur úr eftirspurn. Því má segja að þessi þróun komi ekki á óvart.
Meiri verðbólga en áður var spáð
Íbúðaverð hefur verið megindrifkraftur verðbólgunnar hér á landi á þessu ári og hefur þessi mæling því veruleg áhrif á verðbólguspá okkar fyrir október. Við gerum nú ráð 0,44% hækkun á vísitölu neysluverðs milli mánaða og að verðbólga mælist 9,2% en ekki 9%. Nú gerir skammtímaspá okkar ráð fyrir að verðbólga í árslok verði 8,6% en við höfðum áður spáð árslokastöðunni 8,4%.
Spáum 22% hækkun íbúðaverðs í ár en 5% á næsta ári
Við birtum í vikunni Þjóðhags- og verðbólguspá til ársins 2025 þar sem meðal annars er að finna spá um þróun íbúðaverðs. Þar gerum við ráð fyrir alls 22% hækkun á íbúðaverði milli ára í ár. Það er mjög mikil hækkun sem skýrist af hækkunum sem þegar eru komnar fram. Skoðun okkar er sú að það sé komið að vendipunkti á fasteignamarkaði og nú megi búast við mun hófstilltari hækkunum. Þó það komi einstaka mælingar sem sýni meiri hækkun milli mánaða en gert var ráð fyrir, er það enn okkar skoðun að almennt megi búast við rólegri tíð. Á næsta ári gerum við ráð fyrir að jafnaði 5% hækkun á íbúðaverði sem er afar hófstillt í sögulegu samhengi.