Vikubyrjun 9. september 2024
Vikan framundan
- Á morgun birtir Ferðamálastofa brottfarir um Keflavíkurflugvöll í ágúst og Vinnumálastofnun birtir skráð atvinnuleysi í ágúst.
- Á miðvikudag verða birtar verðbólgutölur í Bandaríkjum.
- Á fimmtudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Evrópu.
- Í vikunni fara síðan fram verðmælingar vegna septembermælingar vísitölu neysluverðs, en Hagstofan birtir hana föstudaginn 27. september.
Mynd vikunnar
Alls var 270 manns sagt upp í hópuppsögnum í ágústmánuði, samkvæmt tilkynningum til Vinnumálastofnunar. Þeim sem var sagt upp höfðu starfað á sviði ferðaþjónustu, tölvuframleiðslu, framleiðslu á vélum fyrir matvælavinnslu og byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Frá árinu 2021 hafa uppsagnir í hópuppsögnum aðeins einu sinni verið fleiri, en það var í maí á þessu ári þegar 441 misstu vinnuna. Hópuppsagnirnar í maí og ágúst kunna að vera merki um kólnandi hagkerfi og þar sem flestar koma til framkvæmda síðar í haust gætu þær átt eftir að kynda undir atvinnuleysi næstu mánuði.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Samkvæmt fundargerð peningastefnunefndar voru allir nefndarmenn sammála um að halda vöxtum óbreyttum á fundi nefndarinnar í ágúst, en á síðustu þremur fundum þar á undan vildi þáverandi aðstoðarseðlabankastjóri fjármálastöðugleika lækka vexti um 0,25 prósentustig. Tónninn í fundargerðinni var að okkar mati nokkuð harðurog dregur úr líkum á vaxtalækkun í ár. Meðal þess sem kom fram í fundargerðinn var að það „gæti verið þörf á því að hafa taumhald peningastefnunnar þétt í lengri tíma en ella“, að nefndin teldi „vandasamt að hægja á eftirspurn í ljósi viðvarandi hækkana launa og aukinna tilfærslna frá hinu opinbera“ og að „hugsanlega væri erfitt að ná verðbólgu niður í markmið innan ásættanlegs tíma nema hægja verulega á efnahagsumsvifum“.
- Á öðrum ársfjórðungi mældist 34 ma.kr. halli á viðskiptum við útlönd. Þetta er mun verri niðurstaða en á öðrum ársfjórðungi í fyrra þegar smávægilegur afgangur mældist. Munar langmestu um að afgangurinn af þjónustujöfnuði dróst saman á milli ára vegna þess að annar ársfjórðungur kom frekar illa út í ferðaþjónustu, en auk þess jókst hallinn á vöruskiptajöfnuði milli ára. Afgangurinn af frumþáttatekjum dróst saman og hallinn á rekstrarframlögum jókst.
- Alma íbúðarfélag, Fossar fjárfestingarbanki, Reykjavík, Kópavogur og Garðabær birtu hálfsársuppgjör.
- Arion banki seldi skuldabréf í íslensku krónum, Íslandsbanki hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum, Landsbankinn seldi skuldabréf í sænskum og norskum krónum, Fossar fjárfestingarbanki hélt víxlaútboð, Alma íbúðarfélag hélt víxlaútboð og Lánamál ríkisins héldu útboð á ríkisbréfum.
- Icelandair birti flutningstölur fyrir ágúst.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).