Morg­un­fund­ur um hagspá til 2025 - upp­tök­ur og glær­ur

Hagspá Landsbankans til ársins 2025 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 19. október 2022 og í kjölfarið tóku við fjörugar pallborðsumræður um stöðu og horfur á vinnumarkaði.
20. október 2022

Hagfræðideildin spáir 6,5% hagvexti á þessu ári, þeim mesta frá 2007, en að svo hægi töluvert á hagkerfinu. Samkvæmt spánni byrja stýrivextir að lækka á seinni hluta ársins 2023 en verðbólga fer ekki undir 4% fyrr en árið 2025. Á þessu ári stefnir í að kaupmáttur dragist saman um 0,4% og að hann muni aðeins aukast um 0,5% á næsta ári, mun minna en undanfarin ár.

Kröftugur hagvöxtur en kaupmáttur dregst aftur úr

Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildarinnar, sagði að margt benti til þess að tekið væri að hægja á hagkerfinu og þótt horfur í efnahagsmálum hér á landi væru almennt mjög góðar ríkti samt töluverð óvissa, einkum vegna mikillar verðbólgu og versnandi efnahagshorfa á heimsvísu. Óvissa vegna kjarasamninga væri líka mikil.

Spá um verulega aukinn hagvöxt á þessu ári byggir aðallega á því að fleiri ferðamenn komi til landsins en Hagfræðideildin gerði ráð fyrir í maí. Hagvöxtur til næstu ára ræðst einnig að stórum hluta af fjölda ferðamanna. Verði efnahagsástandið erlendis verra og ferðavilji fólks minni má búast við minni hagvexti. Verði ástandið betra mun ferðamönnum fjölga hraðar og hagvöxtur aukast hraðar.

Horfa á erindi Unu

Einstök kaupmáttarþróun síðustu 12 ár – en hvað svo?

Ari Skúlason

Kjarasamningar eru einn af stóru óvissuþáttunum í hagspánni og í erindi Ara Skúlasonar, hagfræðings í Hagfræðideild, var kastljósinu beint í þá áttina. Ari sagði að þróun launa og kaupmáttar á síðustu árum hefði verið verulega góð. „En í þessum heimi eru menn mjög lítið fyrir að tala um góðan árangur og hæla sér fyrir hvað það hafi gengið vel. Neikvæða umræðan er yfirleitt algengari en sú jákvæða,“ sagði Ari. Frá upphafi árs 2010 fram í júní 2022 hefði kaupmáttur aukist um rúmlega 50%. Hrunið árið 2008 hefði vissulega reynst erfitt en í kjölfarið hefði vinnumarkaðurinn staðið mjög vel saman að því að bæta það sem illa fór.

Ari ræddi einnig um misjafna stöðu launafólks eftir síðasta samningatímabil. Það væri skýrt að laun þeirra lægst launuðu hefðu hækkað mest, sem væri einmitt það sem stefnt hefði verið að. Laun iðnaðarmanna og sérfræðinga hefðu t.d. hækkað mun minna en verkafólks og afgreiðslufólks. Kaupmáttur þeirra lægst launuðu hefði einnig hækkað mest. Þar af leiddi að staða mismunandi hópa við upphaf samningaviðræðna væri mjög misjöfn.

Horfa á erindi Ara

Upptaka frá fundinum

Fjörugar pallborðsumræður um stöðuna á vinnumarkaði

Eftir erindi þeirra Unu og Ara tóku við fjörugar pallborðsumræður með þátttöku þeirra Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, sitjandi forseta Alþýðusambands Íslands og formanns Rafiðnaðarsambands Íslands, Rannveigar Sigurðardóttur, varaseðlabankastjóra og Sonju Ýrar Þorbergsdóttur, formanns BSRB. Fjölmiðlakonan Fanney Birna Jónsdóttir stýrði umræðum.

Kristján Þórður lagði áherslu á að hafa yrði í huga hvaða þættir það væru sem helst væru að valda verðbólgu, þ.e. hækkandi húsnæðisverð og ytri þættir á borð við hærra verð á innfluttum vörur og hrávörum. Í kjarasamningum yrði að tryggja stöðu heimilanna. Verðbólga kæmi niður á heimilunum og gæta yrði að því að laun stæðu undir þeim útgjöldum. Það skipti einnig miklu máli að hugsa um hvernig samfélagið gæti stutt við heimilin og þar gegndu stjórnvöld mikilvægu hlutverki.

Sonja Ýr sagði m.a. að þegar verið væri að bera saman launaþróun á almennum markaði og hjá hinu opinbera, yrði að hafa í huga að launin væru lægst hjá hinu opinbera, og allra lægst hjá sveitarfélögunum. Hún benti einnig á að meginástæðan fyrir launamun kynjanna lægi einkum í kynjaskiptingu vinnumarkaðarins. Sum störf væru frekar unnin af konum, aðallega í almannaþjónustu og hjá hinu opinbera, og þau væru verr launuð en karlastörfin. „Það eru alltaf kvennastéttirnar sem fá lægstu launin. Við getum raunverulega sagt að þessar konur hafi verið skila sinni vinnu og halda uppi velferðinni á afslætti á undanförnum áratugum. Það er komið að því að leiðrétta það. Og það verður stóra málið í næstu kjarasamningum hjá okkur.“

Meðal þess sem Halldór Benjamín sagði var að ómögulegt væri að hækka kaupmáttinn þegar verðbólgan væri um 10%. Eina leiðin til að auka kaupmátt væri að skapa skilyrði fyrir lækkandi verðbólgu. „Það er engin leið, það er engin kanína í hattinum, sem verður þess valdandi að við getum bætt í kaupmátt launa ef verðbólga er níu prósent, tíu, fimmtán eða tuttugu prósent. Það er útilokað og það þýðir ekki einu sinni að reyna.“

Rannveig taldi helstu óvissuna í efnahagsmálum vera vegna komandi kjarasamninga. Það skipti verulegu máli að ná samningum sem fyrst, m.a. til að draga úr óvissu og slá á verðbólguvæntingar. Það skipti miklu máli að ekki yrði reynt að ná kaupmættinum mikið upp strax, að samningarnir yrðu ekki framhlaðnir. „Það skiptir verulega miklu máli að samningarnir taki mið af því að byggja kaupmáttinn upp til framtíðar, þannig að við lok samningstímans verði góður kaupmáttur.“

Horfa á umræður

Hagspá Hagfræðideildar Landsbankans 2022-2025

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hagspá 2022
19. okt. 2022
Hagspá 2022-2025: Kröftugur hagvöxtur en kaupmáttur dregst aftur úr
Við spáum 6,5% hagvexti hér á landi á þessu ári, þeim mesta frá árinu 2007, en að svo hægi töluvert á. Verðbólga hjaðni smám saman en fari þó ekki undir 4% fyrr en árið 2025. Við búumst við að stýrivextir byrji að lækka á seinni hluta næsta árs og vegna verðbólgu aukist kaupmáttur mun hægar en undanfarin ár.
Hlaðvarp
21. okt. 2022
Hagspáin – hver er staðan og hvert stefnum við?
Hagfræðideildin kynnti nýja þjóðhags- og verðbólguspá í Hörpu 19. október sl. og hlaðvarpið er að þessu sinni tileinkað henni. Una Jónsdóttir, Ari Skúlason, Gústaf Steingrímsson og Hildur Margrét Jóhannsdóttir fara yfir það helsta úr spánni; hagvöxtinn, verðbólguna, ferðamenn, kaupmátt, óvissuna og fleira. Þau ræða það hvað hefur gerst á síðustu mánuðum og hvernig má búast við að hagkerfið þróist á næstu árum.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur