Vikubyrjun 23. september 2024
Vikan framundan
- Á miðvikudag birtir Seðlabankinn yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og seinni fjármálastöðugleikaskýrslu ársins.
- Á föstudag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir september og Seðlabankinn birtir ársfjórðungslega Hagvísa.
Mynd vikunnar
Í síðustu viku lækkaði Seðlabanki Bandaríkjanna vexti um 0,5 prósentustig. Að jafnaði tekur bankinn 0,25 prósentustiga skref í einu, en bankinn lækkaði síðast vexti um 0,5 prósentustig árið 2008, í miðri alþjóðlegri efnahagskreppu. Sífellt fleiri seðlabankar hafa hafið vaxtalækkunarferli, en auk Seðlabanka Bandaríkjanna hafa seðlabankar Evrópu, Svíþjóðar, Sviss og Englandsbanki lækkað vexti á þessu ári. Norski seðlabankinn hefur enn ekki hafið vaxtalækkunarferlið ekki frekar en sá íslenski. Japan sker sig úr, en Seðlabanki Japans hækkaði vexti í byrjun ágúst.
Það helsta frá vikunni sem leið
- HMS birti vísitölu íbúðaverðs, vístölu leiguverðs og mánaðarskýrslu. Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 1,4% á milli mánaða í ágúst og er hækkunin sú sjöunda í röð. Þrátt fyrir þessa hækkun á milli mánaða lækkaði árstakturinn úr 11,0% í 10,8%. Að þessu sinni var það sérbýli á höfuðborgarsvæðinu sem hækkaði mest á milli mánaða. Ólíkt íbúðaverði lækkaði vísitala leiguverðs um 1,1% á milli mánaða í ágúst. Þrátt fyrir þessa lækkun er árshækkun vísitölu leiguverðs meiri en vísitölu íbúðaverðs, eða 12,2%.
- Samkvæmt tölum um greiðslumiðlun, sem Seðlabankinn birti í síðustu viku, jókst greiðslukortavelta íslenskra heimila um 6,5% á milli ára í ágúst, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Aukningin innanlands var 3,7% á milli ára og 19,3% erlendis. Þetta bendir til þess að áfram sé þó nokkur kraftur í eftirspurn heimila eftir vörum og þjónustu, þrátt fyrir háa vexti. Kortavelta ferðamanna jókst um 3,5% á föstu gengi á milli ára í ágúst. Ferðamönnum fjölgaði um 0,3% frá fyrra ári og jókst kortavelta á hvern ferðamann því um alls 3,3% á milli ára.
- Seðlabanki Bandaríkjanna lækkaði vexti um 0,5 prósentustig og Englandsbanki hélt vöxtum óbreyttum. Verðbólga í Bretlandi var óbreytt í 2,2% á milli mánaða.
- Moody‘s hækkaði lánshæfiseinkun ríkissjóðs.
- Lánamál ríkisins héldu útboð ríkisvíxla en hættu við fyrirhugað útboð ríkisbréfa. Heimar stækkuðu áður útgefinn skuldabréfaflokk, Arion banki gaf út skuldabréf í Bandaríkjadölum sem teljast til viðbótar eiginfjárþáttar 1, Hagar héldu víxlaútboð, Reykjavíkurborg hélt skuldabréfaútboð og Landsbankinn hélt útboð á sértryggðum skuldabréfum ásamt skiptiútboði.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).