Vikan framundan
- Á morgun birtir Eurostat verðbólgutölur fyrir evrusvæðið.
- Á miðvikudag er vaxtaákvörðun hjá Seðlabanka Íslands. Við eigum von á að peningastefnunefnd sýni varkárni og haldi vöxtum óbreyttum.
- Á föstudag verða birtar atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum.
Mynd vikunnar
Samkvæmt talningu HMS á íbúðum í byggingu eru nú um 17% færri íbúðir í byggingu en á sama tíma í fyrra. Mesta fækkun milli talninga HMS er á íbúðum á fyrstu framkvæmdastigum, þ.e. ekki orðnar fokheldar. Að auki eru íbúðir sem eru á sama framkvæmdastigi milli talninga færri en í fyrri talningum. HMS telur að þetta gæti bent til þess að byggingaraðilar séu nú að leggja áherslu á að ljúka verkefnum sem þegar eru hafin fremur en að byrja á nýjum. Alls gerir HMS ráð fyrir að rúmlega 2.300 íbúðir verða fullbúnar árið 2026, sem er um fjórðungi færri en HMS gerir ráð fyrir að verði tilbúnar í ár. Mikil aukning hefur orðið á nýbyggingum í sölu að undanförnu en í nýlegri mánaðarskýrslu HMS kemur fram að 43% allra íbúða til sölu á höfuðborgarsvæðinu séu nýbyggingar og hefur hlutfallið ekki verið svo hátt síðan 2020. Einnig kemur þar fram að nýjar íbúðir seljast að jafnaði hægar en eldri íbúðir. Hlutfallslega færri nýjar íbúðir hafa selst mánuði eftir að þær fóru á sölu eftir því sem liðið hefur á árið.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Verðbólga var undir væntingum annan mánuðinn í röð í september og hjaðnaði úr 6,0% niður í 5,4%. Það var helst tvennt sem kom á óvart í þessari mælingu. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu nokkuð meira en við höfðum spáð, en flugfargjöld lækka jafnan á milli mánaða í september. Við vorum meðvituð um að niðurfelling gjalda vegna skólamáltíða í grunnskólum myndi hafa áhrif til lækkunar á liðnum hótel og veitingastaðir en vanmátum hversu mikil lækkunaráhrif myndu verða. Við uppfærðum spá okkar til næstu þriggja mánuði og gerum núna ráð fyrir að ársverðbólga verði 5,0% í október, 4,5% í nóvember og 4,4% í desember.
- Seðlabankinn birti yfirlýsingu fjármálastöðugleikanefndar og seinni fjármálastöðugleikaskýrslu ársins. Að mati nefndarinnar stendur fjármálakerfið traustum fótum. Nefndin hélt sveiflujöfnunaraukanum óbreyttum í 2,5% þar sem það er mat hennar að ekki hafi dregið úr áhættu í fjármálakerfinu og telur nefndin því mikilvægt að fjármálafyrirtæki búi við sterka eiginfjárstöðu.
- Moody’s hækkaði lánshæfismat Landsvirkjunar í kjölfar hækkunar sinnar á lánshæfismati ríkissjóðs.
- Á hlutabréfamarkaði undirrituðu Reitir samkomulag um kaup á fasteignum á Kársnesi. Alvotech hóf rannsókn á fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Entyvio. Hagar og Festi tóku ákvörðun um að hefja formlegt söluferli á eignarhlutum Olís og Festi í Olíudreifingu ehf.
- Á skuldabréfamarkaði seldi Ölgerðin víxla, Orkuveita Reykjavíkur hélt útboð á grænum skuldabréfum ásamt að ganga frá fjármögnun frá Evrópska þróunarbankanum.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).